Skip to content

Ferskju- og engifersulta

Ég fékk stóran bakka af lífrænum ferskjum beint frá bóndabæ rétt fyrir utan borgina um daginn. Ég var nýbúin að búa til þessa gómsætu ferskju- og bláberjaböku og var alls óviss um hvað ég vildi gera við tæpt kíló af ferskjum. Ég klóraði mér í hausnum, þreifaði á ferskjunum og ákvað að þær mættu alveg bíða í nokkra daga í viðbót. En svo gleymdi ég þeim. Sem er eiginlega alveg fáránlegt þar sem íbúðin okkar er rétt rúmlega 30 fm og því ætti nákvæmlega ekkert að fara fram hjá mér heima fyrir. En svo fór sem fór og þegar ég rak augun í þær í morgun sá ég að ég þyrfti að gera eitthvað í málunum. Ég ákvað þess vegna (í allra fyrsta skipti á ævi minni!) að búa til sultu. Með hnút í maganum og hausinn fullan af óákveðni skellti ég nokkrum hráefnum í pott og sauð í tæplega hálftíma. Og viti menn! Sultan er ákaflega vel heppnuð. Hún er sæt og bragðmikil og engiferið hitar bragðlaukana eftir að ferskjubragðið hefur leikið sér á tungunni. Ég vildi bara óska að ég gæti sent mömmu minni krukku.   

Ferskju- og engifersulta

 • 600 g (sirka) þroskaðar ferskjur
 • 100 g sykur
 • 1 1/2 dl engifersýróp

Aðferð:

Náið suðu upp í stórum potti. Setjið ferskjurnar varlega út í vatnið og leyfið að sjóða í tæpa 1 mínútu. Takið ferskjurnar upp úr og flytjið yfir í skál með ísköldu vatni. Takið ferskjurnar upp úr, eina í einu, klípið í hýðið og takið það af. Skerið ferskjurnar í tvennt, fjarlægið steininn og maukið aldinkjötið (þetta voru rúmlega 500 g af ferskjumauki).

Setjið öll hráefnin í stóran, breiðan pott og leyfið að sjóða í ca. 20 – 30 mínútur. Það er hægt að sjá hvort að sultan sé til með því að mæla hitann (hitinn á að ná svona 100°C), eða setja dropa á frystan disk og leyfa að standa í eina mínútu, potið síðan í sultuna og ef hún krumpast þá er hún tilbúin.

Setjið sultuna ofan í krukkur (ég fyllti tæplega 2 Bonne Maman krukkur), skrúfið lokið á og geymið inni í ísskáp. Sultan geymist í tæpan mánuð í kæli.

Ef þið viljið að sultan geymist mun lengur þá þarf að setja fylltu krukkurnar (lokaðar) ofan í pott af sjóðandi vatni og leyfið að sjóða í 10 mínútur. Takið upp úr og leyfið að kólna á litlu handklæði. Passið að lokið á krukkunum hafi sogast við barminn og lokað krukkunni algjörlega. Geymið á dimmum og köldum stað í allt að eitt ár.

[Sultan er góð ofan á brauð og er frábær með hvítmygluosti.]

2 athugasemdir Post a comment
 1. Auður #

  Ég sá einmitt fyrir mér camembert ofaná kex og hvítvínsglas með þessari dýrindis sultu.

  Endilega vertu svo í Fréttablaðinu oftar ;)

  25/08/2011
  • Við erum svo samstillar Auður!

   25/08/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: