Skip to content

Posts from the ‘Franskt’ Category

Moules à la Marinière [Kræklingar í hvítvíni]

Við Elmar erum dottin í einn allsherjarkræklingagír. Kræklingar eru ódýrir hjá okkur og eru alveg frábær leið til að láta okkur líða eins og við séum að borða rándýra máltíð – enda eru þeir kallaðir ,ostrur fátæka mannsins’. Það er líka alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt að elda þá.

Það var komið að mér að spreyta mig á að elda kræklinga þegar Elmar átti afmæli. Ég ákvað að gufusjóða þá samkvæmt franskri hefð og studdist við Mastering the Art of French Cooking. Reyndar var afmæliskaka Elmars úr þeirri bók líka þannig að dagurinn var með frönsku matarþema hjá okkur. Við keyptum kræklingana daginn áður í Lobster Palace í Chelsea Market. Ef þið ferðist til New York þá verðið þið að kíkja á Highline og inn í Chelsea Market. Fiskmarkaðurinn þar er einn uppáhaldsstaðurinn minn í allri borginni.

Ég græt það oft í laumi að ég eigi enn eftir að fara til Frakklands. Ég læt mig oft dreyma um að búa þar, bæta við það skammarlega litla hrafl sem ég kann í frönsku og eyða dögum mínum í að elda og drekka vín. Klisjukennt? Eflaust. En ég get vottað það að ef við búum einhvern tímann í Frakklandi, þá mun þessi réttur skreyta borðið eins oft og ég næ að kaupa fallega kræklinga.

SJÁ UPPSKRIFT

Reine de Saba [Frönsk möndlu- og súkkulaðikaka]

Elmar átti afmæli í síðustu viku og við áttum mjög góðan og afslappandi dag saman. Ég eldaði kræklinga um kvöldið og við fengum okkur dýrindis osta úr Murray’s Cheese Shop og sneið af þessari köku í eftirmat. Ég hef sagt það áður að mér finnst einstaklega gaman að búa til afmæliskökur og mér finnst að allir eigi að fá heimabakaða köku á afmælisdeginum.

Ég gróf þessa uppskrift upp úr bók sem mér þykir afskaplega vænt um, Mastering the Art of French Cooking. Þóra frænka mín gaf mér hana stuttu eftir að ég tók ástfóstri við eldhúsið. Bókin hefur gefið mér mikinn innblástur og kjark til að tækla uppskriftir sem ég hefði annars aldrei þorað að hjóla í. Kakan var ómótstæðilega ljúffeng með ríku súkkulaðibragði og miklu möndlubragði í bland.

SJÁ UPPSKRIFT

Hunangskjúklingur með lofnarblómum og sítrónu

Ég er lengi búin að vera vandræðalega skotin í Rachel Khoo, þáttastjórnanda The Little Paris Kitchen. Hún útskrifaðist frá hinum virta listaháskóla, Central Saint Martin í London, og eftir nokkur ár í tískubransanum lét hún gamlan draum rætast. Hún fluttist til Parísar, gerðist au pair og innritaði sig í Le Cordon Bleu matreiðsluskólann. Ég hrífst af sögum þar sem fólk skiptir algjörlega um starfsvettvang. Kannski vegna þess að ég er í doktorsnámi í fagi sem ég elska (heimspeki) en veit ekki hvort ég geti hugsað mér að vinna við það í framtíðinni. Allt nám er þó gott veganesti og ég er sannfærð um að heimspekin sé jafnvel besta veganestið.

Talandi um nesti. Þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði úr nýju matreiðslubókinni hennar Khoo. Ég á fullt af þurrkuðum lofnarblómum (lavender) upp í skáp en ég hafði keypt risapoka þegar ég bjó til kornasápu um árið. Ég var hálfefins á meðan kjúklingurinn eldaðist því mér fannst blómalyktin svo sterk. En kjúklingurinn var dásamlegur! Hunangið gerði það að verkum að ysta lag kjúklingsins varð dökkt og stökkt og lofnarblómsbragðið var milt og ljúft. Þetta er einfaldur en öðruvísi kjúklingaréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk lauksúpa

Það er búið að vera svo kalt hjá okkur að ég er næstum því komin með heimþrá. Tólf stiga frost, vindur og raki í lofti gera það að verkum að manni líður eins og það sé verið að naga í kinnarnar á manni og nefið sé við það að detta af. Við erum því ekki mjög ötul við að fara út þessa dagana og reynum frekar að læra heima og leika við Þórdísi. Svona fimbulkuldi og mikil innivera kallar á eitthvað ljúffengt sem yljar manni.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikil súpukona. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um það, sérstaklega þegar ég ramba á einhverja góða uppskrift (eins og þessa). Ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem gæti borðað súpur í öll mál en í nærri því öllum tilfellum þá fæ ég mér smá súpu og borða svo þyngd mína í brauði með smjöri.

Franska lauksúpan hennar Juliu Child er þó undanskilin þessari súpufælni minni. Ég hef skrifað um hana hérna  fyrir löngu síðan, áður en ég fattaði hvernig myndavélar og lýsing virkuðu og því miður gera myndir mínar þar þessari ljúffengu súpu engan greiða. Mig langaði því til að skrifa nýja færslu með nýjum myndum til að hvetja ykkur til að malla þessa súpu því hún ætti engan að svíkja. Hún er mjög einföld en krefst þó smá þolinmæði. Það er mikilvægt að gefa lauknum tíma til að verða dökkgylltur á litinn svo að útkoman verði sem allra best, þetta gæti tekið rétt rúman klukkutíma. Ég stend alltaf í táraflóði þegar ég er að skera lauk og því hjálpar mér mikið að eiga svona mandólín* sem gerir það að verkum að ég er eldsnögg að skera hann niður.

[*Ef þið hafið áhuga á slíkum grip þá sá veit ég að Pipar og salt á Klapparstíg selja hann.]

SJÁ UPPSKRIFT

Refsingar

Ég hef alls ekki náð fyrri hæðum í að baka, skreyta og plana fyrir þessi jól. Ég hef þurft að venjast því að geta ekki verið eins afkastamikil og áður. Tími minn frá Þórdísi þarf yfirleitt að vera mjög skipulagður og þar sem ég er ekki atvinnubloggari (því miður!) þá fer sá tími að mestu leyti í að einbeita mér að doktorsverkefninu ógurlega.

Ég fékk samt smá móral í dag yfir smákökuleysinu á heimilinu og ákvað að prófa nýja uppskrift. Þessar smákökur eru franskar að uppruna og kallast þar punitions (í. refsingar). Það sem heillaði mig hvað mest við þær var smjörmagnið og mér fannst eitthvað nördalega spennandi við að búa til smákökudeig í matvinnsluvélinni. Þessi uppskrift er mjög góð eins og hún er en það er örugglega mjög auðvelt að breyta henni – setja í kökurnar sítrusbörk, súkkulaðibita, espressóduft eða eitthvað annað sem manni dettur í hug. Ég apaði eftir Smitten Kitchen og bjó til samlokur úr þeim með dökku súkkulaði á milli en ég hugsa að það sé líka mjög gott að smyrja saltaðri karamellu á milli.

Er baksturinn búinn heima hjá ykkur? Ef ekki, má ég þá mæla með þessum uppskriftum?

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk súkkulaðibaka með ferskum berjum

Systir mín elskuleg kemur í heimsókn til okkar á morgun og verður alveg í heila viku. Ég á erfitt með að beisla spenninginn og hlakka alveg óendanlega mikið til að sýna henni hverfið okkar og Brooklyn. Þetta er í þriðja skiptið sem hún kemur í heimsókn til okkar en hún hefur alltaf verið einstaklega óheppin með veður. En núna loksins virðist veðurspáin ætla að vera okkur hliðholl með tilheyrandi sól, blíðu og hita. Ég sé fram á góða letilega daga í garðinum og skemmtileg kvöld í bjór- og víngörðum Brooklyn (þar sem ég verð auðvitað með sódavatn í hönd eins og þægri óléttri konu sæmir).

Ég bjó til þennan fallega eftirrétt þegar við fengum til okkar góða gesti í mat. Þessi baka er svolítið tímafrek í ferli en er þó mjög einföld og erfitt að klúðra henni. Skelin er búin til með góðum fyrirvara og þarf tíma til að kólna alveg áður en henni er stungið inn í ofn. Kremið er fljótlagað og svo þarf bara að skera  niður fersk ber og dreifa yfir toppinn. Bakan er ofboðslega ljúffeng og er sérstaklega heppileg fyrir þá sem fá ekki nóg af dökku súkkulaði. Ég bjó hana til um morguninn og geymdi inni í ísskáp þar til ég bar hana fram fyrir gesti um kvöldið og var fegin því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tímasetja eftirréttinn þannig að hann færi beint úr ofni á borð. Það er samt mælt með að bakan sé borin fram samdægurs en hún heldur sér ágætlega inni í kæli í 2 til 3 daga.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: