Skip to content

Bláberjamöffins

Ég var að vonast til að einn fylgifiskur ,ástandsins’ yrði að ég myndi bara vilja borða brokkolí, spínat og ost í öll mál. Mér varð ekki að ósk minni og í staðinn er ég að berjast við ákafa löngun í rjómaís, kartöfluflögur og súkkulaði – helst saman. Ferðirnar í ísbúðina okkar, Ample Hills Creamery, og í ískælinn í búðinni hjá gamla kóreska manninum eru orðnar alltof alltof margar og ég held – þegar þetta verður allt yfirstaðið – að ég muni ekki einu sinni geta horft í áttina að ísbúð. En bara kannski.

Undanfarið er mig líka búið að langa mikið í bakkelsi með daglega tebollanum mínum og þegar ég gaf loks undan lönguninni og lét Elmar koma heim með bláberjamöffin frá kaffihúsinu þá varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Kakan var of stór, of þurr og með of lítið af bláberjum. Og þegar kemur að bakstri þá virðist það alltaf vera satt að það er langbest að gera þetta bara sjálf.

Það tekur bara klukkutíma að búa til þessi tilteknu möffins, þau eru smekkfull af bláberjum (ég notaði frosin því að bláberin eru ekki komin á markaðinn ennþá) og eru himnesk volg og nýbökuð.

Bláberjamöffins

(Breytt uppskrift frá Joy Wilson: Joy the Baker Cookbook)

  • 105 g smjör
  • 1/3 bolli [80 ml] mjólk
  • 1 stórt egg
  • 1 eggjarauða
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 1/2 bolli [190 g] hveiti
  • 3/4 bolli [170 g] sykur
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk salt
  • 2 bolli [4.75 dl] fersk bláber (eða frosin, afþýðið og skolið fyrir notkun)

Ofanálag:

  • 30 g smjör, kalt
  • 1/3 bolli [40 g]  hveiti
  • 3 msk sykur

Aðferð:

Setjið ofngrindina í efsta þriðjung ofnsins og hitið ofninn í 190°C/375°F. Setjið pappaform í möffinsskúffu og setjið til hliðar.

Bræðið smjörið í litlum potti yfir lágum hita. Hafið auga með smjörinu öllum stundum því að það getur verið fljótt að brenna við. Smjörið mun freyða svolítið og gefa frá sér hljóð þegar vatnið eldast úr smjörinu. Eldið smjörið þar til það verður brúnt á litinn og gefur frá sér hnetukenndan ilm. Hellið heita smjörinu beint í skál, annars mun það halda áfram að eldast og jafnvel brenna við. Setjið til hliðar og leyfið að kólna.

Hrærið saman mjólk, eggi, eggjarauðu og vanillu þar til allt hefur blandast saman. Hrærið smjörinu saman við.

Hrærið saman hveiti, sykri, lyftiduft og salti í meðalstórri skál. Bætið mjólkurblöndunni saman við og hrærið varlega saman. Blandið bláberjunum varlega saman við (ekki kremja þau). Skiptið deiginu jafnt á milli pappírsformanna.

Búið til ofanálagið með því að setja öll hráefnin saman í skál og nuddið smjörinu saman við hveitið með hreinum fingurgómum. Sáldrið blöndunni yfir möffinsdeigið.

Bakið í 18-20 mínútur eða þar til þær verða gylltar, stökkar að ofan og bakaðar í gegn. Leyfið þeim að kólna í 15 mínútur í möffinsforminu áður en þær eru teknar upp úr. Berið fram volgar eða við stofuhita.

Kökurnar endast í 3 daga við stofuhita ef þær eru geymdar í loftþéttum umbúðum.

Gerir 12 möffins

Prenta uppskrift

12 athugasemdir Post a comment
  1. Þessi uppskrift verður pottþétt bökuð, hér eru til svo mikið af berjum í frosti (fer altaf og týni mikið af berjum á haustin)
    Átt þú til meira af berjauppskriftum ???

    23/04/2012
  2. Ragna Bergmann #

    Ég get ekki beðið eftir að baka þessa uppskrift, bláberjamuffins eru uppahálds hjá mér og ég er búin að vera bíða eftir hinni fullkomnu uppskrift og ég hef mikla trú á að þetta sé hún :)

    24/04/2012
  3. Elsku Nanna mín, þetta er ekkert smá girnilegt. Fer ekki að koma að því að við búum í sama landi aftur ? Endalaust sakn frá Edinborg xxx

    p.s. ég baka þessar um leið og ég er búin að kaupa mér svona fína möffinsbökunarplötu eins og þú átt. I’ll keep you posted

    24/04/2012
    • Jú, mig langar til að fá þig í kaffi nokkrum sinnum í viku og vín þess á milli! Það er mikið sakn í hjarta mínu.

      24/04/2012
  4. Hrund (frænka Jennýjar) #

    Namminamm – búin að baka þessi möffins og þau eru æði :)

    29/04/2012
  5. Hildur Sigurðardóttir #

    Þetta eru bestu möffins sem ég hef smakkað! En ein spurning: Hvers vegna þarf að elda smjörið svona? Er nóg að bræða það bara eða er þetta e-h trikk sem gerir gæfumuninn?
    Kveðja
    Hildur
    „longtimelistener-firsttimecaller“

    26/08/2012
    • Sæl Hildur! Smjörið er eldað svona til að laða fram visst bragð – brúnað smjör hefur svolítið ristaðan hnetukeim sem er rosalega gott :)

      26/08/2012
  6. Ásdís #

    Þessar eru æði! Ætla pottþétt að gera fleiri úr bláberjauppskerunni :)

    27/08/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Baka með mascarpone og ferskum bláberjum | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: