Smákökur með höfrum og súkkulaðibitum
Ég ætti eiginlega að búa í litlum bæ. Litlum bæ þar sem fólk væri endalaust að kíkja inn í kaffi og með því. Þá gæti ég bakað eins oft og mikið og mig langar venjulega til að gera án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að a) enginn borðar öll ósköpin eða b) ég og Elmar borðum allt klabbið og hættum að passa í fötin okkar.
Ég fékk óvænt frí í vinnunni í dag. Ég sá fyrir mér að ég gæti legið úti á svölum, borðað frostpinna og drukkið í mig sólargeislana. En í dag er skýjað. Og rigningarlegt. Og frekar kalt. Þannig að ég ákvað að gera það næstbesta – baka. Og þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég ætti að búa í litlum bæ. Því í staðinn fyrir að baka lítinn skammt af smákökum eða brauði þá bakaði ég svona 60 stykki af smákökum og álíka mikið af kanilsnúðum. Ég er nokkuð viss um að Elmar eigi eftir að koma heim á eftir og gera stólpagrín að mér, enda segir hann að það mætti halda að ég sé að reka fimm manna heimili miðað við matar- og kökuskammtana sem koma úr eldhúsinu.
Ég var búin að einsetja mér að baka bara kanilsnúða en þegar ég fór að skoða uppskriftir á netinu þá rakst ég á þessa girnilegu smákökuuppskrift og ég stóðst hreinilega ekki mátið. Ég breytti henni aðeins, sleppti hnetunum (því þær kostuðu offjár úti í búð) og jók aðeins magnið af höfrum í staðinn. Þegar fyrsta platan kom út úr ofninum þá stóð ég við eldhúsvaskinn, þambaði mjólk og hámaði í mig nokkrar heitar smákökur. Kökurnar eru stökkar á hliðunum og mjúkar að innan, hafrarnir gefa þeim svolítið bit og súkkulaðið gerir gæfumuninn, sérstaklega þegar kökurnar eru enn heitar og súkkulaðið er bráðið.
Smákökur með höfrum og súkkulaðibitum
(Frá Epicurious)
- 100 g smjör, við stofuhita
- 150 g sykur
- 200 g púðursykur
- 1 tsk salt
- 1 tsk vanilludropar
- 2 stór egg
- 220 g hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk kanill
- 1/4 tsk múskat
- 1/8 tsk negull
- 120 g hafrar
- 340 g súkkulaðibitar
Hitið ofninn í 180°C. Takið fram ofnskúffu og leggið bökunarpappír ofan á. Setjið til hliðar.
Setjið smjörið í skál og vinnið með hrærivél (eða handþeytara) þar til smjörið verður mjúkt og létt. Bætið sykrinum, saltinu og vanillunni saman við og hrærið í ca. 3 mínútur. Bætið eggjunum saman við og hrærið vel eftir hvert egg.
Blandið saman hveitinu, kryddinu og matarsódanum í annarri skál. Bætið síðan helmingnum af hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið rólega saman. Þegar hveitið hefur blandast vel bætið seinni helmingnum saman við og hrærið rólega saman.
Hrærið höfrunum og súkkulaðinu saman við.
Búið til kúlur úr ca. matskeið af deigi og leggið á ofnplötuna með dágóðu millibili. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til kökurnar verða gylltar á litinn.
Kælið smákökurnar á grind og geymið í loftþéttum umbúðum.
Hólý sjitt! Þetta lýtur vel út.
Oh Nanna, ég vildi að ég væri granni þinn í þessu litla þorpi ..!
Dásamlegar þessar, síðasta platan er í ofninum. Takk, þú ert snillingur! :)
Frábært! Og takk! Og verði þér að góðu!
Bakaði og þetta eru þær albestu sem ég hef bakað. Kærar þakkir :-)
kv,
Ari
En gaman að heyra! :)