Skip to content

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

Ég á við smá vandamál að stríða. Uppáhaldskaffihúsið mitt selur kleinuhringi sem eru svo góðir að ég gæti borðað þá í morgunmat á hverjum einasta degi. Þegar ég var ófrísk þá stalst ég ófáum sinnum þangað, keypti mér tvo og skóflaði þeim í mig á leiðinni heim. Amerískir kleinuhringir tvinna saman allt sem mér finnst syndsamlega gott. Allt það sem maður ætti bara borða í hófi. Þeir eru kolvetnisríkir, djúpsteiktir og með sykruðum glassúr. Fyrir mörgum (*hóst*Elmari*hóst*) er þetta of mikið af hinu góða.

Ég hef samt aldrei lagt í að djúpteikja kleinuhringi sjálf. Mér finnst skelfilega leiðinlegt að djúpsteikja og þar sem ég er afskaplega klaufsk þá er ég hálfhrædd við það líka. Þegar ég sá ofnbakaða kleinuhringi hjá Tracy þá hugsaði ég ekki um annað í marga daga. Ég tók loks af skarið og pantaði mér kleinuhringjamót á Amazon og bauð vinkonu okkar í kaffi.

Þessir kleinuhringir voru meira að segja Elmari að skapi! Kleinuhringirnir eru hlaðnir súkkulaði og espressói og glassúrinn er með ríkulegu kaffibragði. Þeir eru svo góðir að ég er hissa á að internetið hafi hreinlega ekki sprungið þegar Tracy birti þá á síðunni sinni. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að baka af Eldað í Vesturheimi þá er þetta uppskriftin. Bjóðið svo vinum ykkar í kaffi og berjist um síðustu bitana. 

[* Ég hef lagst í smá rannsóknarvinnu og reynt að finna staði á Íslandi sem selja kleinuhringjamót. Allt í köku selur þá á vefsíðu sinni. Einhver hvíslaði því að mér að hún hafi séð slíkt í Melabúðinni. Ég hef haft samband við Kost og þau eru að íhuga að flytja þau inn.]

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

(Uppskrift frá Shutterbean)

Kleinuhringir:

 • 1 bolli [125 g] hveiti
 • 1/4 bolli [60 ml] hreint kakóduft
 • 1/2 tsk matarsódi (*ég mæli með að nota 1/4 tsk af matarsóda)
 • 1 msk instant espressóduft
 • 1/4 tsk salt
 • 1/2 bolli [120 ml] buttermilk eða súrmjólk
 • 3/4 bolli [150 g] púðursykur
 • 1 egg
 • 1/4 bolli [60 ml] grænmetisolía
 • 1 tsk vanilludropar

Krem:

 • 1 tsk espressóduft
 • 1 msk heitt vatn
 • 90 g rjómaostur
 • 1 bolli [125 g] flórsykur*
 • 1 tsk vanilla
 • 2 – 3 msk mjólk*
 • súkkulaðiskraut

[*Ég notaði ekki allan bollan af flórsykrinum og þurfti því ekki mjólkina til að þynna kremið. Mér fannst kremið vera orðið nógu sætt eftir rúman hálfan bolla.]

Aðferð:

Hitið ofninn í 160°C/325°F. Smyrjið kleinuhringjamót með olíu eða smjöri.

Hrærið saman hveiti, kakódufti, matarsóda, espressódufti og salti saman í stórri skál.

Hrærið saman buttermilk, púðursykri, eggi, grænmetisolíu og vanilludropum í meðalstórri skál.

Blandið blautefnunum saman við þurrefnin og hrærið saman.

Setjið deigið ofan í stóran ziplock poka og klippið hluta af einu horninu af. Sprautið deiginu ofan í mótið, fyllið 2/3 af hverri holu.

Bakið í 10-12 mínútur, eða þar til kleinuhringirnir lyftast aftur eftir að ýtt er laust á þá með fingri.

Leyfið að kólna í mótinu í 3 mínútur. Losið kleinhringina og hvolfið þeim á grind og leyfið að kólna.

Búið til kremið á meðan þeir kólna.

Hrærið rjómaostinn þar til hann er orðinn alveg sléttur (mér finnst best að gera þetta með sleikju).

Hrærið saman espressóduft og heitt vatn þar til duftið hefur leysts upp.

Blandið espressóinu og rjómaostinum saman og hrærið. Blandið vanillunni saman við og hrærið. Sigtið flórsykurinn saman við í pörtum. Hrærið hann vandlega saman við með sleikju og smakkið reglulega til. Hættið þegar blandan er ágætlega þykk og er nægilega sæt. Ef kremið er mjög þykkt má hræra mjólk saman við.

Dýfið kleinuhringjunum ofan í kremið og sáldrið súkkulaðiskrauti yfir.

Gerir 6 kleinuhringi

Prenta uppskrift

14 athugasemdir Post a comment
 1. Sá þessa einmitt á Shutterbean en vöntun á kleinuhringjaformi stoppaði mig í að gera þessa uppskrift. Ég velti því fyrir mér hvort hægt væri að setja deigið bara í möffinsform í staðinn…?

  05/02/2013
  • Ég hef einmitt mikið verið að pæla í því sjálf. Ég held að kannski væri ágætt að setja aðeins minna í möffinsformin heldur en venjulega til að kakan sjálf verði ekki of þykk.

   05/02/2013
 2. Inga Þórey #

  Sko Stonewall Kitchen voru einu sinni með kleinuhringjamix í boxum og mig minnir að ég hafi séð kleinuhringjaform hjá Stonewall Kitchen standinum þeirra í Melabúðinni. Hins vegar selja þeir ekki lengur þetta mix, og þal er ég ekki vongóð um að formið fáist þar lengur.

  05/02/2013
 3. Rosalega flottir og girnilegir!

  06/02/2013
 4. Heiðrún Sig. #

  Rosalega girnó – ég einmitt ELSKA líka kleinuhringi. Nema, ég er ekki fyrir kaffibragð, heldurðu að þeir séu nokkuð síðri ef ég sleppi bara öllu kaffinu? Eða ætti ég þá að setja eitthvað í staðinn, kakó eða e-ð?
  Þegar er talað um hreint kakó, meinarðu þá 100% kakó?

  06/06/2013
  • Það er ekkert mál að sleppa kaffinu. Þú bakar þá bara rosa fína súkkulaðikleinuhringi án þess. Þú getur þá sett vanilludropa í kremið eða eitthvað annað sem þér finnst gott og passar vel við súkkulaðið :)
   Og já, hreint kakó er svona 100%, ósætt kakóduft. Eins og er alltaf notað í bakstur.

   06/06/2013
 5. Adela #

  Get ég notað aðra olíu í staðinn fyri grænmetisolíu, t.d. kókosolíu eða bara ólifuolíu? :)

  07/04/2014
  • Það er örugglega mjög gott að nota kókosólíu :) Ólívuolían gæti virkað líka en myndi kannski ekki passa vel við kaffibragðið…
   Láttu mig endilega vita ef þú prófar annars konar olíu. Ég er sérstaklega spennt fyrir kókosolíunni.

   07/04/2014
 6. Sæl og flott uppskrift. Er að velta fyrir mér hvort það sé hægt að nota rafmagns-kleinuhringjajárn til að gera þessa. Á nefnilega þannig en hef ekki notað það.

  08/04/2014
  • Ah nú veit ég ekki, en það sakar ekki að prófa ;) Spurning hvort að rafmagnsjárnið geri ráð fyrir svona mjúkum, loftmiklum gerkleinuhringjum …

   01/07/2014

Trackbacks & Pingbacks

 1. Vikulok | Eldað í Vesturheimi
 2. Gulrótakleinuhringir með límónukremi og valhnetum | Eldað í Vesturheimi
 3. Einfaldur kvöldverður og dásamlegur eftirréttur | Ljúfmeti og lekkerheit
 4. Bananakleinuhringir með súkkulaðiglassúr | Ljúfmeti og lekkerheit

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: