Marmarakaka
Eftir langa bið er litla lambið okkar mætt á svæðið. Þórdís Yrja fæddist á Hreiðrinu fyrir rétt rúmri viku og hefur í þessa fáu daga gert foreldrana svo ofboðslega stolta og ástfangna að það keyrir fram úr öllu hófi. Fæðingin og allt sem því fylgir gekk eins og í sögu undir góðri leiðsögn yndislegra ljósmæðra. Ég er svo fegin því að hafa komið heim til Íslands og átt stúlkuna hér því þjónustan er svo framúrskarandi og persónuleg. Ég veit fyrir víst að slíkt hefði aldrei boðist í New York (nema fyrir svimandi háa peningaupphæð).
Þið verðið því að afsaka ef færslur verða stopular næstu vikurnar en ég ætla samt að reyna að gera mitt besta að birta uppskriftir og myndir. Ef Þórdís Yrja heldur áfram að vera svona vær og góð býst ég nú samt við að ég geti uppfært síðuna nokkuð reglulega. Sérstaklega þar sem ég bý svo vel að því að eiga systur sem elskar að baka og foreldra sem eru meistaralega flinkir í eldamennsku.
Það var í miðri mjólkurþoku sem við mæðgur sátum inni í eldhúsi hjá systur minni og móður og fylgdumst með þeim baka bestu marmaraköku sem ég hef fengið. Gallinn við flestar marmarakökur, að mínu mati, er að það er ekki nógu skýr bragðmunur á súkkulaði- og vanilludeiginu og þó að kakan sé oft góð þá er hún kannski ekki það góð að maður skeri sér sneið eftir sneið. Þessi uppskrift gefur því öðrum marmarakökuuppskriftum langt nef. Í súkkulaðideiginu er bæði brætt dökkt súkkulaði og kakó, sýrður rjómi ljær kökunni bæði þéttleika og kemur í veg fyrir að hún verði þurr. Uppskriftin er stór (næg í tvö 26 cm brauðform) og því má frysta aðra kökuna til að eiga síðar meir, borða báðar strax eða skera uppskriftina niður um helming. Embla Ýr breytti uppskriftinni aðeins en hún kemur upprunalega frá hinu stórgóða Baked bakaríi í Brooklyn.
Marmarakaka
(Breytt uppskrift frá Matt Lewis & Renato Poliafito: Baked: New Frontiers in Baking)
- 170 g dökkt súkkulaði (60-72%), saxað gróft
- 1 tsk dökkt kakóduft
- 3.5 bollar [440 g] hveiti
- 1.5 tsk lyftiduft
- 1.5 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 250 g smjör, ósaltað og mjúkt (samt svolítið kalt), skorið í 2 sm stóra bita
- 2.25 bolli [150 g] sykur
- 4 stór egg
- 360 ml sýrður rjómi
- 2 tsk vanilludropar
Aðferð:
Setjið skál ofan í pott með hægsjóðandi vatni (passið að vatnið nái ekki upp að botni skálarinnar). Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið. Þegar súkkulaðið er orðið kekkjalaust skulið þið bæta kakóduftinu saman við og hrærið þar til það hefur blandast alveg saman við súkkulaðið. Takið skálina af hitanum og setjið til hliðar.
Hitið ofninn í 180°C / 350°F. Smyrjið tvö 26 sm brauðform, eða eitt 26 sm bundt form (hringlaga form með gati í miðjunni).
Sigtið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman í meðalstóra skál.
Þeytið smjörið í hrærivél þar til það verður kekkjalaust. Bætið sykrinum saman við og þeytið þar til blandan er kekkjalaus og létt í sér. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þeytið vel á milli.
Bætið sýrða rjómanum og vanilludropunum saman við og þeytið þar til það hefur rétt svo blandast inn í deigið. Bætið þurrefnunum saman við í þremur lotum og þeytið þar til það hefur rétt svo blandast saman við. Ekki þeyta deigið of mikið!
Hellið einum þriðja af kökudeiginu ofan í súkkulaðiskálina. Notið sleikju til að blanda súkkulaðinu vel saman við kökudeigið.
Setjið helminginn af ljósa deiginu ofan í brauðformin tvö. Sléttið úr. Deilið súkkulaði deiginu á milli formanna og sléttið úr. Takið fram brauðhníf og dragið hann í gegnum deigið í hlykkjum. Deilið restinni af ljósa deiginu yfir. Takið aftur fram brauðhnífinn og ‘gatið’ í gegnum miðjuna (langsum) á deiginu með 2 sm millibili. Þetta býr til mynstrið.
Setjið kökurnar inn í ofn og bakið í 60 – 70 mínútur, eða þar til það hefur bakast í gegn.
Leyfið að kólna í formunum í 30 mínútur. Leysið svo kökurnar úr formunum með því að skera meðfram hliðunum.
Mikið er þetta yndisleg stúlka. Innilega til hamingju (þó við þekkjumst ekkert).
Hef fylgst með pistlunum þínum og hef mjög gaman af að lesa og prófa : )
Gangi ykkur vel.
Kveðja,
Stella Aðalsteinsdóttir
Til hamingju með Þórdísi Yrju ;) væri gaman að fá mynd af henni í vöggunni með áklæðinu senda til að eiga í „vöggualbúminu“ sem á að fylgja vöggunni minni ;) myndir af börnum sem hafa verið í vöggunni eða með vögguklæðið ;)
Skal gert :) Takk fyrir lánið!
Fallega stúlka!
Til hamingju með litlu Þórdísi Yrju, fallegt nafn á fallegri stúlku. Knús á ömmuna og afann! :)
Til hamingju með fallegu dótturina og fallega nafnið hennar!
Innilega til hamingju með fallegu dótturina. Gangi ykkur vel að kynnast :) Ég þekki þig ekki en fylgist reglulega með síðunni og hef prófað marga rétti.
Innilega til hamingju með litlu stúlkuna þína, hún er undurfögur og fékk fallegt nafn :-)
Takk fyrir dýrðlegar uppskriftir og til hamingju með dótturina undurfallegu!
Innilega til hamingju :)
Til hamingju með fallegu stúlkuna :) Ég verð að taka undir það að marmarakökur valda oft vonrigðum en þessi lítur rosalega vel út!
Húrra! Til hamingju :)
Þessi marmarakaka er guðdómleg. Takk fyrir mig.