Leitin að vöfflunum
Undanfarnar vikur hef ég reynt mig áfram með nokkrar vöffluuppskriftir í þeirri von um að finna hina einu réttu. Mig langaði í vöfflujárn allan þann tíma sem við bjuggum í Bandaríkjunum en hélt aftur af mér í þeim raftækjakaupum. Ég varð því himinlifandi þegar ég komst að því að Elmar ætti klassískt vöfflujárn og ennþá glaðari þegar ég fékk belgískt vöfflujárn í þrítugsafmælisgjöf frá systur minni. Nú skyldi ég sko baka vöfflur um hverja einustu helgi.
Einhvern veginn hélt ég að þetta yrði ekkert svo flókið mál. Ég meina, ég er orðin sérfræðingur í amerískum pönnukökubakstri (sjá hér) og það er nú ekkert svo mikill munur á þessu tvennu. Frá því að við fluttum í Vesturbæinn hef ég bakað vöfflur um hverja helgi. En ég hef orðið fyrir vonbrigðum í hvert einasta skipti.
Þær eru ýmist of þurrar, of bragðlitlar eða of þungar í sér. Mér er því farið að líða eins og Gullinbrá í sögunni um ljóshærðu vandfýsnu stúlkuna og kynni hennar af bjarnafjölskyldu. Vöfflu-nirvana mitt virðist utan seilingar og ég gæti farið að örvænta ef svona heldur lengi áfram. Því hef ég enga uppskrift handa ykkur í þetta skiptið – aðeins smá væl og myndir af allt-í-læ vöfflum sem reyndust ágætar með mjög miklu kanadísku hlynsírópi hellt yfir. Og þar sem mér dettur ekki í hug að bjóða ykkur upp á annað en það allra besta þá bíður vöffluuppskrift betri tíma.