Skip to content

Heitt súkkulaði með chilí

Elmar er loksins kominn í langþráð frí og þó að ég eigi að sitja þrjósk við bókastaflann minn þá iða ég í skinninu við að fara út í langa göngutúra, skoðunarferðir og safnarúnta. Og þar sem sjálfsagi er ekki mín sterkasta hlið þá tel ég líklegt að næstu dagar muni fara í nákvæmlega það.

Kaldir vetrardagar (eins og þeir sem banka daglega upp á hjá okkur núna) kalla á smá tilbreytingu frá rjúkandi heitu kaffi. Þegar við komum heim eftir langan bröns á illa upphituðum bar þá fannst mér tilvalið að teygja mig í suðusúkkulaðið og blanda heitt chilísúkkulaði. Þetta er sætur drykkur (eins og vera ber) með ennþá sætari viðbót (sykurpúðar!) en gefur aukahita og smá spark í bragðlaukana vegna cayenne piparsins sem ég sauð með mjólkinni. Ef þið eruð ekki gefin fyrir chilí þá má auðvitað bara sleppa þeirri viðbót en ég mæli sterklega með því að þið prófið.

Heitt súkkulaði

  • 5 dl mjólk
  • 1/2 vanillustöng
  • 1 kanilstöng
  • 1/4 tsk cayenne pipar
  • Lítil klípa af sjávarsalti
  • 120 g suðusúkkulaði, saxað
  • 4 sykurpúðar

Aðferð:

Hellið mjólkinni í pott. Kljúfið vanillustöngina, skafið fræin úr og setjið fræin í pottinn ásamt stönginni. Setjið kanilstöngina í pottinn ásamt cayenne piparnum og saltinu. Setjið á hellu og stillið á lágan hita. Leyfið öllu að hitna saman og slökkvið undir pottinn áður en það fer að sjóða í pottinum.

Setjið súkkulaðið í glerkönnu eða skiptið á milli tveggja bolla. Hellið mjólkurblöndunni í gegnum síu yfir súkkulaðið og hrærið vel til að allt súkkulaðið bráðni og blandist vel við flóuðu mjólkina. Hellið blöndunni í tvo bolla.

Hitið sykurpúðana yfir eldi þar til þeir verða gullinbrúnir og jafnvel pínu brenndir. Skiptið þeim á milli bollanna. Sáldrið smá dökku kakódufti yfir sykurpúðana.

Drekkið áður en súkkulaðið kólnar.

Fyrir 2

One Comment Post a comment
  1. Voðalega er þetta flottur bolli hjá þér.

    19/12/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: