Skip to content

Bananakaka með súkkulaðibitum

Það er farið að vora í New York! Og óvenjulega snemma í ár. Hitasveiflurnar eru ennþá til staðar en út vikuna er spáð sól og um 20 stiga hita á daginn, fyrstu kirsuberjatrén í Grasagarðinum eru farin að springa út og alls kyns blóm spretta upp úr beðunum við götuna okkar. Allt þetta gerir mig svo ósegjanlega káta og ég hlakka mikið til að sitja úti á kaffihúsum í vikunni og læra. Ég er einföld sál að þessu leyti – það er fátt sem getur skyggt á skapið mitt þegar sólin skín og hlýtt er í veðri.

Við fengum gesti í mat í gærkvöldi og á meðan Elmar mallaði þetta rísottó þá bakaði ég köku úr banönum og súkkulaði. Bananar og súkkulaði eru klassísk blanda og hún er sérstaklega góð í þessari einföldu köku án þess að vera of sæt eða of væmin. Við bárum hana fram volga með vanilluís en ég hugsa að hún sé mjög góð með nýþeyttum rjóma. Það má hafa í huga við bakstur að það er gott að hræra deigið ekki of mikið annars gæti kakan orðið þyngri í sér og eilítið seigari en maður vill. Gott er blanda þurrefnunum og blautefnunum saman með ákveðnum strokum og hætta strax og hveitirákirnar hætta að sjást. Fylgist síðan vel með kökunni undir rest og takið hana út strax og hún bakast í gegn í miðjunni.

Bananakaka með súkkulaðibitum

(Uppskrift frá David Lebovitz)

 • 60 g dökkur púðursykur
 • 30 g smjör, við stofuhita og skorið í litla bita
 • 3 – 4 meðalstórir þroskaðir bananar
 • Nokkrir dropar af sítrónusafa
 • 210 g hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 1 tsk kanilduft
 • 150 g sykur
 • 30 g smjör, bráðið
 • 2 stór egg
 • 250 g stappaðir bananar (2 – 3 bananar)
 • 120 g sýrður rjómi, léttur eða ,feitur’
 • 1/2 tsk vanilludropar
 • 80 g súkkulaðibitar eða saxað súkkulaði, dökkt súkkulaði er best

Aðferð:

Takið fram ferningslaga form (8″, 20 cm). Dreifið púðursykurnum yfir botninn og dreifið smjörbitunum yfir. Setjið formið yfir lágan hita á eldavélinni og látið smjörið bráðna saman við sykurinn. Passið að sykurinn sé allur bleyttur með smjörinu. Takið af hellunni þegar sykurinn fer að búbbla. (Þetta ætti ekki að taka mjög langan tíma.) Setjið til hliðar og leyfið að ná kólna.

Skerið banana í 1 cm þykkar sneiðar. Raðið sneiðunum þétt yfir sykurinn í forminu. Sáldrið smá sítrónusafa yfir bananana. Setjið til hliðar.

Hitið ofninn í 180 C (350 F).

Hrærið saman hveitinu, lyftiduftinu, matarsódanum, kanilduftinu og saltinu þar til blandan er kekkjalaus. Bætið sykrinum saman við og hrærið öllu saman.

Hrærið saman smjörinu, eggjunum, stöppuðu banönunum, sýrða rjómanum og vanilludropunum saman í annarri skál.

Búið til holu í miðju þurrefnablöndunnar og hellið blautefnunum varlega ofan í holuna. Blandið saman en passið að hræra deigið ekki of mikið. Setjið súkkulaðibitana út í og blandið varlega saman við.

Hellið deiginu yfir bananana í forminu og sléttið síðan úr deiginu svo það liggi jafnt yfir.

Bakið í 40 mínútur eða þar kakan virðist rétt svo búin að bakast í gegn í miðjunni.

Leyfið að kólna í 20 mínútur. Skerið síðan meðfram forminu til að losa kökuna frá. Hvolfið forminu yfir kökudisk.

Best er að bera kökuna fram volga með nýþeyttum rjóma eða vanilluís.

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: