Moules à la Marinière [Kræklingar í hvítvíni]
Við Elmar erum dottin í einn allsherjarkræklingagír. Kræklingar eru ódýrir hjá okkur og eru alveg frábær leið til að láta okkur líða eins og við séum að borða rándýra máltíð – enda eru þeir kallaðir ,ostrur fátæka mannsins’. Það er líka alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt að elda þá.
Það var komið að mér að spreyta mig á að elda kræklinga þegar Elmar átti afmæli. Ég ákvað að gufusjóða þá samkvæmt franskri hefð og studdist við Mastering the Art of French Cooking. Reyndar var afmæliskaka Elmars úr þeirri bók líka þannig að dagurinn var með frönsku matarþema hjá okkur. Við keyptum kræklingana daginn áður í Lobster Palace í Chelsea Market. Ef þið ferðist til New York þá verðið þið að kíkja á Highline og inn í Chelsea Market. Fiskmarkaðurinn þar er einn uppáhaldsstaðurinn minn í allri borginni.
Ég græt það oft í laumi að ég eigi enn eftir að fara til Frakklands. Ég læt mig oft dreyma um að búa þar, bæta við það skammarlega litla hrafl sem ég kann í frönsku og eyða dögum mínum í að elda og drekka vín. Klisjukennt? Eflaust. En ég get vottað það að ef við búum einhvern tímann í Frakklandi, þá mun þessi réttur skreyta borðið eins oft og ég næ að kaupa fallega kræklinga.