Skip to content

Quesadillur með sveppum, spínati og geitaosti

Í fyrsta skipti í langan tíma þá er ég komin í tveggja daga helgarfrí. Eftir marga mánuði af atvinnuleysi, eirðarleysi og (alltof, alltof) mörgum klukkutímum af matarbloggshangsi þá tók ég þá ákvörðun að fara að vinna aftur í litlu hryllingsbókabúðinni. Það er nefnilega alveg með ólíkindum hvað það er erfitt fyrir útskrifaðan heimspeking með fáránlegt eftirnafn að fá svo lítið sem viðtal á vinnumarkaði New York.

Það er samt gott að hitta gömlu vinnufélagana (þá örfáu sem eftir eru) og fá sögur af öllu því ótrúlega sem viðgengst í búðarheimi Bandaríkjamanna – þar sem snarklikkaðir eigendur og yfirmenn ganga lausum hala og stéttarfélögin lyfta ekki litla fingri til að hjálpa þeim sem leita á náðir þeirra. Kannski mun ég segja söguna af því þegar eigandinn kýldi mann í andlitið því hann hafði (saklausan) viðskiptavininn grunaðan um búðarhnupl eða þegar hann rak starfsmann fyrir þær sakir að hafa tapað fyrir honum í póker. Því trúið mér, sögurnar eru endalausar og misjafnlega fallegar.

Ég er samt afskaplega róleg þar sem vinnan er tímabundin þar til við leggjumst í örflutninga til Bergen. Við skulum bara vona að ég verði hvorki kýld né rekin fyrir undarlegar sakir. Ég á örugglega eftir að gera ykkur pirruð á því að minna ykkur á að Ísland er eiginlega frábær staður fyrir vinnandi fólk – ef minnið skyldi vera að hrjá ykkur þaðeraðsegja.

En ég er ekki ennþá farin að tala um matinn sem ég eldaði í kvöld. Sem er synd og skömm því að þetta var auðveldasta quesadilluveisla sem ég hef galdrað fram (með hjálp Ree), sem var líka eins gott því að félagslíf okkar hjóna er búið að vera svo skrautlegt og skemmtilegt þessa helgi að ég átti erfitt með að fara fram úr rúminu og ennþá erfiðara með að labba út í búð og velja hráefni. Lúxusvandamál? Kannski.

En í fyllstu alvöru þá eru þessar quesadillur svo góðar að ég á erfitt með að hugsa til þess að afgangurinn fari í nestispakkann hans Elmars og ég þurfi að sitja eftir quesadillulaus á morgun. Sveppirnir og spínatið er steikt upp úr smjöri (namm) og hvítvíni (namm!) og svo er öllu raðað á hveitibökuna og skellt á pönnu í stutta stund. Einfalt, fljótlegt og svo gott að ég held ég fái aldrei nóg.

Quesadillur með sveppum, spínati og geitaosti

(Uppskrift frá The Pioneer Woman)

 • 30 g smjör
 • 450 g sveppir, skornir í þunnar sneiðar
 • 100 ml hvítvín eða sérrí
 • 3 msk hvítvín eða sérrí (aukalega)
 • Salt og pipar, eftir smekk
 • 1 poki spínatlauf
 • 12 tortillur
 • 225 g fontinaostur eða annar mildur ostur sem bráðnar auðveldlega, rifinn
 • 85 g geitaostur
 • Smjör eða ólívuolía til að smyrja tortillurnar

Aðferð:

Hitið pönnu yfir meðalháum hita, setjið 20 g af smjöri í pönnuna og leyfið að bráðna. Þegar smjörið hefur bráðnað bætið sveppunum við og steikið í 2 mínútur og kryddið með salti og pipar. Hellið 100 ml af hvítvíni út í pönnuna og steikið í ca. 6 mínútur eða þangað til allur vökvi hefur gufað upp. Setjið sveppina til hliðar.

Setjið pönnuna aftur á helluna, lækkið hitann undir henni, og bræðið 10 g af smjöri. Hellið 3 msk af hvítvíni út á pönnuna, setjið spínatið á pönnuna, saltið og piprið og leyfið spínatinu að síga saman. Steikið svo í aðeins 2 mínútur. Setjið til hliðar.

Búið nú til quesadillurnar. Takið fram eina tortillu og dreifið fontinaostinum yfir helminginn af henni, dreifið síðan spínati yfir ostinn, sáldrið síðan sveppunum yfir, setjið doppur af geitaosti ofan á. Lokið tortillunni með því að leggja auða helminginn yfir fyllta helminginn. Smyrjið með smjöri eða ólívuolíu og leggið á pönnu eða setjið í samlokugrill. Steikið þangað til tortillan hefur tekið á sig lit og osturinn hefur bráðnað. Endurtakið þar til hráefnið hefur klárast.

Skerið quesadillurnar í sneiðar og berið fram með fersku salsa.

Fyrir 6

One Comment Post a comment
 1. Guðný Ebba #

  mmmmmmmm! Ég fæ vatn í munninn! ;) x

  07/03/2011

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: