Skip to content

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.

Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.

Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

(Örlítið breytt uppskrift frá Andrew Feinberg & Francine Stephens: Franny’s – Simple – Seasonal – Italian)

  • 1/2 bolli + 1/4 bolli ólívuolía
  • 2 bollar eldaðar kíkertur (kjúklingabaunir), vatninu hellt frá
  • 6 – 8 hvítlauksrif, kramin og hýðið fjarlægt
  • 4 ansjósuflök
  • 1/2 tsk chiliflögur (eða eftir smekk)
  • 500 g spagettí
  • 1/2 bolli fersk steinselja, söxuð
  • 1/4 bolli fersk mynta, söxuð
  • 1/4 tsk svartur pipar, malaður
  • safi úr hálfri sítrónu
  • salt

Aðferð:

Takið fram stóra pönnu (eða steypujárnspott) og hitið 1/2 bolla af ólívuolíu yfir háum hita þar til hún fer að krauma. Hellið kíkertunum út í og steikið, án þess að hræra, þar til þær verða dökkar á einni hliðinni, ca. 3 – 5 mínútur.

Hellið 1/4 bolla af ólívuolíu út í pönnuna/pottinn) og bætið hvítlauksgeirunum saman við. Steikið þar til hvítlaukurinn verður ljósgullinn að lit, ca. 3 mínútur. Bætið ansjósuflökunum út í og hrærið og kremjið þar til ansjósurnar hafa leysts upp. Hellið chiliflögunum út í og eldið í 30 sekúndur. Bætið 2 msk af vatni saman við og takið síðan af hitanum. Sejtið til hliðar.

Sjóðið pastað samkvæmt upplýsingum á pakka þar til rúmlega 1 mínúta er eftir að eldunartímanum.

Hellið vatninu frá pastanu en geymið 1 bolla af pastavatninu. Setjið pönnuna með kíkertunum aftur yfir meðalháan hita og hellið pastanu út í ásamt kryddjurtunum og pipar. Eldið og hrærið öllu saman í 1 til 2 mínútur. Bætið pastavatni út í, eina matskeið í einu, ef pastað lítur út fyrir að vera þurrt.

Hrærið sítrónusafanum saman við og bragðbætið með salti.

Berið strax fram ásamt parmesanosti, svörtum pipar og jómfrúarolíu.

Fyrir 4

9 athugasemdir Post a comment
  1. Velkomin til baka, mikið er ég glöð að sjá þig aftur hér! Ég var að skima eftir uppskrift til að nota í vikunni þegar ég fæ vinkonu í mat sem er grænmetisæta, sýnist þessi príma fyrir tilefnið.

    14/09/2013
  2. Velkomin heim og frábært að þú sért byrjuð að blogga aftur, saknaði færslana frá þér, kv. Erla

    14/09/2013
  3. vá þetta hljómar virkilega girnilegt!!

    Velkomin til baka, saknaði færslanna frá þér :-)

    14/09/2013
  4. Dagga #

    Mikið er ég ánægð með endurkomuna!

    14/09/2013
  5. Mikið er gaman að þú sért byrjuð að skrifa aftur! :)

    14/09/2013
  6. Teitur #

    Mér var boðið í þennan kvöldverð og get staðfest að þetta er einstaklega góður rèttur (eins og allt sem dóttir mín eldar).

    14/09/2013
  7. Gyða #

    en hvað ég er ánægð að sjá að þú ert farin að skrifa aftur.
    Velkomin heim til Íslands.
    Kveðja frá fjölskyldunni í Tampa, Flórída.

    16/09/2013
  8. Girnó og gifurlega fallegar myndir!
    Kveðja
    Berglind

    17/09/2013

Trackbacks & Pingbacks

  1. Brooklyn | Eldað í Vesturbænum

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: