Skip to content

Posts from the ‘Smákökur’ Category

Súkkulaðispesíur með sjávarsalti

Í hverfinu okkar er gúrmet-, osta- og bjórbúðin Brooklyn Larder. Það er fátt sem okkur þykir skemmtilegra en að kíkja þangað inn, skoða ostaúrvalið og allt það kræsilega sem búðin hefur upp á að bjóða. En hún er dýr og því förum við aldrei hlaðin þaðan út heldur erum í mesta lagi með lítinn poka með þunnum sneiðum af osti og kannski smá hráskinku. Ein af gersemum búðarinnar eru smjörríkar súkkulaðismákökur með sjávarsalti. Ég gæti bókstaflega borðað þær allan liðlangan daginn án þess að fá nóg. En verðmiðinn setur græðgi minni mörk.

Um daginn fór ég í búðina og horfði löngunaraugum á fallegu kökurnar en gat ekki fengið mig til að kaupa þær (það er stundum kvöð að vera sælkeri á námsmannakjörum). Ég einsetti mér því að föndra uppskrift sem myndi jafnast á við smákökurnar þeirra. Ég lá yfir bókum, reiknaði hlutföll (og mér finnst sko ekkert gaman að reikna) og þetta er afraksturinn. Þessar kökur eru engu síðri og eru afskaplega fljótar að klárast. Galdurinn er að nota mikið smjör, mikið og dökkt súkkulaði, litla dökka súkkulaðibita og saltflögur sem bráðna auðveldlega í munni.

SJÁ UPPSKRIFT

Smákökur með stórum súkkulaðibitum og sjávarsalti

Ég veit. Þetta blogg er þegar smekkfullt af súkkulaðibitakökum (sjá til dæmis hér, hér, hér og hér). Málið er bara að þegar ég sé svona girnilega uppskrift þá stenst ég ekki mátið. Ég elska súkkulaðikex svo mikið að ef ég baka það ekki sjálf þá fer ég að kaupa einhverja algjöra vitleysu út í búð, fullt af aukaefnum og drasli. Þessar súkkulaðibitakökur eru dásamlegar – salt og súkkulaði passa einstaklega vel saman. Þær eru mjúkar í miðjunni, stökkar á endunum og eru fljótar að klárast.

SJÁ UPPSKRIFT

Refsingar

Ég hef alls ekki náð fyrri hæðum í að baka, skreyta og plana fyrir þessi jól. Ég hef þurft að venjast því að geta ekki verið eins afkastamikil og áður. Tími minn frá Þórdísi þarf yfirleitt að vera mjög skipulagður og þar sem ég er ekki atvinnubloggari (því miður!) þá fer sá tími að mestu leyti í að einbeita mér að doktorsverkefninu ógurlega.

Ég fékk samt smá móral í dag yfir smákökuleysinu á heimilinu og ákvað að prófa nýja uppskrift. Þessar smákökur eru franskar að uppruna og kallast þar punitions (í. refsingar). Það sem heillaði mig hvað mest við þær var smjörmagnið og mér fannst eitthvað nördalega spennandi við að búa til smákökudeig í matvinnsluvélinni. Þessi uppskrift er mjög góð eins og hún er en það er örugglega mjög auðvelt að breyta henni – setja í kökurnar sítrusbörk, súkkulaðibita, espressóduft eða eitthvað annað sem manni dettur í hug. Ég apaði eftir Smitten Kitchen og bjó til samlokur úr þeim með dökku súkkulaði á milli en ég hugsa að það sé líka mjög gott að smyrja saltaðri karamellu á milli.

Er baksturinn búinn heima hjá ykkur? Ef ekki, má ég þá mæla með þessum uppskriftum?

SJÁ UPPSKRIFT

Sjúkar súkkulaðibitakökur

Eldað í Vesturheimi er tveggja ára í dag. Ég hefði viljað baka einhverja stórfenglega köku í tilefni dagsins, klappað sjálfri mér á bakið og sýnt einhverja snilldartakta í eldhúsinu. En þar sem ég er komin rúmlega 38 vikur á leið og er með eina ömurlegustu flensupesti seinni tíma þá hafa vangaveltur um hnallþórur og flókið bakkelsi verið í miklu lágmarki. Mér hefur verið skipað að hafa mig hæga og losna við hita og beinverki fyrir komandi átök. Og ég þori ekki öðru en að hlýða.

Því ætla ég að ,svindla’ svolítið og bjóða ykkur frekar upp á þessar súkkulaðibitakökur sem Embla Ýr bjó til handa okkur um daginn. Embla er smákökusnillingur og þá sérstaklega þegar það kemur að súkkulaðibitakökum. Hún saxar dökkt súkkulaði mjög gróflega þannig að maður bítur í gegnum stóra og stökka súkkulaðimola. Uppskriftin sem hún studdist við er frá Baked bakaríinu í Brooklyn og við erum mjög ánægðar með útkomuna. Þessari smákökur eru sjúklega góðar og passa einstaklega vel við ískalda mjólk.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðibitakökur með ristuðum kókos

Við áttum alveg frábæra helgi í borginni og erum ansi brún og sælleg eftir allt húllumhæið. Guðbjört, vinkona okkar, vinnur hjá Bloomberg fréttaveitunni í borginni og var svo góð að bjóða okkur með á sumarhátið fyrirtækisins. Við vissum að þetta væri ansi vel útilátin hátíð en okkur grunaði kannski ekki hversu langt þetta var frá grilluðum pylsum og gosi. Þeir höfðu leigt eyju í East River og buðu upp á heilgrillaðan grís á teini, mexíkóskan mat, indverskan mat, grillaðan fisk, hamborgara, pylsur, bjór, sangríur, gos og ís. Þarna mátti fara í míní-golf, paintball, fótbolta og alls kyns leiktæki. Allt í boði fyrirtækisins. Við skemmtum okkur alveg stórkostlega, Elmar vann paintballkeppni og ég brann á öxlunum.

Það eru bara örfáir dagar síðan ég lofaði sjálfri mér að kveikja ekki á ofninum það sem eftir lifir sumars. Eldhúsið okkar er innst í litlu stúdíóíbúðinni okkar, er gluggalaust og ofninn er risastór. Þegar loftkælingin er ekki í gangi (en henni er stjórnað af eigendunum uppi) þá er það ekki heiglum hent að fýra upp í skrímslinu því innan nokkurra mínútna verður íbúðin alveg bullsjóðandi heit. En mig langaði bara svo mikið í smákökur að ég stillti vifturnar á fullt, sneri rofanum og reyndi að hafa hraðar hendur. Og útkoman var alveg þess virði – súkkulaðibitakökur með brúnuðu smjöri og kókos. Reyndar fannst mér kókosbragðið heldur milt og mæli með að skella smá meira kókosmjöli heldur en uppskriftin kveður á um.

SJÁ UPPSKRIFT

Cappuccino smákökur með súkkulaðibitum

Þið verðið að afsaka þessar endalausu blómamyndir en ég er orðin alveg hugfangin af allri vordýrðinni í hverfinu okkar. Við Elmar fórum í langan göngutúr í góðviðrinu um daginn, fundum æðislegan bístró-bar í Cobble Hill hverfinu þar sem við fengum okkur drykk og snarl, og ég reyndi á þolinmæði eiginmannsins með því að stoppa við hvert einasta blómstrandi tré til að taka myndir. Ég var nálægt því að tilkynna að sumarið væri komið, pakka niður lopapeysum og frökkum og stinga treflum innst inn í fataskápinn okkar. En þessi óvænta marshitabylgja virðist liðin undir lok og framundan er rigning og kaldara veður. Sumarið bíður betri tíma.

Ég er að berjast við eitthvert súkkulaðikexæði þessa dagana. Þetta hefur valdið því að á einhvern undraverðan hátt laumast Chips Ahoy pakki ofan í innkaupakörfuna okkar í hvert skipti sem við förum út í búð. Chips Ahoy er nefnilega alveg ágætlega gott svo lengi sem maður sleppir því að lesa innihaldslýsinguna (ég skil ekki helminginn af því sem er í kexinu eða af hverju það þarf að vera í því). Ég ákvað í stað þess að berjast við kexpúkann í mér að búa mér til heimabakaðar súkkulaðibitakökur úr gæðahráefni með kaffibragði.

Þetta er stór uppskrift. Ég bakaði ca. 40 stórar smákökur úr deiginu. En ég er ekki að gefa í skyn að það sé slæmur hlutur (alls ekki), það er í raun kjörið tækifæri til að gleðja fólkið í kringum ykkur með smákökugjöfum. Því þessar smákökur eru alveg frábærar. Þær eru stökkar á endunum en mjúkar að innan með ríku kaffibragði, smá karamellubragði og miklu magni af súkkulaðibitum. Ég veit að ég ætti að deila þeim með öðrum en mig grunar að þær fari aðallega ofan í magann minn.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: