Skip to content

Um síðuna

Nanna Teitsdóttir

Ég fluttist til New York með manninum mínum haustið 2009. Ég var nýgift, nýútskrifuð og hafði litla hugmynd um hvað tæki við. Eftir nokkra mánuði vorum við búin að koma okkur fyrir í stúdíóíbúð á Manhattan og ég var komin með tímabundið atvinnuleyfi í hendurnar. Við tók tímabil óvissu og ég endaði sem sölukona í bókabúð. Í fyrsta sinn í lífi mínu greip mig sú tilfinning að ég væri ekki að læra neitt nýtt, ekki að gera neitt sem krafðist einhvers af mér.

Það var þá sem ég fór að leita í eldhúsið og prófa mig áfram í bakstri og matseld. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af eldamennsku, viðreynslur mínar við bakstur enduðu venjulega í hráu brauðmeti og útbíuðu eldhúsi og ég fékk væg kvíðaköst þegar ég átti að búa til eitthvað ætt á kvöldin. En eftir því sem leið á veturinn fór ég að uppgötva að ég virkilega naut mín í eldhúsinu og maturinn sem ég eldaði var hreint ekkert svo slæmur. Ég hlakkaði til að koma heim og fá að búa til eitthvað nýtt að borða. Um sumarið ákvað ég svo að byrja að blogga um uppskriftir, matargerð og okkar daglega líf í stórborginni til að leyfa öðrum að taka þátt í lífi okkar og matarmenntun minni.

Við fluttum síðan úr litlu íbúðinni okkar á Manhattan í ennþá minni íbúð í Brooklyn. Það var svo í Brooklyn sem ég kolféll fyrir borginni – þrátt fyrir þröng húsakynni, gluggalaust eldhús og návist við mýs. Við eignuðumst dóttur haustið 2012 og fluttum síðan aftur heim til Íslands sumarið 2013.

Lífið hefur tekið miklum breytingum frá því að við lentum á JFK flugvellinum á heitu sumarkvöldi árið 2009. En eitt það skemmtilegasta sem kom úr dvöl okkar úti er þetta agnarsmáa pláss mitt á veraldarvefnum.

Ég set inn á síðuna uppskriftir, ráðleggingar og vangaveltur um allt matarkyns. Uppskriftirnar ættu ekki að vera of krefjandi og ég reyni eftir fremsta megni að halda réttum sem kalla á dýr hráefni í lágmarki.

Myndavélin sem ég hef notað frá sumrinu 2012 er Canon 550D og ég nota oftast Canon EF 50mm/1.8f linsu. Þegar ég nenni þá nota ég trausta þrífótinn minn við myndatökur.

Endilega setjið inn athugasemdir, spurningar, uppástungur og upphrópanir við færslur – mér finnst fátt skemmtilegra en að heyra frá ykkur. Þið getið líka sent mér tölvupóst á netfangið:

nannateits [hjá] gmail [punktur] com

Og hér er Fésbókarsíða bloggsins.

Og stundum segi ég einhverja vitleysu á Twitter.

Ég er líka á Pinterest.

Og Instagram er uppáhaldstenging mín við umheiminn.

Eldað í Vesturheimi í fjölmiðlum:

  • Viðtal í sérblaði Fréttablaðsins 20. ágúst 2011 [Tengill á frétt á vefsíðu blaðsins hér]
  • Umfjöllun á Pressunni.
  • Birtist á lista yfir 5 íslensk matarblogg í Gestgjafanum, 12 tbl, 2011.
  • Umfjöllun á vefsíðunni Hugmyndir fyrir heimilið ásamt uppskrift, 2012.
  • Umfjöllun á vefsíðu DV, 23. maí 2012.
  • Hluti af umfjöllun um tíu íslensk matarblogg, Sunnudagsblað Morgunblaðsins, 7 október 2012.
  • Viðtal í Jólablaði Fréttablaðsins ásamt uppskriftum, 27. desember 2012 [Viðtalið má sjá hér]
  • Viðtal í helgarblaði Morgunblaðsins, 3. ágúst 2013.
  • Viðtal og uppskriftir í kökublaði Gestgjafans, nóvember 2013.
13 athugasemdir Post a comment
  1. Þora Gylfadottir #

    Glæsilegt frænka min – er buin að auglysa þig a fesinu minu!

    31/08/2010
  2. Auður Axelsdóttir #

    Sæl og þakka þér fyrir síðuna. Síðan þín er falleg og freistandi og ég mun fygjast með. Kæra Þóra takk fyrir að deila þessu með okkur á fjésinu.
    Frábært og gott framtak hjá þér…fann ekki nafnið þitt.
    Kær kveðja.
    Auður

    03/06/2011
    • Takk kærlega fyrir það Auður! Mér þykir mjög vænt um að heyra að fólk sé að lesa og njóta bloggsins :)

      04/06/2011
  3. Sæl Nanna
    Elti athugasemdina þína. Falleg síða hjá þér…og sérlega fallegar ljósmyndir. Hvaða myndavél ertu að nota?
    félagi í blogginu, Ragnar

    13/08/2011
    • Takk fyrir það Ragnar! Ég hef einmitt mjög gaman af því að fylgjast með blogginu þínu. Ég er að nota Canon EOS 350D sem hefur reynst mér mjög vel þrátt fyrir aldur.

      13/08/2011
  4. Sæl Nanna!

    Skemmtilegt blogg, spennandi uppskriftir og fallegar myndir. Allt á mínu áhugasviði, svo ég kem örugglega til með að kíkja oft inn til þín. Takk fyrir þetta, ég deili á feisinu mínu!

    Kær kveðja, Guðný Ólafs, Dalvík.

    25/08/2011
    • Sæl Guðný!

      Takk fyrir það og vertu velkomin :)

      25/08/2011
  5. Sæl og blessuð og þakka þér fyrir þessa fallegu og vönduðu síðu. Mig hefur stundum langað til að blogga héðan frá Arizona þar sem ég er á veturna en haldið að það væri allt of flókið fyrir mig. Svo ákvað ég að reyna að feta í fótspor þín og læra af þér!
    Vona að þér sé ekki illa við svona „copycat“ heldur lítir frekar á það sem hrós að þú hafir verið hvatning fyrir „eldri konu“!
    Ég ætla fyrst og fremst að nota þessa síðu til að senda fréttir af okkur hjónunum til þeirra sem á Íslandi eru. Nota svo þína síðu áfram til að fá frábærar uppskriftir.
    Bestu þakkir og kveðjur, Halldóra

    30/09/2011
    • Sæl Halldóra. Ég er nú bara meira en lítið upp með mér að vera hluti af innblæstri þínum að byrja að blogga um lífið í BNA! Takk kærlega fyrir hrósið og ég vona að þú eigir eftir að njóta þess að búa til þinn ,krók’ á veraldarvefnum :)
      Gott gengi!

      30/09/2011
  6. Kærar þakkir!

    30/09/2011
  7. Takk fyrir að kvitta á síðunni hjá mér :) Fannst mjög gaman að rekast á síðuna þína í dag og mun eflaust fylgjast vel með hér eftir.

    16/10/2011
  8. Gerður #

    Gerður
    Sæl. Mér fannst komin tími til að hrósa fallegu matarbloggi þínu. Ég hef fylgst með því í töluverðan tíma.
    Myndirnar þínar eru sérlega fallegar og gera allt svo girnilegt.
    Núna liggur fjölskyldan í flensu og ætla ég því að prófa heilsumjólkina þína á eftir:)

    25/04/2012
    • Takk kærlega fyrir það Gerður! Vonandi náið þið flensunni úr ykkur sem allra fyrst. Þetta mjólkurte er pottþétt skref í rétta átt :)

      25/04/2012

Skildu eftir athugasemd