Súkkulaðispesíur með sjávarsalti
Í hverfinu okkar er gúrmet-, osta- og bjórbúðin Brooklyn Larder. Það er fátt sem okkur þykir skemmtilegra en að kíkja þangað inn, skoða ostaúrvalið og allt það kræsilega sem búðin hefur upp á að bjóða. En hún er dýr og því förum við aldrei hlaðin þaðan út heldur erum í mesta lagi með lítinn poka með þunnum sneiðum af osti og kannski smá hráskinku. Ein af gersemum búðarinnar eru smjörríkar súkkulaðismákökur með sjávarsalti. Ég gæti bókstaflega borðað þær allan liðlangan daginn án þess að fá nóg. En verðmiðinn setur græðgi minni mörk.
Um daginn fór ég í búðina og horfði löngunaraugum á fallegu kökurnar en gat ekki fengið mig til að kaupa þær (það er stundum kvöð að vera sælkeri á námsmannakjörum). Ég einsetti mér því að föndra uppskrift sem myndi jafnast á við smákökurnar þeirra. Ég lá yfir bókum, reiknaði hlutföll (og mér finnst sko ekkert gaman að reikna) og þetta er afraksturinn. Þessar kökur eru engu síðri og eru afskaplega fljótar að klárast. Galdurinn er að nota mikið smjör, mikið og dökkt súkkulaði, litla dökka súkkulaðibita og saltflögur sem bráðna auðveldlega í munni.