Skip to content

Refsingar

Ég hef alls ekki náð fyrri hæðum í að baka, skreyta og plana fyrir þessi jól. Ég hef þurft að venjast því að geta ekki verið eins afkastamikil og áður. Tími minn frá Þórdísi þarf yfirleitt að vera mjög skipulagður og þar sem ég er ekki atvinnubloggari (því miður!) þá fer sá tími að mestu leyti í að einbeita mér að doktorsverkefninu ógurlega.

Ég fékk samt smá móral í dag yfir smákökuleysinu á heimilinu og ákvað að prófa nýja uppskrift. Þessar smákökur eru franskar að uppruna og kallast þar punitions (í. refsingar). Það sem heillaði mig hvað mest við þær var smjörmagnið og mér fannst eitthvað nördalega spennandi við að búa til smákökudeig í matvinnsluvélinni. Þessi uppskrift er mjög góð eins og hún er en það er örugglega mjög auðvelt að breyta henni – setja í kökurnar sítrusbörk, súkkulaðibita, espressóduft eða eitthvað annað sem manni dettur í hug. Ég apaði eftir Smitten Kitchen og bjó til samlokur úr þeim með dökku súkkulaði á milli en ég hugsa að það sé líka mjög gott að smyrja saltaðri karamellu á milli.

Er baksturinn búinn heima hjá ykkur? Ef ekki, má ég þá mæla með þessum uppskriftum?

Refsingar

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 140 g saltað smjör*, við stofuhita
  • 125 g [1/2 bolli] sykur
  • 1 egg, við stofuhita
  • 280 g [2 bollar] hveiti
  • 200 g suðusúkkulaði eða 70% súkkulaði

*Það má auðvitað nota ósaltað smjör og þeyta í staðinn 1/8 tsk af salti saman við smjörið.

Aðferð:

Setjið smjörið í matvinnsluvél* og látið vélina ganga þar til smjörið er mjúkt og slétt.

Bætið sykrinum út í og látið vélina ganga þar til sykurinn hefur blandast smjörinu.

Bætið egginu út í og látið vélina ganga þar til blandan er orðin silkislétt.

Bætið hveitinu saman við, öllu í einu, og „púlsið“ 10 til 15 sinnum eða þar til deigið er farið að mynda kekki.

Hellið deiginu úr vélinni yfir á hveitistráðan flöt og þjappið varlega saman í bolta. Skiptið boltanum í tvennt og mótið tvo diska. Vefjið þétt inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í 4 klukkutíma eða yfir nótt (deigið geymist í 4 daga inni í ísskáp eða 1 mánuð inni í frysti).

Hitið ofninn í 180°C/350°F og setjið bökunarpappír á tvær ofnplötur.

Takið deigið úr ísskápnum. Setjið deigið í stóran ziplock poka (eða skiptið deiginu niður og notið minni ziplock poka) og fletjið deigið út þar til það verður 5 mm á þykktina. Notið 4 cm hringlaga útstunguform og skerið deigið með því. Afganginn af deiginu má þétta aftur saman í bolta, kæla í smá stund og fletja aftur út. Flytjið bitana yfir á ofnplöturnar og hafið smá bil á milli.

Bakið kökurnar í 8 – 10 mínútur eða þar til þær hafa bakast í gegn án þess að brúnast. Þær eiga að vera fölar á litinn. Flytjið þær af ofnplötunni yfir á grind og leyfið að kólna alveg.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og leyfið aðeins að kólna. Setjið súkkulaðið í plastpoka og skerið smá enda af einu horninu á pokanum. Raðið helmingnum af smákökunum í raðir á eldhúsbekknum. Sprautið veglegri súkkulaðiklessu í miðjuna á hverri köku. Lokið kökunum með því að setja hinn helminginn af kökunum yfir og snúið þeim lítillega þegar þær eru settar á (þá dreifist kremið jafnt yfir smákökuna).

*Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá má auðvitað búa til deigið í hrærivél.

ca. 35 smákökur

Prenta uppskrift

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: