Skip to content

Afmæliskaka

Ég varð árinu eldri í gær og eyddi deginum í eldhúsinu en kvöldinu með nokkrum af bestu og uppáhaldsvinum mínum í skemmtilegu matarboði í Vatnsendahverfinu. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að finna tíma til að hittast öll saman og því þótti mér óendanlega vænt um að fá heila kvöldstund í víndrykkju, grill, át og spjall. Með okkur var tveggja ára snillingur (hæ Kári!) sem lék við fingur sér og klukkaði okkur á víxl í stórfiskaleik á milli þess sem hann dýfði appelsínusneiðum í tómatsósu og át með bestu lyst. Kósýheitin voru alveg í hámarki.

Og auðvitað bakaði ég afmælisköku handa sjálfri mér. Og það ætti ekki að koma neinum (þ.e. þeim sem þekkja mig og þeim lesa þetta blogg reglulega) að ég bjó til eitt stykki sítrónubombu í tilefni dagsins. Ég hafði séð þessa hnallþóru á smitten kitchen fyrir löngu síðan og hef beðið eftir réttu tilefni í marga mánuði. Kakan er tímafrek en það er hægt að undirbúa allt nema kremið nokkrum dögum áður. Botnana má setja í frysti (eftir að þeir hafa náð stofuhita) og geyma í 2 vikur og sítrónumaukið geymist í kæli í viku. 

Ég verð reyndar að viðurkenna að sítrónumaukið olli mér töluverðum vandræðum og heilabrotum. Ég bjó það til daginn sem ég setti kökuna saman og bölvaði því milli samanbitinna tanna að hafa ekki haft vit á því að hafa gert það a.m.k. deginum áður. Það vildi bara alls ekki þykkna! Ég setti það inn í ísskáp, tók það út aftur, setti það yfir sjóðandi vatn, hrærði eins og ég ætti lífið að leysa, setti það inn í frysti, skellti matarlími í það en það náði samt ekki að þykkna nægilega mikið. Blandan sem varð eftir og situr í ísskápinum í dag er samt þykk og mun nærri því sem ég held að maukið eigi að vera.

Ég virðist samt hafa verið ein um að lenda í vandræðum með maukið – ef ég á að taka mark á athugasemdakerfinu hjá smitten kitchen. Það er tvennt sem ég held að hafi farið úrskeiðis hjá mér. Ég held að ég hafi ekki verið með maukið yfir hita nógu lengi til að byrja með og leyfði því þannig ekki þykkna nægilega, en blandan á að vera álíka þykk og hollandaisesósa á þeim tímapunkti. Svo þykkist maukið þegar það kólnar og því meiri tíma sem þú getur gefið því í kælinum, því betra. Annars get ég líka bent á þesssa sítrónumauksuppskrift ef þið viljið prófa aðra, en Joy of Baking klikkar sjaldnast.

Kremið var samt mun einfaldara og hitamælirinn er í raun óþarfur þó að mér hafi fundist mjög gott að styðjast við hann. Ef þið eruð ekki með hitamæli við hendina þá má þeyta í staðinn á lægstu stillingu í ca. 3 mínútur eða þar til blandan er farin að þykkna. Aukið svo hraðann og þeytið í 5 mínútur og  blandan á að byrja að þykkjast verulega í þeim tíma.

Kakan var virkilega góð! Hún stóðst allar mínar væntingar og mér fannst sætleiki kremsins passa afskaplega vel við súrt bragð sítrónumauksins. Ég skemmti mér líka við að kveikja aðeins í kreminu með crème brûlée kveikjara. 

Lagkaka með sítrónumauki og marengskremi

(Uppskrift frá Smitten kitchen)

Kökubotnar:

[Gerir þrjá 9″ botna]

  • 225 g smjör, við stofuhita
  • 450 g sykur
  • 4 egg
  • 355 g hveiti
  • 4 1/2 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk salt
  • 250 ml mjólk
  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C (350°F). Smyrjið bökunarformin með smjöri eða olíu.

Hrærið smjörið í hrærivél þar til það verður loftkennt. Bætið sykrinum saman við og haldið áfram að hræra vel, í 6 til 8 mínútur. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og hrærið vel eftir hvert egg. Bætið hveiti og mjólk saman við til skiptis, byrjið á hveiti og endið á hveiti. Bætið vanilludropum saman við og haldið áfram að hræra þar til það hefur blandast í deigið.

Skiptið deiginu jafnt í þrjú form. Takið formin upp (eitt í einu!) og haldið ca. 6 cm yfir borði og látið formið detta ofan á það, gerið þetta nokkrum sinnum. Þetta jafnar deigið út og nær loftbólum úr því – kakan bakast því jafnt og vel. Bakið í 25 til 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út úr kökunni.

Sítrónumauk: 

  • 8 eggjarauður
  • 340 g sykur
  • 55 g smjör
  • 3 sítrónur, börkur rifinn og safi kreistur úr

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í stóra gler- eða stálskál og setjið yfir pott af hægsjóðandi vatni. Ekki láta botninn á skálinni snerta vatnið samt. Eldið og hrærið stanslaust þar til blandan hefur þykknað, eins og hollandaisesósa (eða náð 75°C). Flytjið frá hita og leyfið að kólna. Setjið plastfilmu yfir skálina og setjið í kæli til að þykkja maukið enn meira.

Geymist í viku.

Marenskrem:

  • 5 msk vatn
  • 1/4 tsk cream of tartar (má sleppa)
  • 260 g sykur
  • 2 eggjahvítur, við stofuhita
  • 1 msk agave-sýróp
  • 1 tsk vanilla
  • 1 dl kókosmjöl (má sleppa)

Aðferð:

Hrærið fyrstu fimm hráefnin saman í stórri og tandurhreinni stálskál. Setjið skálina yfir pott af hægsjóðandi vatni. Passið að vatnshæðin í pottinum sé a.m.k. jöfn hæð eggjahvítnanna. Þeytið eggjahvíturnar með handþeytara á lægstu stillingu þar til blandan nær 60°C. Hættið aldrei að þeyta á meðan skálin er yfir pottinum, annars eldast eggjahvíturnar of mikið. Þeytið svo á hæstu stillingu í nákvæmlega 5 mínútur. Blandan ætti að vera orðin ágætlega þykk á þessum tímapunkti.

Takið skálina af pottinum og þeytið vanilludropum saman við á hæstu stillingu í ca. 2 til 3 mínútur til að kæla kremið. Hrærið saman kókosmjöli ef notað.

Notið þetta krem daginn sem það er búið til.

Kakan byggð:

Setjið 1 msk af sítrónumauki á kökudiskinn (þetta kemur í veg fyrir að kakan fari á einhverja ferð meðan hún er skreytt). Rennið höndunum meðfram hliðunum á kökubotnunum til að fjarlægja mylsnu. Leggið botnana á kökudiskinn og smyrjið sítrónumauki á milli botnanna. Smyrjið maukinu efst á kökuna og meðfram hliðunum. Smyrjið síðan kremi yfir alla kökuna. Ég tók svo eldfæri úr crème brûlée pakkanum hans pabba og brenndi hluta kremsins. Berið fram samdægurs.

10 athugasemdir Post a comment
  1. Jón Sigurður #

    Þetta var svakalega góð kaka. Takk fyrir okkur.

    04/08/2011
  2. Inga Þórey #

    Unaður!

    04/08/2011
  3. Sóla #

    Til hamingju með daginn þinn aftur og vá hvað þessi kaka er girnileg! Hún fer á listann! Þegar við Guðný erum í kökusafarí á eftirmiðdögum þá sjáum við alltaf einhverskonar (sítrónu)köku þar sem við erum alveg: „Nanna myndi vilja þessa!!“
    xx ;)

    04/08/2011
    • Ég brosi sko hringinn í hvert skipti sem ég les þessa athugasemd. xx

      09/08/2011
  4. Nammi namm… Það er painful að vera með afganga í ísskápnum og ég má ekki fá mér :(

    04/08/2011
  5. haha, kökusafarí!

    04/08/2011
  6. Happy birthday Nanna!! :)

    06/08/2011

Trackbacks & Pingbacks

  1. Búsáhöld | Eldað í Vesturheimi
  2. Afmæliskaka Elmars | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: