Skip to content

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

Sólin heldur áfram að skína og blómin spretta upp úr beðunum á methraða og trén eru farin að hylja nekt sína með fíngerðum hvítum blómum. Vorið er sérstaklega falleg árstíð í stórborginni . Það er þó ennþá a.m.k. mánuður í að bændamarkaðurinn fari að selja eitthvað annað en rótargrænmeti og epli en ég bíð spennt eftir berjunum, aspasnum og rabarbaranum (þó ég eigi enn eftir að venjast því að þurfa að borga fyrir rabarbarann).

Ég hef aldrei eldað tófú sjálf. Mér finnst sjálfri tófú ágætlega gott (sé það rétt matreitt) en einhvern veginn hefur mér aldrei dottið í hug áður að teygja mig eftir pakkningunni í búðinni og skella því í rétt. En það mun sko breytast eftir þessa frumraun mína. Ég fann þessa uppskrift á eldhúsblogginu The Kitchn og varð strax hrifin. Þeir mæla með því að þrýsta vökvanum úr tófúinu, velta því síðan upp úr sojasósu og baka í ofni í ca. hálftíma. Við þetta verður tófúið svolítið stökkt að utan en mjúkt og eilítið seigt að innan og er frábær (og mjög holl) viðbót við asíska rétti. Rétturinn var mjög góður og seðjandi með skemmtilegri asískri bragðblöndu af hvítlauki, engiferi, sítrónugrasi og chilí. Það má auðvitað gera þetta að kjötrétti með því að snöggsteikja sojamaríneraða kjötbita á pönnu.

Hrísgrjón með sítrónugrasi, tófú og kasjúhnetum

(Uppskrift frá The Kitchn)

  • 2 dl basmatí-hrísgrjón, hvít eða brún
  • 250 g tófú, stíft
  • 3 msk sojasósa
  • 2 1/2 msk grænmetisolía
  • 1/2 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 3 msk sítrónugras, rifið með rifjárni (notið bara hvíta hlutann)*
  • 1 tsk engifer, rifið
  • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
  • 1/4 tsk chiliflögur
  • 2 tsk límónusafi
  • 1/2 dl kasjúhnetur, léttristaðar og saxaðar
  • 1/2 dl kóríanderlauf, söxuð

[*Ef þið finnið ekki sítrónugras má nota rifinn sítrónubörk af 1 lítilli sítrónu.]

Aðferð:

Sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum á pakka.

Hitið ofninn í 180 C/ 350 F.

Skolið tófúið og síið vatnið frá. Skerið það í 1 cm þykkar sneiðar og leggið á eldhúspappír, leggið annan eldhúspappír ofan á. Setjið þungan hlut ofan á tófúið, eins og pönnu eða þungt skurðarbretti, til að þrýsta vökva úr því. Leyfið að standa í 15 mínútur.

Skerið tófúið í 1 cm teninga og veltið þeim upp úr 2 msk af sojasósunni.

Setjið bökunarpappír ofan á ofnplötu og dreifið tófúinu á plötuna. Bakið það í 15 mínútur, snúið þá tófúinu við og bakið í aðrar 10 til 15 mínútur eða þar til það er orðið ágætlega ristað. Takið úr ofninum og setjið til hliðar.

Hitið grænmetisolíuna á pönnu yfir meðalháum hita. Steikið laukinn, sítrónugrasið, engiferið, hvítlaukinn og chilíflögurnar þar til laukurinn er orðinn mjúkur og glær.

Hellið út í 1 msk af sojasósu og 2 tsk af límónusafa og skrapið botninn á pönnunni ef einhverjir bitar eru fastir þar.

Bætið hrísgrjónunum og tófúinu út á pönnuna, blandið öllu vel saman og steikið þar til allt er orðið heitt í gegn.

Takið af hitanum og blandið kóríander og kasjúhnetunum saman við.

Berið fram strax með límónusneiðum og sojasósu.

Fyrir  2-3

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd