Skip to content

Posts from the ‘Kaffi’ Category

Bakaðir kleinuhringir með kaffi og súkkulaði

Ég á við smá vandamál að stríða. Uppáhaldskaffihúsið mitt selur kleinuhringi sem eru svo góðir að ég gæti borðað þá í morgunmat á hverjum einasta degi. Þegar ég var ófrísk þá stalst ég ófáum sinnum þangað, keypti mér tvo og skóflaði þeim í mig á leiðinni heim. Amerískir kleinuhringir tvinna saman allt sem mér finnst syndsamlega gott. Allt það sem maður ætti bara borða í hófi. Þeir eru kolvetnisríkir, djúpsteiktir og með sykruðum glassúr. Fyrir mörgum (*hóst*Elmari*hóst*) er þetta of mikið af hinu góða.

Ég hef samt aldrei lagt í að djúpteikja kleinuhringi sjálf. Mér finnst skelfilega leiðinlegt að djúpsteikja og þar sem ég er afskaplega klaufsk þá er ég hálfhrædd við það líka. Þegar ég sá ofnbakaða kleinuhringi hjá Tracy þá hugsaði ég ekki um annað í marga daga. Ég tók loks af skarið og pantaði mér kleinuhringjamót á Amazon og bauð vinkonu okkar í kaffi.

Þessir kleinuhringir voru meira að segja Elmari að skapi! Kleinuhringirnir eru hlaðnir súkkulaði og espressói og glassúrinn er með ríkulegu kaffibragði. Þeir eru svo góðir að ég er hissa á að internetið hafi hreinlega ekki sprungið þegar Tracy birti þá á síðunni sinni. Ef það er eitthvað sem þið ættuð að baka af Eldað í Vesturheimi þá er þetta uppskriftin. Bjóðið svo vinum ykkar í kaffi og berjist um síðustu bitana. 

[* Ég hef lagst í smá rannsóknarvinnu og reynt að finna staði á Íslandi sem selja kleinuhringjamót. Allt í köku selur þá á vefsíðu sinni. Einhver hvíslaði því að mér að hún hafi séð slíkt í Melabúðinni. Ég hef haft samband við Kost og þau eru að íhuga að flytja þau inn.]

SJÁ UPPSKRIFT

Klassískt tíramísú

Það eru liðin fjögur ár frá því að ég eyddi síðast hausti á Íslandi. Það er því langt síðan ég hef stolist í lopapeysur og þykka sokka í septembermánuði. En ,ástandið’ gerir mig þakkláta fyrir kulið í loftinu enda er ég orðin ansi ólétt á að líta og heitfeng eftir því. Nú styttist samt óðum í að ég fari að hætta að labba um eins og mörgæs í þrautakóng, geti sofið á maganum aftur og tekið út 9 mánaða sushiskammt á sem skemmstum tíma. Ég er spennt og afar óþreyjufull.

Ég held áfram að stelast í afrakstur annarra til að halda blogginu gangandi enda fer ekki mikið fyrir mér í eldhúsinu þessa dagana. Við erum búin að troða okkur inn á foreldra mína og systur í þessu fæðingarstússi og þar sem þau eru öll hvert öðru hæfileikaríkara á matreiðslusviðinu þá ,leyfi’ ég þeim að sjá að mestu leyti um eldhússtörfin. Mamma bjó til tíramísúið sitt um daginn og ég finn mig knúna til að deila uppskriftinni hennar með ykkur. Þetta er tíramísu upp á sitt allra besta með nóg af mascarpone og sterku kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Bananamöffins með espressó og súkkulaðibitum

Það líður langt á milli færslna hjá mér þessa dagana en við Elmar erum búin að vera á smá þeytingi og erum loksins komin norður í Eyjafjörð þar sem við erum í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu hans. Eins mikið og ég elska Brooklyn og New York þá kann ég vel að meta kyrrðina, rigninguna og allt það ferska loft sem hitabylgjan í Bandaríkjunum bauð ekki upp á.

Við Embla Ýr bökuðum þessar möffins saman áður en ég hélt norður og þær voru einstaklega gott nesti á þjóðveginum. Það eru reyndar ófáar færslur á þessu bloggi sem eru einhvers konar útfærsla á kaffi- og súkkulaðiblöndu og því þarf ég kannski ekki að lýsa því í smáatriðum hvað mér finnst það tvennt gott saman og í miklu magni. Það er ríkt bananabragð af þessum möffins en espressóið og súkkulaðið kemur í veg fyrir að bakkelsið verður of væmið. Ef þið viljið gera vel við ykkur þá eru þær sérstaklega góðar með sterkum kaffibolla á sunnudagsmorgni.

SJÁ UPPSKRIFT

Afmæliskaka Elmars

Elmar átti afmæli í gær. Við lögðum skólabækurnar til hliðar og ákváðum að eiga rólegan dag saman. Við fórum á uppáhaldsbarinn okkar, Bierkraft, sátum úti undir sólarhlíf, borðuðum osta og Elmar keypti sér dýrindis belgískan bjór. Um kvöldið borðuðum við á frábærum ástralsk-asískum stað hérna í hverfinu og löbbuðum út hálf rangeygð af seddu og matarhamingju.

 Það er mín skoðun að afmælisbörn eiga skilið köku. Og þá meina ég alvöru heimabakaða köku á hæðum og með kremi. Ég hef áður sett inn færslu um afmæliskökuna mína og um afmælisköku vinkonu okkar sem hefur síðan flust frá Brooklyn og ég sakna alveg afskaplega mikið og ekki má gleyma fimmtugskökubombunni hennar mömmu. Afmælisbörn eiga líka skilið vín með kökunni og góðan hóp fólks til að skála fyrir merkisdeginum. 

Elmar er mikill kaffimaður. Svo mikill að dagurinn getur hreinlega ekki byrjað fyrr en hann er búinn að fá sér fyrsta kaffibollann. Mér fannst því við hæfi að búa til kaffiköku með kaffikremi og fann loks uppskrift sem heillaði mig í tímaritinu Bon Appétit, kaffibragð fyrir Elmar og súkkulaði fyrir mig. Botnarnir eru unaðslegir og ég hugsa að ég eigi eftir að nota þá oft upp úr þessu. Kremið er létt í sér og mjúkt og hefur lúmskt bragð af café mocha, mér fannst það samt helst til of sætt (þrátt fyrir að hafa minnkað sykurmagnið) og ég mæli með að minnka það jafnvel enn meira en ég gerði. Ég bakaði þrjá 8 tommu botna en það má auðvitað hafa kökuna tveggja hæða í staðinn fyrir þriggja.

Það lýstu allir yfir mikilli ánægju með kökuna og ég hef æði oft læðst í smá sneið af afganginum í dag. Yndislegt!

SJÁ UPPSKRIFT

Cappuccino smákökur með súkkulaðibitum

Þið verðið að afsaka þessar endalausu blómamyndir en ég er orðin alveg hugfangin af allri vordýrðinni í hverfinu okkar. Við Elmar fórum í langan göngutúr í góðviðrinu um daginn, fundum æðislegan bístró-bar í Cobble Hill hverfinu þar sem við fengum okkur drykk og snarl, og ég reyndi á þolinmæði eiginmannsins með því að stoppa við hvert einasta blómstrandi tré til að taka myndir. Ég var nálægt því að tilkynna að sumarið væri komið, pakka niður lopapeysum og frökkum og stinga treflum innst inn í fataskápinn okkar. En þessi óvænta marshitabylgja virðist liðin undir lok og framundan er rigning og kaldara veður. Sumarið bíður betri tíma.

Ég er að berjast við eitthvert súkkulaðikexæði þessa dagana. Þetta hefur valdið því að á einhvern undraverðan hátt laumast Chips Ahoy pakki ofan í innkaupakörfuna okkar í hvert skipti sem við förum út í búð. Chips Ahoy er nefnilega alveg ágætlega gott svo lengi sem maður sleppir því að lesa innihaldslýsinguna (ég skil ekki helminginn af því sem er í kexinu eða af hverju það þarf að vera í því). Ég ákvað í stað þess að berjast við kexpúkann í mér að búa mér til heimabakaðar súkkulaðibitakökur úr gæðahráefni með kaffibragði.

Þetta er stór uppskrift. Ég bakaði ca. 40 stórar smákökur úr deiginu. En ég er ekki að gefa í skyn að það sé slæmur hlutur (alls ekki), það er í raun kjörið tækifæri til að gleðja fólkið í kringum ykkur með smákökugjöfum. Því þessar smákökur eru alveg frábærar. Þær eru stökkar á endunum en mjúkar að innan með ríku kaffibragði, smá karamellubragði og miklu magni af súkkulaðibitum. Ég veit að ég ætti að deila þeim með öðrum en mig grunar að þær fari aðallega ofan í magann minn.

SJÁ UPPSKRIFT

Kaffipönnukökur

Ég náði loksins að rífa mig á fætur nógu snemma í morgun til að arka á markaðinn áður en hann fylltist af fólki. Það er orðið kalt í lofti og það var mjög hressandi að labba út í garð með kaldan vind í lopapeysuklæddu fanginu og bjarta morgunsólina í andlitinu. Ég tók nokkrar myndir til að sýna ykkur af hverju ég get ekki sleppt því að eyða laugardagsmorgnunum mínum þarna.

Ég elska að vera með þennan stórkóstlega markað í göngufæri. Það er skemmtilegt og uppörvandi að versla matvæli beint frá ræktanda. Það þýðir að allt sem maður kaupir hefur verið ræktað í nágrenninu við náttúrulegar aðstæður í samræmi við veðráttu og árstíðir. Brauðið er bakað í bakaríum í hverfinu og fólkið sem selur varning sinn þarna hefur virkilegan áhuga og ástríðu fyrir því sem það gerir. Ég er einstaklega þakklát fyrir að fá tækifæri einu sinni í viku til að styrkja þennan viðkvæma iðnað og sleppa því að labba inn í flúórslýstan súpermarkaðinn.

Ég kom heim með stóran poka af grænmeti og fallegan eggjabakka frá kjúklingabóndanum og skellti í pönnukökur sem mig hefur lengi langað að prófa. Þetta eru óvenjulegar pönnukökur að því leyti að í þeim er kaffi. Kaffibragðið er samt alls ekki yfirþyrmandi heldur virkar frekar eins og krydd og parast því sérstaklega vel með te- eða kaffibolla.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: