Moules à la Marinière [Kræklingar í hvítvíni]
Við Elmar erum dottin í einn allsherjarkræklingagír. Kræklingar eru ódýrir hjá okkur og eru alveg frábær leið til að láta okkur líða eins og við séum að borða rándýra máltíð – enda eru þeir kallaðir ,ostrur fátæka mannsins’. Það er líka alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt að elda þá.
Það var komið að mér að spreyta mig á að elda kræklinga þegar Elmar átti afmæli. Ég ákvað að gufusjóða þá samkvæmt franskri hefð og studdist við Mastering the Art of French Cooking. Reyndar var afmæliskaka Elmars úr þeirri bók líka þannig að dagurinn var með frönsku matarþema hjá okkur. Við keyptum kræklingana daginn áður í Lobster Palace í Chelsea Market. Ef þið ferðist til New York þá verðið þið að kíkja á Highline og inn í Chelsea Market. Fiskmarkaðurinn þar er einn uppáhaldsstaðurinn minn í allri borginni.
Ég græt það oft í laumi að ég eigi enn eftir að fara til Frakklands. Ég læt mig oft dreyma um að búa þar, bæta við það skammarlega litla hrafl sem ég kann í frönsku og eyða dögum mínum í að elda og drekka vín. Klisjukennt? Eflaust. En ég get vottað það að ef við búum einhvern tímann í Frakklandi, þá mun þessi réttur skreyta borðið eins oft og ég næ að kaupa fallega kræklinga.
Moules à la Marinière
(Uppskrift frá Juliu Child: Mastering the Art of French Cooking)
Ég hef helmingað uppskriftina hennar Juliu og gert smávægilegar breytingar á annars skotheldri uppskrift.
- 250 ml [1 bolli] létt og þurrt hvítvín eða hvítur vermút
- 1 lítill skallotlaukur, saxaður
- 4 steinseljustilkar
- 1 lárviðarlauf
- 1/4 tsk tímjan
- pipar á hnífsoddi
- 50 g smjör
- 2 kg kræklingar
- 1/4 bolli steinseljulauf, söxuð
Aðferð:
Byrjið á því að skrúbba kræklingana til að losa skeljarnar við óhreinindi. Fjarlægið ,skeggið’ og passið að allar skeljarnar séu vandlega lokaðar. Ef einhverjar eru opnar á að banka þeim léttilega við eldhúsbekkinn og sjá hvort að skelin lokar sér. Þær sem loka sér ekki skal hent. Mikilvægt er að kræklingarnir séu lifandi við eldun. Gott er að kynna sér vel meðhöndlun á kræklingum áður en byrjað er.
Setjið vínið ásamt lauknum, lárviðarlaufinu, tímjaninu, piparnum og smjörinu í stóran pott. Náið upp suðu og sjóðið í 2 – 3 mínútur svo að áfengið gufar upp og vökvinn minnkar aðeins.
Setjið kræklingana í pottinn. Setjið lok yfir og passið að það loki pottinum vandlega. Sjóðið yfir háum hita. Grípið pottinn af og til, passið að halda lokinu niðri, og hristið pottinn. Þú vilt að kræklingarnir sem eru á botninum fari upp svo að allir kræklingarnir eldast jafnt. Innan 5 mínútna ættu kræklingarnir að hafa opnað skeljar sínar og verða fulleldaðir.
Takið kræklingana af hitanum og berið strax fram með steinseljulaufnum, brauði (eða frönskum kartöflum).
Fyrir 6 – 8 í forrétt, 3 – 4 í aðalrétt
Oh það er svo dásamlegt að borða moules! :)
Ég er viss um að þú myndir smellpassa inn í eitthvað franskt sveitaþorp…
Ó hvað það gleður mig að heyra það :)