Steikarsamlokur & franskar kartöflur
Það er ekki oft sem ég elda kjöt. Kjöt úti í Bandaríkjunum er ágætlega dýrt fyrir fátæka námsmenn eins og okkur. Reyndar er hægt að fá ódýrt kjöt þar en mér hefur aldrei fundist það girnilegt – mjög feitt hormónakjöt af nautgripum sem hafa aldrei fengið að smakka gras og lifa við vægast sagt ógeðfelldar og afar mengandi aðstæður. Ekki aðeins finnst mér erfitt siðferðislega að styrkja þann iðnað heldur er kjötið engan veginn eins gott. Og á meðan ég get keypt ódýrt, bragðmikið og fallegt grænmeti fyrir sama verð þá lýtur kjöt í lægra haldi.
Það er því alltaf gaman að koma til Íslands og fá kjöt reglulega í matinn. Enda er grænmetið hérna skammarlega lélegt og oft ógirnilegt. Hvað er eiginlega málið með plöstuðu paprikurnar? Og innpökkuðu kryddjurtirnar frá Ísrael? Einhvern veginn efa ég að þetta sé nauðsynlegt.
Ég átti nautakjötsbita afgangs frá hrísgrjónaréttinum góða og ákvað að búa til steikarsamloku fyrir okkur. Mér fannst samt eiginlega alveg nauðsynlegt að vera með franskar með samlokunni en hryllti við stóru djúpfrystu pokunum í búðinni. Ég ákvað því að búa til mínar eigin. Það var reyndar ágætlega tímafrekt ferli. Ég fann ekki rétta hnífinn á mandólínið hans pabba þannig að við Embla skárum kartöflurnar niður í lengjur, lögðum þær í bleyti, þerruðum og bökuðum inn í ofni. Og franskarnar eru rosalega góðar! Það er líka hægt að leika sér með þær. Það má rífa parmesanost yfir þær áður en þær eru bornar fram, skreyta með fínsaxaðri steinselju, sáldra yfir þær hvítlaukssalti, úða yfir þær smá truffluolíu – möguleikarnir eru endalausir! Við borðuðum franskarnar bara beint úr ofninum með smá auka salti og dýfðum þeim ofan í tómatsósu. Stundum er einfaldleikinn bestur.
Steikarsamlokan var mjög einföld. Ég snöggsteikti kjötið og stakk því svo inn í ofn með frönskunum til að elda það aðeins meira. Ég bjó til sósu úr dijon sinnepi og sýrðum rjóma (ég fann uppskrift að sinnepsmajónesi en vildi ekki nota hana því það er mikil majónesfælni á þessum bæ), steikti sveppi og lauk og notaði klettasalat og súrar gúrkur til að setja á milli brauðsins. Ég keypti baguettebrauð en auðvitað er hægt að nota ciabatta, sveitabrauð eða í raun hvaða brauð sem til er við hendina (þó ég myndi seint mæla með þessu hefðbundna heimilisbrauði).
Franskar kartöflur
- 5 stórar kartöflur
- Ólívuolía
- Salt og pipar
Aðferð:
Skerið kartöflurnar niður í lengjur (best er að skera þær í tvennt langsum, skera svo niður í 1/2 sm breiðar sneiðar og sneiðarnar síðan í 1/2 sm breiða stauka). Setjið lengjurnar í stóra skál og fyllið af vatni, saltið síðan vatnið og leyfið að liggja í 30 mínútur. Þerrið kartöflurnar vel með eldhúspappír.
Leggið bökunarpappír á ofnplötu og setjið franskarnar á plötuna. (Ég þurfti reyndar að nota tvær ofnplötur svo hver kartafla fengi pláss til að þorna aðeins í ofninum, ég stillti ofninn á blástur til að dreifa hitanum jafnt og skipti svo um stað á plötunum í miðjum bakstri). Penslið kartöflurnar með ólívuolíu og sáldrið síðan salti og pipar yfir.
Bakið kartöflurnar í 45 mínútúr í 200°C heitum ofni.
Fyrir 4
- Franskt baguettebrauð
- Ólívuolía
- 100 – 200 g nautakjöt
- Salt og pipar
- Klettasalat
- Súrar gúrkur
- 1 laukur
- 100 g sveppir
- 20 g smjör
- Sinnepssósa (sjá uppskrift neðar)
Aðferð:
Skerið baguette brauðið í fjóra bita og skerið síðan hvern bita í tvennt langsum. Penslið ólívuolíu á alla helmingana.
Sáldrið salti og pipar yfir nautakjötið og steikið á pönnu þar til það hefur náð þeirri steikingu sem þið kjósið. Leyfið kjötinu að kólna aðeins áður en það er skorið niður. Skerið því næst bitann langsum niður í 8 bita.
Steikið laukinn og sveppina upp úr smjör þar til laukurinn hefur náð brúnum lit og sveppirnir hafa steikst alveg í gegn, ca. 10 – 15 mínútur.
Takið litla lúku af klettasalati og leggið á fjóra helminga. Smyrjið sinnepssósu yfir hina helmingana. Leggið kjötbitana yfir klettasalatið, setjið lauk og sveppi yfir, leggið gúrkuna ofan á og lokið með sinnepshelmingnum.
Fyrir 4
Sinnepssósa
- 2 msk sýrður rjómi
- 2 msk kornótt dijonsinnep
- 1 msk dijonsinnep
- 1 msk ólívuolía
- Salt og pipar
Aðferð:
Hrærið öllu vel saman og smakkið til með salti og pipar.
Þessar franskar voru fáránlega góðar!! Eitthvað sem ég mun búa til aftur í framtíðinni.
Girnó hjá þér! Líka rosa gott að rífa sítrónubörk yfir heimagerðar franskar! Og á svona steikarsamloku að steikja niðursneiddan rauðlauk þangað til hann verður glær og karamellisera hann með balsamediki :-D