Skip to content

Posts from the ‘Kaka’ Category

Reine de Saba [Frönsk möndlu- og súkkulaðikaka]

Elmar átti afmæli í síðustu viku og við áttum mjög góðan og afslappandi dag saman. Ég eldaði kræklinga um kvöldið og við fengum okkur dýrindis osta úr Murray’s Cheese Shop og sneið af þessari köku í eftirmat. Ég hef sagt það áður að mér finnst einstaklega gaman að búa til afmæliskökur og mér finnst að allir eigi að fá heimabakaða köku á afmælisdeginum.

Ég gróf þessa uppskrift upp úr bók sem mér þykir afskaplega vænt um, Mastering the Art of French Cooking. Þóra frænka mín gaf mér hana stuttu eftir að ég tók ástfóstri við eldhúsið. Bókin hefur gefið mér mikinn innblástur og kjark til að tækla uppskriftir sem ég hefði annars aldrei þorað að hjóla í. Kakan var ómótstæðilega ljúffeng með ríku súkkulaðibragði og miklu möndlubragði í bland.

SJÁ UPPSKRIFT

Ólívuolíukaka

Undanfarna morgna hef ég labbað út á uppáhaldskaffihúsið mitt, Glass Shop, í þeirri veiku von að fá margrómuðu ólívuolíukökuna þeirra með kaffibollanum mínum. En hún er alltaf búin. Étin upp til agna af árrisulu vinnandi fólki. Þar sem mér er meinilla við fýluferðir þá fæ ég mér eitthvað annað – pain au chocolat, croissant eða smjördeigshorn með eplabitum. Núna ákvað ég samt að taka málin í mínar eigin hendur og baka álíka köku sjálf til að eiga með kaffinu.

Uppskriftin að þessari köku er upprunalega frá Abraço á Manhattan og birtist í einhverju gömlu Bon Appétit-blaði. Ég gróf hana síðan upp á fallega blogginu hennar Alice Gao. Hún er mild, létt og fullkomin með kaffinu. Upprunalega á að nota sítrónubörk í deigið en ég notaði rifinn börk af greipi – ég hugsa að börkur af öðrum sítrusávöxtum muni líka passa vel. Þetta er mögulega einfaldasta kaka sem ég hef bakað og mig grunar að hún eigi eftir að vera bökuð margoft í framtíðinni þegar von er á góðum gestum í kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Torta di Pere [Perukaka með dökku súkkulaði]

Ég er greinilega sólgin í ítalskan mat þessa dagana. Í þessari viku hef ég borðað pasta, lasagna, heimalagaða pítsu og ó-svo-margar sneiðar af þessari ljúffengu köku. Ég hef líka verið að sötra ítalska drykkinn Negroni – blanda af gini, sætum vermút og Campari – einstaka kvöld eftir að hafa svæft Þórdísi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég reyni að drekka Negroni en ég hef alltaf fúlsað við Campari. Líklega sökum þess að ég stalst einhvern tímann sem unglingur til að taka gúlsopa úr flösku sem foreldrar mínir áttu og fannst það ó-geð-slegt. Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist drykkurinn góður eða bara hræðilega vondur. Þessi kaka hinsvegar er ekkert annað en ljómandi góð.

Inga Þórey vinkona mín hefur oft og mörgum sinnum hvatt mig til að baka þessa köku og þar sem Inga hefur aldrei leitt mig í ranga matarátt þá er í raun skammarlegt hversu lengi ég hef beðið með að baka hana. Kakan inniheldur fá hráefni og það þarf aðeins að nostra við þau. Útkoman er ein albesta kaka sem ég hef bakað. Loftið í þeyttu eggjunum og heil matskeið af lyftidufti gerir það að verkum að kakan er létt í sér og lyftir sér yfir perurnar og súkkulaðið þannig að þau sökkva ekki öll til botns. Ef þið hafið aldrei brúnað smjör áður þá má finna góðar leiðbeiningar hjá Lillie (hún notar reyndar pönnu við að brúna smjör en ég nota alltaf pott). Uppskriftin kemur frá einum af rótgrónustu veitingastöðunum í Brooklyn,  Al di là.

SJÁ UPPSKRIFT

Ostakökubrownies

Það er búið að vera mjög gott veður hjá okkur, alveg fáránlega gott. Ég man að fyrsta janúarmánuð okkar hérna úti þá var mikið rok, mikið frost og mikill snjór. Ég átti bara eina ,vetrarskó’ sem voru hriplekir og dugðu engan veginn í allt slabbið og íspollana sem mynduðust við göturnar. Ég vann fyrir lúsarlaun í bókabúð við Columbia og ég tímdi því engan veginn að kaupa mér almennilegan skófatnað. Nannan sem ég er í dag myndi húðskamma þá Nönnu enda eru góðir skór undirstaða þess að líða vel í borg þar sem bílar eru óþarfir.

Þetta góða veður hefur hvatt okkur til að vera meira úti og í gær fórum við í langan göngutúr um Prospect Park í von um að Þórdís myndi sofa í meira en klukkutíma (svona einu sinni). Það gekk ekki eftir en við áttum þó indælan göngutúr þrjú saman í þokunni og logninu. Trén eru ber, grasið er fölt og engin blóm að sjá en á fallegum degi sem þessum þá hefur garðurinn samt mikinn sjarma.

En nóg af veðri því mig langar aðeins til að segja ykkur tildrög þess að ég leitaði þessa uppskrift uppi. Daginn eftir að við komum aftur út til Brooklyn frá Íslandi með Þórdísi Yrju þá vorum við frekar buguð. Ferðalagið gekk svolítið brösulega, taska týndist og íbúðin okkar var illa útleikinn eftir leigjandann. Við vorum ósofin, á kafi í þrifum, Elmar með ofsafengið ofnæmi og stúlkan okkar var svolítið óvær eftir allt húllumhæið. Þennan dag kom vinkona okkar færandi hendi. Hún hafði keypt alls kyns góðgæti úr sælkerabúð í Williamsburg og meðal þess voru fallegar ostakökubrownies.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er alls ekki hrifin af ostakökum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur því. Oft fæ ég mér einn til tvo bita og finnst kakan frábær en svo er eins og allt fari á hraða niðurleið og ég fæ mig ekki til að borða meira en smá smakk. En ostakökudeig og browniedeig bakað saman er eitthvað stórfenglegt. Sætt og súkkulaðimikið browniebragð með óvæntu fersku og eilítið súru bragði frá ostakökunni. Þessar brownies eru svo skuggalega góðar að ég hef stungið þeim inn í frystinn svo ég freistist ekki til þess að borða þær allar í einu. Uppskriftina fann ég á Smitten Kitchen en ég hef breytt henni eftir eigin smekk. Ég hef minnkað sykurmagnið allverulega og myndi alls ekki vilja hafa kökuna sætari.

SJÁ UPPSKRIFT

Hversdagsleg súkkulaðikaka

Ég finn mig knúna til að tilkynna að það eru ekki bara kökur, kanillengjur og ís í matinn hjá okkur svona frá degi til dags. Ég er búin að elda margt mjög ljúffengt síðustu vikur en því miður sest sólin hjá okkur um fjögurleytið og allar tilraunir til að taka fallegar myndir af matnum mistakast. Ef ég væri ekki á fullu við að kenna Þórdísi að sofa (ég er ennþá steinhissa á þessum hluta uppeldisins, ég hélt að sá hæfileiki væri meðfæddur) og reyna að læra og skrifa í þá fáu klukkutíma sem ég hef aflögu þá myndi ég kannski elda í hádeginu og nýta dagsbirtuna í myndatökur. En því miður þá held ég að ég þurfi bara að bíða þangað til sólin hækkar á lofti og Þórdís Yrja fer að læra að það gengur ekki að vera vakandi allan liðlangan daginn. Þangað til gæti verið smá skortur á kvöldmatarfærslum á þessari síðu.

Þetta er í annað skiptið sem ég baka þessa köku. Hún er einstaklega einföld, það tekur enga stund að blanda deigið, hún skilur eftir sig lítið uppvask og svo er hún látin bakast inni í ofni við lágan hita í rúman klukkutíma. Útkoman er algjör súkkulaðisprengja. Hún minnir mig svolítið á banana- og súkkulaðiformkökuna sem ég bjó til þegar við fluttum fyrst inn í íbúðina okkar í Brooklyn en er þó ekki eins sæt og syndsamleg. Þessi kaka er frábær með ískaldri mjólk eða sterkum kaffibolla og ætti að höfða til allra sem kunna að meta bragðið af dökku súkkulaði. Þar sem súkkulaðið er aðalhlutverkið í þessari formköku mæli ég með að nota gæðakakóduft í hana til að fá gott og eilítið beiskt súkkulaðibragð.

SJÁ UPPSKRIFT

Marmarakaka

Eftir langa bið er litla lambið okkar mætt á svæðið. Þórdís Yrja fæddist á Hreiðrinu fyrir rétt rúmri viku og hefur í þessa fáu daga gert foreldrana svo ofboðslega stolta og ástfangna að það keyrir fram úr öllu hófi. Fæðingin og allt sem því fylgir gekk eins og í sögu undir góðri leiðsögn yndislegra ljósmæðra. Ég er svo fegin því að hafa komið heim til Íslands og átt stúlkuna hér því þjónustan er svo framúrskarandi og persónuleg. Ég veit fyrir víst að slíkt hefði aldrei boðist í New York (nema fyrir svimandi háa peningaupphæð).

Þið verðið því að afsaka ef færslur verða stopular næstu vikurnar en ég ætla samt að reyna að gera mitt besta að birta uppskriftir og myndir. Ef Þórdís Yrja heldur áfram að vera svona vær og góð býst ég nú samt við að ég geti uppfært síðuna nokkuð reglulega. Sérstaklega þar sem ég bý svo vel að því að eiga systur sem elskar að baka og foreldra sem eru meistaralega flinkir í eldamennsku.

Það var í miðri mjólkurþoku sem við mæðgur sátum inni í eldhúsi hjá systur minni og móður og fylgdumst með þeim baka bestu marmaraköku sem ég hef fengið. Gallinn við flestar marmarakökur, að mínu mati, er að það er ekki nógu skýr bragðmunur á súkkulaði- og vanilludeiginu og þó að kakan sé oft góð þá er hún kannski ekki það góð að maður skeri sér sneið eftir sneið. Þessi uppskrift gefur því öðrum marmarakökuuppskriftum langt nef. Í súkkulaðideiginu er bæði brætt dökkt súkkulaði og kakó, sýrður rjómi ljær kökunni bæði þéttleika og kemur í veg fyrir að hún verði þurr. Uppskriftin er stór (næg í tvö 26 cm brauðform) og því má frysta aðra kökuna til að eiga síðar meir, borða báðar strax eða skera uppskriftina niður um helming. Embla Ýr breytti uppskriftinni aðeins en hún kemur upprunalega frá hinu stórgóða Baked bakaríi í Brooklyn.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: