Skip to content

Bananapönnukökur með bláberjahlynsírópi


Ég er mjög þakklát fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum. Ég hef reyndar ekkert gaman af því að klæða mig í búning, hvað þá að finna einhverja snilldarhugmynd til að útfæra og reyni því að hafa mig hæga á meðan fólk hleypur um í ótrúlegustu múnderingum. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég finn lítinn innblástur í búningaverslunum. Vil ég vera sexí hjúkka, sexí nunna, sexí pandabjörn (já, það er til) eða sexí vatnsmelóna (já! líka til)? Nei, takk. En ég er þakklát vegna þess að þetta hægir aðeins á jólamaníunni hérna úti og það er aldrei fyrr en eftir hrekkjavöku sem jóladótið tekur yfir.

Ekki að ég hafi neitt út á jólin að setja. Ég er forfallið jólabarn og það er fátt sem mér finnst eins skemmtilegt og að halda upp á jólin. Ég er á því að jólin þurfi ekki að vera rándýrt fyrirbæri með útgjaldamiklu gjafastandi. Heimatilbúnar gjafir eru oft stórskemmtilegar, persónulegar og mun ódýrari en aðkeyptar gjafir. Ég ætla þess vegna að koma með eina gjafahugmynd í viku fram að jólum og ef ég kann ennþá að reikna þá gerir það sjö tillögur allt í allt! Þetta mun allt passa ofan í ódýrar glerkrukkur, dósir eða pappakassa og verður eitthvað aðeins frumlegra en smákökur í dollu (þó ég sé mjög hrifin af slíkum gjöfum). Þetta verða misflóknar uppskriftir en vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir. Og ætli ég fari ekki að vera tilbúin að bjóða jólin velkomin, þetta var útsýnið úr glugganum okkar síðustu helgi:

Pönnukökuæðið mitt hefur engin takmörk. Ég vil pönnukökur alla morgna og þá helst nýja útgáfu í hvert skipti. En þar sem móðir mín náði að kenna mér smá stillingu í æsku þá held ég aftur af mér (með herkjum) og steiki bara pönnukökur einu sinni í viku. Í þetta sinn töfruðum við fram bananapönnukökur og suðum saman frosin bláber og hlynsíróp. Sósan er algjör snilld og passar örugglega vel við flestar tegundir af amerískum pönnsum. Bananapönnukökurnar eru mjög bragðgóðar og saðsamar en ég myndi minnka aðeins sykurmagnið næst þegar ég geri þær. Ég vil frekar hafa pönnukökurnar minna sætar svo ég geti sleppt mér algjörlega í sírópsæðinu. Kannist þið við þetta?

Bananapönnukökur

(Breytt uppskrift frá 17 and baking)

  • 2 bollar [250 g] hveiti
  • 1/8 – 1/4 bolli [25 – 50 g] sykur
  • 4 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • 1 3/4 bollar [400 ml] ,buttermilk’ eða súrmjólk eða jógúrt
  • 4 stór egg
  • 1/4 bolli [55 g] smjör, bráðið og látið kólna
  • 1 bolli [240 ml] bananar, stappaðir (þetta voru rétt rúmlega tveir meðalstórir bananar hjá mér)

Aferð:

Sigtið þurrefnin í stóra skál og blandið síðan vel saman.

Hrærið ,buttermilk’, eggjum og smjöri saman í meðalstórri skál.

Blandið blautefnunum saman við þurrefnin, þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Það eiga að vera stórir og litlir kekkir í deiginu.

Blandið banönunum varlega saman við. Notið deigið strax eða hyljið með plastfilmu og geymið inn í ísskáp í allt að 12 klukkutíma.

Hitið pönnu yfir meðal-lágum hita og penslið með olíu eða smjöri. Þegar pannan er orðin nógu heit er smá deigi hellt á pönnuna og dreift lítillega úr. Steikið þar til hliðarnar hafa dregist saman og litlar loftbólur myndast (ca. 2 mínútur). Snúið síðan pönnukökunni við og steikið á hinni hliðinni þar til kakan gyllist (ca. 2 mínútur). Haldið tilbúnu pönnukökunum heitum inn í ofni (á lægstu stillingu) þar til allt deigið hefur verið steikt.

Fyrir 4 – 5

Bláberjahlynsíróp

  • 4 bollar [1 l] bláber (eða blönduð ber), frosin eða fersk
  • börkur af 1 lítilli sítrónu, rifinn
  • 1 bolli [240 ml] hlynsíróp

Aðferð:

Skolið berin með köldu vatni ef notuð eru frosin ber. Setjið berin og sítrónubörkinn í lítinn pott og hitið yfir meðalháum hita. Hrærið af og til og leyfið að malla þar til berin hafa gefið frá sér vökva og blandan er álík sósu (ca. 10 mínútur).

Hellið hlynsírópinu út í og hrærið saman. Náið upp hægri suðu og leyfið að malla þar til sósan hefur þykknað, ca. 10 mínútur. Berið strax fram eða geymið í kæli í allt að 10 daga.

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
  1. Auður #

    Verslings Emmi að þurfa að pína ofan í sig pönnukökur einu sinni í viku! Og ég slefaði á lyklaborðið.

    06/11/2011
    • Já, þetta er alveg óþolandi skal ég segja þér. Ég hef reynt að fá Nönnu til að hætta þessu, en það gengur ekkert.

      07/11/2011
  2. Linda Björk #

    veistu hvað er líka sjúklega gott…. :oÞ kanilpönnsur með maple butter icing!
    maple butter icing:
    1 cup powdered sugar
    1/4 cups melted butter
    dash of salt
    1 tablespoon maple syrup
    1/4 cups milk (more if needed)
    ollu blandað saman og hellt yfir pönnsurnar óendanlega gott með kanilpönnsum og ja öllum pönnsum bara ;)

    06/11/2011
  3. Salbjörg #

    Mmmmmm nammi nammi namm! kannast við svona pönnukökuæði

    06/11/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: