Skip to content

Brúnur

Ég kvaddi litlu systur mína í dag eftir að hafa átt ævintýralega skemmtilega matar- og víndrykkjuviku á Manhattan. Það voru reyndar nokkrir (ehemm, flestir) dagar þar sem við flúðum heim í úrhellisrigningu með júmbóhvítvínsflösku undir handleggnum, hnerrandi og með skvamphljóð í skónum, en við gerðum okkar besta að láta það ekki á okkur fá.

Það var einmitt á einum slíkum rigningardegi sem ég skipaði Emblu undir sæng og píndi ofan í hana nokkra lítra af heitu tei, sem ég nýtti langþráð tækifæri til að búa til þessar brúnur (eða brownies eins og Kaninn kallar þær). Ég keypti bókina Baked um daginn og hef beðið eftir hentugum tíma til að baka eitthvað upp úr henni. Þessi uppskrift er talin vera besta brúnuuppskrift í Bandaríkjunum og hún sveik mig ekki. Kakan er dökkbrún og hefur mikið súkkulaðibragð, espressóduftið gefur henni örlítið biturt bragð og gerir það að verkum að brúnubitarnir eru alls ekki of sætir.

Baked er bakarí í Red Hook hverfinu í Brooklyn og mig hefur lengi langað að fara þangað til þess eins að smakka þessar brúnur. Ég hef ekki látið það eftir mér þar sem það er ótrúlega mikið vesen að komast þangað og ennþá erfiðara að komast aftur heim (engin hringferð í boði hér). Og þar með eru leiðindin ekki uptalin því bakaríið er einnig í sama útnára og IKEA verslunin og eins þakklát og ég er fyrir það ágæta framlag Svía, þá vekur það óhjákvæmilega ömurlegar tilfinningar að þurfa að endurupplifa ferðalög okkar þangað.

Það styttist reyndar óðum í að ég eigi stutt stopp á Skerinu og maginn á mér fer í hnút í hvert skipti sem ég kíki á veðurspána. Næturfrost og snjór í Esjuhlíðum? Bjakk og nei takk! Þið kippið þessu í liðinn áður en ég lendi. Ég vil ekki þurfa að snúa við.

Bandarísk skúffukaka (brownies)

(Matt Lewis & Renato Poliafito: Baked, New Frontiers in Baking)

 • 150 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 2 msk dökkt kakóduft (án sætuefna)
 • 310 g dökkt súkkulaði (60% – 70%), saxað
 • 225 g smjör, skorið í 2 sm stóra bita
 • 1 tsk instant espressókaffiduft
 • 335 g hrásykur
 • 100 g (ljós) púðursykur
 • 5 stór egg, við stofuhita
 • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

Hitið ofninn í 350°F/180°C. Smyrjið hliðar og botn á 9″x13″ bökunarformi.

Hrærið saman hveiti, salti og kakódufti í meðalstórri skál. Setjið súkkulaði, smjör og espressóduft í stóra skál og setjið skálina yfir pott af hægsjóðandi vatni. Hrærið reglulega þar til súkkulaðið og smjörið hafa bráðnað og blandan er kekkjalaus. Slökkvið undir pottinum og bætið sykrunum saman við súkkulaðiblönduna. Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman og takið þvínæst skálina af pottinum og leggið til hliðar. Blandan á að vera við stofuhita (annars eldast eggin í deiginu).

Bætið 3 eggjum saman við súkkulaðiblönduna og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Bætið þá restinni af eggjunum saman við og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Bætið vanilludropunum saman við og hrærið. Eftir þetta þarf að passa að hæra deigið ekki of mikið.

Sáldrið hveitiblöndunni yfir súkkulaðiblönduna. Notið sleikju (ekki þeytara!) og blandið varlega saman. Best er að fara með sleikjuna alveg undir súkkulaðiblönduna og leggja hana því næst yfir hveitiblönduna (sjá ítarlegri leiðbeiningar hér). Endurtakið þar til bara smá af hveitiblöndunni sést í deiginu.

Hellið deiginu yfir í bökunarmótið og jafnið út. Bakið í miðjum ofni í ca. 30 mínútur eða þar til blaut mylsna festist við tannstöngul sem stungið er í miðja kökuna. Fylgist vel með, kakan er mjög fljót að ofbakast. Leyfið að kólna alveg. Skerið í ferninga og berið fram.

Brúnurnar geymast í 3 daga við stofuhita ef þær eru vandlega pakkaðar inn í plastfilmu eða loftþéttar umbúðir.

Gerir 24 kökubita 

4 athugasemdir Post a comment
 1. Embla #

  Þessi uppskrift var SJÚK!!

  20/05/2011
 2. Inga Þórey #

  Rosa girnó bránís – ég fer í þetta fljótlega ;-)

  25/05/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Litlar Svartaskógskökur | Eldað í Vesturheimi
 2. Epla- og engifersorbet | Eldað í Vesturheimi

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: