Skip to content

Posts from the ‘Uncategorized’ Category

Leitin að vöfflunum

Undanfarnar vikur hef ég reynt mig áfram með nokkrar vöffluuppskriftir í þeirri von um að finna hina einu réttu. Mig langaði í vöfflujárn allan þann tíma sem við bjuggum í Bandaríkjunum en hélt aftur af mér í þeim raftækjakaupum. Ég varð því himinlifandi þegar ég komst að því að Elmar ætti klassískt vöfflujárn og ennþá glaðari þegar ég fékk belgískt vöfflujárn í þrítugsafmælisgjöf frá systur minni. Nú skyldi ég sko baka vöfflur um hverja einustu helgi.

photo (7)

Einhvern veginn hélt ég að þetta yrði ekkert svo flókið mál. Ég meina, ég er orðin sérfræðingur í amerískum pönnukökubakstri (sjá hér) og það er nú ekkert svo mikill munur á þessu tvennu. Frá því að við fluttum í Vesturbæinn hef ég bakað vöfflur um hverja helgi. En ég hef orðið fyrir vonbrigðum í hvert einasta skipti.

Þær eru ýmist of þurrar, of bragðlitlar eða of þungar í sér. Mér er því farið að líða eins og Gullinbrá í sögunni um ljóshærðu vandfýsnu stúlkuna og kynni hennar af bjarnafjölskyldu. Vöfflu-nirvana mitt virðist utan seilingar og ég gæti farið að örvænta ef svona heldur lengi áfram. Því hef ég enga uppskrift handa ykkur í þetta skiptið – aðeins smá væl og myndir af allt-í-læ vöfflum sem reyndust ágætar með mjög miklu kanadísku hlynsírópi hellt yfir. Og þar sem mér dettur ekki í hug að bjóða ykkur upp á annað en það allra besta þá bíður vöffluuppskrift betri tíma.

Síðasta færslan úr Vesturheimi

Þetta er síðasta færslan mín úr Vesturheimi. Ég byrjaði að skrifa í ágúst 2010 þegar ég sá fram á langvarandi atvinnu- og athafnaleysi. Bloggið var eiginlega skapað fyrir fjölskyldu og vini sem vildu fá að fylgjast með hvað við værum að dunda okkur við hérna úti. Það kom mér því mjög skemmtilega á óvart þegar ég fékk fyrstu athugasemdirnar frá fólki sem ég hafði aldrei hitt áður. Að skrifa blogg er nefnilega stundum eins og að hugsa upphátt og vona að einhver sé að leggja við hlustir.

Bloggið var, í huga mér, alltaf bundið við dvöl okkar hérna úti. Leið til að tengja sjálfa mig heim til Íslands í gegnum mat og skrif. Mér líður því eins og ég standi á vissum tímamótum og þarf að átta mig á hvort að innblásturinn til að skrifa verði sá hinn sami þegar heim kemur. Ég ætla því að taka mér smá pásu frá bloggskrifum, einbeita mér að því að koma okkur fyrir heima og njóta þess að vera í kringum fjölskyldu og góða vini.

Takk kærlega fyrir allan stuðninginn síðustu ár og mikið vona ég að þið lítið við þegar ég fer að hamra á lyklaborðið aftur.

Músagangur

Það er því miður viðvarandi pása á blogginu. Ekki sökum þess að ég vilji ekki elda, baka, blanda og blogga heldur vegna þess að við eigum í mestum vandræðum með litlu íbúðina okkar. Eftir yndislegt páskafrí með foreldrum Elmars í einni fallegustu íbúð sem ég hef séð í borginni þá komum við aftur í stúdíóíbúðina okkar. Þegar ég var að ganga frá matnum heyrði ég tíst og krafs undir eldhúsinnréttingunni. Mús.

Við lögðum fáránlega margar gildrur út um alla íbúð og reyndum að sofa. Ekki varð mikið úr svefni þar sem ég lá með Þórdísi við hlið mér og hlustaði á músina naga og klóra. Á endanum þurfti að rífa út eldhúsinnréttinguna til að fylla upp í holur sem lágu þar bak við. Við veiddum síðan músina og héldum að nú væri ævintýrið á enda og íbúðin orðin okkar aftur.

En það var aðeins of bjarstýnt og nú býr að minnsta kosti ein önnur mús einhvers staðar inni hjá okkur. Við erum flutt inn í gestaherbergi eigendanna á meðan verktakar reyna að loka öllum mögulegum inngangsleiðum inn í íbúðina. Ég þarf kannski ekki að taka fram að ég hef ekki verið mjög spennt fyrir að nota eldhúsið eða gera nokkuð þar inni sem gæti skapað fæðu fyrir mýsnar.

Ég býst því ekki við að ég muni skrifa um mat hér fyrr en lausn hefur fengist á þessum vanda og ég get andað léttar inni í litla rýminu okkar. Vonandi get ég farið að elda og mynda mat von bráðar.

Nú árið er liðið í aldanna skaut

Gleðilegt nýtt ár kæru matarunnendur og takk fyrir samfylgdina á liðnu ári. Þetta ár er vægast sagt búið að vera viðburðarríkt hjá okkur. Hér er smá yfirlit:

Við hófum nýja árið heima á Íslandi. Við skáluðum fyrir nýju upphafi á Akureyri heima hjá fjölskyldu Elmars. Ég flaug síðan suður strax eftir áramót þar sem foreldrar mínir voru á leið í aðgerð. Mamma mín gaf pabba mínum nýra og ég var heima fram í febrúar þar sem ég ætlaði að búa vel um þau og hjálpa systur minni að reka heimilið á meðan þau voru að jafna sig. Ég þarf örugglega ekki að taka fram hversu óendanlega stolt ég er að mömmu minni og hversu þakklát ég er fyrir að allt gekk vel. Ég á nefnilega heimsins bestu foreldra.

Sama dag og foreldrarnir voru í aðgerð heimtaði Elmar að ég tæki óléttupróf. Ég var full efasemda og fannst það nú vera helst til mikil bjartsýni að halda að ég væri loksins orðin ófrísk. En viti menn, í miðri aðgerð hjá pabba komst ég að því að lítill erfingi væri á leiðinni. Stuttu seinna tók við morgunógleði sem varði allan liðlangan daginn, ég lá hluta dags á baðherbergisgólfinu og fúlsaði við öllu sem var ekki ristað brauð eða vatnsmelóna. Bloggið lá niðri og greyið Embla systir þurfti að sjá um okkur öll (og passa að mamma færi sér ekki að voða við að koma sér sem fyrst á fætur – hún er svolítið óþekk).

LESA MEIRA

Leiðrétting

Í Sunnudagsmogganum sem var borinn út í dag birtist umfjöllun um bloggið mitt ásamt öðrum frábærum íslenskum matarbloggum. Sem er auðvitað mjög skemmtilegt og ég er mjög þakklát að fá að vera hluti af þessum góða hóp. Ég verð samt að leiðrétta afar leiðinlega prentvillu í umfjölluninni um mitt blogg. Þar stendur:

Nanna hefur lýst því yfir að í litla eldhúsinu sínu noti hún gervisykur og unnin matvæli.

Þetta er auðvitað ekki rét þar sem ég er alfarið á móti mikið unnum matvælum og gervisykri! Ég legg mikið upp úr því að nota besta og hreinasta hráefni sem ég hef kost á og aðgang að. Ég hef aldrei birt uppskrift hér á blogginu sem notar gervisykur og mér er meinilla við mikið unnin matvæli. Orðið ,ekki’ átti auðvitað að koma fyrir í þessari setningu. Það er þess virði að kíkja á blaðið samt sem áður en þar eru níu önnur stórgóð blogg sem fá umfjöllun.

Árið kvatt

Og takk kærlega fyrir samfylgdina á liðnu ári. Ég hef skemmt mér alveg stórkostlega við að skrifa þetta blogg og það hefur verið mikil hvatning við að búa til nýja rétti – hvort sem þeir slá í gegn eða mistakast hrapallega. Það sem mér hefur samt fundist langskemmtilegast er að heyra frá ykkur, hvort sem það er á fésbókinni, twitter eða í athugasemdum hérna. Mér hefði ekki dottið í hug að lesendur myndu baka kanillengjuna fyrir eiginmanninn á brúðkaupsafmæli sínu, deila uppskriftum og smákökum á kaffistofunni á slysó eða baka heil ósköp af kanilsnúðum fyrir skírnarveisluna. Þið eruð frekar frábær.

Þar sem árið er víst liðið í aldanna skaut þykir okkur við hæfi að sýna ykkur hvaða réttir hafa verið í uppáhaldi hjá okkur á þessu ári. Ef þið smellið á myndina þá eigið þið að flytjast yfir á uppskriftina sjálfa. [Afsakið hvað gömlu færslurnar eru lengi að hlaða inn myndum. Þetta fór í smá rugl þegar ég skipti um útlit en ég ætla mér að vera dugleg að laga þetta í ár.]

Það er margt sem hefur veitt mér innblástur á þessu ári og mér finnst gott að kveðja árið með því að deila því með ykkur.

Matarbloggið hennar Joy the Baker hefur alltaf fengið mig til að brosa og hvatt mig til að eiga endalausar birgðir af smjöri og sykri.

Allar uppskriftir sem ég hef prófað frá Deb á Smitten Kitchen hafa verið óendanlega ljúffengar.

Ragnar Freyr hefur bloggað núna í rúm fimm ár og metnaður hans í eldhúsinu er bráðsmitandi.

Canelle et Vanille er með eitt fallegasta matarblogg sem ég hef séð á netinu.

Ljósmyndablogg Oliviu á  Everyday Musings er glaðvært og fallegt – ég fyllist allsvakalegri ferðaþrá þegar ég skoða myndirnar hennar og hún hefur gert það að verkum að ég læt mig dreyma um ferð til Charleston. Ég skoða líka ljósmyndirnar hennar Kollu á Augnablik reglulega, heimurinn er einstaklega fallegur í gegnum linsuna hennar.

Edda birtir myndir á Inciting Incidents sem vekja blundandi heimþrá.

Embla Ýr, litla systir mín, sem er heimsins mesti töffari.

Og þessi ótrúlegi maður –  sem hefur drepið mús fyrir mig á meðan ég nagaði neglurnar niður í kviku, haldið í höndina á mér í hvert skipti sem ég verð kvíðin, hvatt mig óspart til að sinna blogginu og ljósmynduninni, fengið mig til að hlæja að fáránlegustu hlutum og gert grín að mér þegar ég tek mig of alvarlega.

%d bloggurum líkar þetta: