Skip to content

Kanillengja með kremi

Eldað í Vesturheimi er eins árs í dag. Ég er búin að skrifa 76 færslur, birta 89 uppskriftir og landa einu blaðaviðtali. Ég ætla ekki einu sinni að telja myndirnar sem ég hef birt, ég er hrædd um að ég fái vægt áfall. En mig langaði til að nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að líta inn hjá mér – hvort sem þið gerið það reglulega eða endrum og eins. Ég get ekki byrjað að lýsa því hversu þakklát ég er fyrir heimsóknir ykkar, athugasemdir og áhuga.

Er þetta orðið of væmið? Of vandræðalegt? Vindum okkur þá í sykur-, smjör- og gerbombu dagsins. Ég bakaði hana sérstaklega fyrir ykkur.

Þetta sætabrauð er stórhættulegt. Það er svo mjúkt, bragðgott og sætt. Sykurinn og smjörið leka niður í mótið og botninn á brauðinu verður karamellukenndur. Það passar ótrúlega vel með heitu kaffi eða kaldri mjólk. Og þið munuð vilja borða það allt án þess að deila með öðrum. (Eða var það bara ég?) Ég hugsa að ég búi það ekki til aftur nema ég eigi von á fólki í kaffibolla, svo ég geti haft hemil á mér. Borðsiðirnir í dag voru ekki beint til fyrirmyndar.

Þetta brauð, eins og flest allt gerbrauð, krefst smá tíma og alúðar. Það þarf að hefast tvisvar og hvílast tvisvar, bakast í hálftíma og kólna í korter. Þetta er því tilvalið brauð til að baka um helgi þegar veðrið er vont og hangsa þarf inni. Það má líka búa til deigið og stinga því inn í ísskáp og fletja það út og baka næsta dag. Það má sleppa rjómaostskreminu og búa frekar til súkkulaðikrem eða glassúr. Eða sleppa bara kremi alfarið. En fyrir alla muni fáið fólk í kaffi. Eins og Vesturheimsbúar segja:

Sharing is caring.

Kanillengja með kremi

(Uppskrift frá Joy the Baker)

Deigið:

  • 350 g (+2 msk) hveiti
  • 55 g sykur
  • 2 1/4 tsk þurrger
  • 1/2 tsk salt
  • 55 g smjör (ósaltað)
  • 80 ml [1/3 bolli] mjólk
  • 60 ml [1/4 bolli] vatn
  • 2 stór egg, við stofuhita
  • 1 tsk vanilludropar

Fyllingin:

  • 200 g sykur
  • 2 tsk kanilduft
  • 1/2 tsk múskat
  • 60 g smjör (ósaltað)
Kremið:
  • 40 g rjómaostur (bandarískur)
  • 30 g flórsykur
  • 1/2 msk mjólk
  • 1/2 msk sítrónusafi

Aðferð:

Hrærið saman 250 g af hveiti, sykur, ger og salt í stórri skál. Setjið til hliðar.

Hrærið eggin í lítilli skál. Setjið til hliðar.

Takið fram lítinn pott og hitið mjólkina og smjörið þar til smjörið hefur bráðnað. Takið af hitanum. Blandið vanillu og vatni saman við. Leyfið að standa í ca. 2 mínútur.

Hellið mjólkurblöndunni í hveitiblönduna og blandið saman með sleikju. Bætið eggjunum saman við og hrærið þar til eggin hafa blandast alveg inn í deigið. Bætið 100 g af hveiti saman við og hrærið með sleikjunni í tvær mínútur. Deigið verður klístrað. Það er eðlilegt.

Setjið deigið í stóra smurða skál. Hyljið með plastfilmu og viskastykki. Setjið á hlýjan stað og leyfið deiginu að tvöfaldast að stærð, það tekur ca. 1 klukkustund. [Þegar deigið hefur tvöfaldast má setja það inn í ísskáp og geyma yfir nótt. Leyfið svo deiginu að ná stofuhita í ca. 30 mínútur áður en það er flatt út.]

Á meðan þið bíðið eftir að deigið hefist er gott að hræra saman sykri, kanil og múskati í skál. Setjið til hliðar. Bræðið smjörið í litlum potti yfir lágum hita og haldið yfir hitanum þar til það brúnast og gefur frá sér hnetukenndan-karamellu-ilm. Setjið til hliðar. Takið fram lítið brauðform (ég notaði 9″x5″x3″), smyrjið og sáldrið smá hveiti yfir. Setjið það til hliðar líka.

Kýlið loftið úr deiginu og hnoðið 2 msk af hveiti saman við. [Deigið mitt var ennþá mjög klístrað og ég fann mig knúna til að bæta 3 msk af hveiti til viðbótar.] Hyljið með viskastykki og leyfið að hvílast í 5 mínútur. Deigið ætti að vera mjúkt, ekki klístrað og auðvelt að fletja út eftir hvíld.

Sáldrið hveiti yfir borðflöt og fletjið deigið í ca. ferhyrning, 30 cm á breidd og 50 cm á lengd. [Ef það nær ekki 50 cm, fletjið það þá bara eins langt og það kemst.] Notið bursta til að dreifa smjörinu yfir allt deigið. Sáldrið síðan kanilsykursblöndunni yfir allt deigið – þetta mun virðast mjög mikið af sykri en skellið því bara öllu á.

Skerið deigið í 6 jafnsbreiða renninga (nú er gott að nota reglustiku), skerið þversum (ekki langsum). Leggið lengjurnar ofan á hverja aðra og skerið síðan aftur í 6 jafnstóra bita. Núna ertu með 6 stafla af 6 ferningum. Raðið þeim svo ofan í brauðformið. Setjið viskastykki yfir og leyfið að hefast í 30 – 45 mínútur. Þetta á að tvöfaldast (eða næstum því) að stærð.

Setjið grindina í miðjan ofninn og hitið ofninn í 350°F/180°C. Setjið kanillengjuna í ofninn og bakið í 30 til 35 mínútur eða þar til toppurinn er orðin vel brúngylltur á litinn. Ef að toppurinn er rétt svo gylltur og virðist bakaður þá geti miðjan ennþá verið hrá. Leyfið lengjunni að verða fallega (og ágætlega dökk) brúngyllt. Það er líka hægt að nota tannstöngul til að gá hvort brauðið sé bakað í gegn.

Takið úr ofninum og leyfið að kólna í ca. 20 mínútur. Rennið hníf meðfram brauðforminu til að losa kanillengjuna frá og hvolfið á skurðarbretti. Setjið kökustand eða disk ofan á kanillengjuna og hvolfið aftur.

Búið til kremið á meðan kanillengjan kólnar. Blandið saman rjómaosti og flórsykri með viðarskeið. Bætið mjólk og sítrónusafa saman við og hrærið vandlega saman við. Smyrjið svo kreminu yfir volgt brauðið og reynið að troða því aðeins ofan í sprungurnar.

Það má vefja kanillengjuna í plast og geyma við stofuhita í 2 daga.

12 athugasemdir Post a comment
  1. Vilborg #

    Þetta er ótrúlega girnilegt! Rjómaosturinn í kremið, má það vera Philadelphia t.d.?
    Bestu kveðjur,
    Vilborg

    29/08/2011
    • Philadelphia er gott val. Ég reyndi einhvern tímann að nota íslenskan rjómaost en hann var of þunnur fyrir svona kremgerð.

      29/08/2011
  2. NAMM

    29/08/2011
  3. Sunna Kristín #

    vá! thetta er sjúklega girnilegt!

    29/08/2011
  4. Þuríður Ólafsdóttir #

    Til hamingju með afmælið,

    Þetta er hvorki of væmið né vandræðalegt. Við þurfum fólk eins og þig, Full af bjartsýni og gleði yfir lífinu.
    Sjáðu ég hef aldrei séð þig né heyrt en hlakka til að fá póstinn þinn og ég ætla svo sannarlega að stinga þessu góðæti í ofninn og bjóða fólkinu mínu að njóta með mér.
    Smá leyndarmál, Við hjónin eigum 53. ára brúðkaupsafmæli á morgun og ég er að hugsa um fjölskyldunni á óvart með þessari frábæru uppskrift þinni, slæ svo í nokkrar pönnsur, svona til vara því þar er ég alveg örugg. Kær kveðja Dússý

    29/08/2011
    • Takk kærlega fyrir það Þuríður! Og til hamingju með ykkar afmæli líka! 53 ár – það er meira en frábært. Það yljar mínu litla hjarta að heyra að uppskrift af blogginu mínu fái að vera með fjölskyldunni þinni á þessum merkisdegi.
      Og takk fyrir að fylgjast með :)

      29/08/2011
  5. Guðný Ebba #

    Panta svona í október dúllan mín ! xxxxx

    29/08/2011
  6. Salbjörg #

    Namm kanill, þetta er eins og risastór kanilsnúður. Verð að prófa að baka svona, helst bara á morgun :O Er loksins komin með netið (eftir langa bið) og get núna farið að skoða nýju uppskriftirnar í gríð og erg!

    29/08/2011
  7. Auður #

    Mmmm. Delish og vá hvað mig langar í heimsókn!

    31/08/2011
  8. Henný #

    Prufaði þessa um daginn og hún sló í gegn! Takk fyrir ;)

    24/04/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Árið kvatt | Eldað í Vesturheimi
  2. Sítrus-smjörkex með timíani | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd