Skip to content

Sítrónumöffins með birkifræjum

Í dag er víst Bóndadagurinn og ég vildi óska að ég gæti sagt að ég bakaði þessi dýrindis möffins í tilefni þess en ekki vegna þess að eldamennskan í gærkvöldi fór aðeins úr böndunum. Ég ætlaði að vera einstaklega húsleg í gær og tæklaði svínakjötsrétt úr nýju japönsku kokkabókinni sem minn heittelskaði gaf mér í jólagjöf. Ég gerði allt eftir bókinni og útkoman var ljúffeng (færsla væntanleg) nema ég hefði kannski átt að pæla í því að eldhúsið er viftu- og gluggalaust áður en ég fór að steikja sojamarinerað kjöt á sjóðandi heitri wokpönnu. Í stuttu máli þá lagðist blindþoka yfir alla íbúðina og skildi eftir sig sterka brælu af svínakjöti og soja. Sem væri allt í lagi nema íbúðin okkar er bara með glugga á einni hlið (s.s. engin gegnumtrekkur í boði) og er bara eitt lítið rými (við eiginlega sofum í eldhúsinu). Þannig að þrátt fyrir að skilja alla glugga eftir galopna allt kvöldið og hálfa nóttina þá var ennþá megn lykt þegar við skriðum á fætur í fimbulda í morgun. Og það er þess vegna sem ég ákvað að koma bökunarlykt inn í íbúðina til að bæta ástandið. Og til að gleðja Elmar auðvitað.

Annars lagðist ég í smá rannsóknir til að komast að því hvaðan ,,poppy seeds“ koma. Þetta eru birkifræ, nánar tiltekið blá birkifræ, og það er hægt að kaupa þau meðal annars (ta-da!) í Tiger. Ég keypti mín reyndar dýrum dómi í Whole Foods því ég nennti hreinlega ekki að fara niður í Chinatown til þess eins að vaða slabbið upp að hnjám og reyna að pota mér áfram í gegnum mannþvöguna á Canal Street svo ég gæti sparað nokkra dali. Annars er ég að elska svona birkifræ í bakstur og þau eru sérstaklega falleg í þessum fölgulu múffum. Kremið er sykursprengja þannig að ef þið eruð á móti slíkum lúxus (eða fáið hjartsláttatruflanir eins og ég) þá myndi ég bara sleppa því.

 

Sítrónumöffins með birkifræjum og sítrónuglassúr

(Frá Joy the Baker)

170 g sykur

1 sítróna, börkur rifinn og safinn kreistur úr

220 g hveiti

2 tsk lyftiduft

1/4 tsk matarsódi

1/4 tsk salt

12 msk (3/4 bolli) sýrður rjómi

2 stór egg

1 tsk vanilludropar

115 g smjör

2 msk blá birkifræ

2 msk sykur (til að dreifa ofan á múffurnar áður en þeim er stungið inn í ofninn)

Aðferð:

Forhitið ofninn í 400°F/200°C.

Takið fram möffinsform og setjið pappírsformin ofan í. (Ef þú átt ekki slíkt form þá er auðvitað hægt að notast einungis við pappírsformin.) Setjið möffinsformið ofan á bökunarpappír og setjið til hliðar.

Bræðið smjörið í potti þangað til það fer að brúnast. Slökkvið undir pottinum og setjið til hliðar svo smjörið kólni.

Hellið sykrinum í stóra skál og rífið sítrónubörkinn yfir. Blandið þessu vel saman þangað til að sykurinn tekur á sig gulleitan blæ og fer að anga af sítrónunni. Hrærið hveitinu, lyftiduftinu, matarsódanum og saltinu vel saman við.

Í meðalstórri skál hrærið eggin svo að það losni um rauðuna. Hrærið saman sýrða rjómanum, vanillunni, smjörinu og sítrónusafanum. Passaði að allt sé vel hrært saman.

Blandið blautefnunum varlega saman við þurrefnin. Best er að hella blautefnunum yfir í þurrefnin og nota síðan spaða til að fara neðst í skálina og breiða svo því varlega yfir efsta lagið, þannig helst deigið loftmikið og möffinsin verða síður þurr og þétt í sér. Þegar deigið er næstum blandað saman hellið þá birkifræjunum út í og klárið að blanda saman.

Skiptið deiginu niður í formin og stráið smá sykri yfir hvert möffins.

Bakið í miðjum ofni í ca. 15 til 18 mínútur eða þangað til að þær taka á sig gylltan blæ og ekkert deig kemur á tannstöngul sem stungið er í miðja múffu.

Leyfið þeim að kólna í 5 mínútur, takið síðan úr múffuforminu og leyfið að kólna alveg á grind áður en glassúrinn er settur á.

Sítrónuglassúr

70 g flórsykur

3 msk sítrónusafi

Aðferð:

Hrærið vel saman og setjið á múffurnar þegar þær hafa kólnað.

Fyrir 12 möffins

5 athugasemdir Post a comment
 1. Embla #

  Mouth-watering.

  21/01/2011
 2. Ég VISSI að þú myndir fíla þetta, Embla Ýr!

  21/01/2011
 3. Auður #

  Þú ert nú meiri upstage-arinn að vera með svona umstang á bóndadaginn Nanna mín! Elmar er heppinn maður.

  Annars nota ég oft trixið að brenna ilmolíu í stað þess að baka þegar mér finnst matarlyktin einum of agressív.

  22/01/2011
 4. Halldór Þormar Halldórsson #

  Takk fyrir þessa uppskrift. Skv. því sem ég hef fundið koma „poppy seeds“ af Opium Poppy plöntunni (Papaver somniferum), en úr henni er einnig unnið Opium. Þaðan kemur Poppy- nafnið. Ég man eftir máli sem kom upp fyrir nokkrum árum í Finnlandi þar sem nokkur hópur fanga féll á lyfjaprófi eftir að hafa borðað töluvert af rúnstykkjum með poppy seeds í matsal fangelsins, því fræin innihalda örlítið magn af Opium. Það kann þó að vera að hér á landi séu frekar notuð birkifræ.
  Með góðri kveðju
  Halldór Þormar Halldórsson

  15/10/2012

Trackbacks & Pingbacks

 1. Ofnbakað rigatoni með eggaldini og furuhnetum « Eldað í vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: