Skýjað límonaði
Sumir dagar eru betri en aðrir. Ekki aðeins líður mér eins og fósturland mitt hafi sturlast í einhverri sæluvímu yfir dauða ákveðins hryðjuverkamanns heldur finnst mér ég einhvern veginn ekki ganga í takt við heiminn. Það er eins og ég þurfi að endurstilla sjálfa mig og finna nýja sveiflu. Og þess vegna er sumarið einstaklega hjálplegur tími, því hver getur verið dapur í lengri tíma þegar sólin skín og léttir kjólar hafa verið þvegnir og hengdir upp í skáp?
Það er því við hæfi, að ég held, að birta uppskrift að límonaði. Drykkur sem er súr en sætur á sama tíma og fylgir óumræðilega vaxandi sól og hita. Ég er auðvitað alveg sjúk í sítrónur og fæ ósjálfrátt áhuga á öllum uppskriftum sem nota þær, þá sérstaklega þegar heilar sítrónur eru notaðar. Þegar ég sá að Nígella á uppskrift að límonaði sem notar heilar sítrónur og sódavatn þá varð ég strax heilluð. Ég vil árétta að magn sykurs í uppskriftinni er aðeins viðmið. Mér finnst límonaðið mitt best súrt en best er að smakka sig áfram og finna það sætumagn sem hentar manni sjálfum. Auðvitað má svo gera sér dagamun og sulla smá áfengi af eigin vali saman við.
Skýjað límonaði
(Nigella Lawson: Nigella Express)
- 1 lítri sódavatn
- 2 heilar sítrónur, skornar í átta báta
- 60 g fínkorna sykur, eða eftir smekk
- Ísmolar
Hlakka svo mikið til að koma!!! En þegar al qaida eru búin að hóta árás þá verður maður pínu stressaður að fara til NYC.
Piff. Við erum hvort eð er ekkert að fara að flækjast niður á saurabælið Times Square. Lítið að óttast á UWS krúsin mín.
Þú ert snillingur elsku Nannan mín! Við fiffum svona límonaði til að sötra í garðinum mínum í sumar og sullum kannski smá gindropa ofan í ;-)
Takk Ingan mín! Mikið hlakka ég til að koma inn á ykkar hlýja heimili í júní í drykk og spjall. Það er orðið alveg afskaplega nauðsynlegt.
Ótrúleg einfalt að búa þetta til oog mjög ljúffengt :) Á eftir að gera þetta oftar, rann ljúflega ofan í saumaklúbbinn minn núna áðan