Bananakaka með súkkulaðibitum
Það er farið að vora í New York! Og óvenjulega snemma í ár. Hitasveiflurnar eru ennþá til staðar en út vikuna er spáð sól og um 20 stiga hita á daginn, fyrstu kirsuberjatrén í Grasagarðinum eru farin að springa út og alls kyns blóm spretta upp úr beðunum við götuna okkar. Allt þetta gerir mig svo ósegjanlega káta og ég hlakka mikið til að sitja úti á kaffihúsum í vikunni og læra. Ég er einföld sál að þessu leyti – það er fátt sem getur skyggt á skapið mitt þegar sólin skín og hlýtt er í veðri.
Við fengum gesti í mat í gærkvöldi og á meðan Elmar mallaði þetta rísottó þá bakaði ég köku úr banönum og súkkulaði. Bananar og súkkulaði eru klassísk blanda og hún er sérstaklega góð í þessari einföldu köku án þess að vera of sæt eða of væmin. Við bárum hana fram volga með vanilluís en ég hugsa að hún sé mjög góð með nýþeyttum rjóma. Það má hafa í huga við bakstur að það er gott að hræra deigið ekki of mikið annars gæti kakan orðið þyngri í sér og eilítið seigari en maður vill. Gott er blanda þurrefnunum og blautefnunum saman með ákveðnum strokum og hætta strax og hveitirákirnar hætta að sjást. Fylgist síðan vel með kökunni undir rest og takið hana út strax og hún bakast í gegn í miðjunni.