Skip to content

Posts from the ‘Sósa’ Category

Hægelduð nautaskammrif í rauðvíni með piparrótarsósu

Eins frábært, yndislegt og notalegt það er að eyða jólunum tvö saman með fullt af góðum mat og víni þá erum við orðin ágætlega spennt yfir því að fljúga heim í vetrarríkið og fagna áramótunum í góðum hópi fólks á Akureyri. Allir vinir okkar flúðu borgina yfir hátíðirnar og New York er því eilítið einmanaleg. Og fyrir utan allt stórskemmtilega og hressa fólkið sem við fáum að hitta á farsældar fróni þá mun ég njóta þess að fara í sund, komast í almennilega sturtu, fara í fjallgöngu, horfa á norðurljósin, sitja ein á einhverri hæð úti í víðáttunni og njóta kyrrðarinnar, laus við allt borgaráreiti.

Ég má til með að deila með ykkur jólamatnum okkar á Sterling Place þó að myndirnar séu ekki upp á sitt besta. Þessi réttur krafðist einhverrar fyrirhafnar og ég hafði vægar áhyggjur af því að ég myndi einhvern veginn ná að klúðra honum (eins og gerist oft þegar ég er búin að einsetja mér að maturinn eigi að vera ekkert minna en stórkostlegur). Við elduðum í sameiningu, Elmar steikti kjötið og sá um mestalla eldamennskuna á meðan ég tók myndir og las upp úr matreiðslubókinni. Eftir á að hyggja hefði ég ekki átt að hafa svona miklar áhyggjur, rétturinn er í raun ekkert svo flókinn og hægeldað kjöt hefur aldrei klikkað hjá okkur.

Skammrifin (e. short ribs) urðu meyr og safarík eftir alla eldunina, sósan var margslungin og bragðrík og piparrótarsósan gaf manni smá hita og ferskleika. Við bárum kjötið fram með mauki úr starahnýði (e. jerusalem artichoke) og klettasalati með geitaosti og tómötum. Þetta var sannkallaður hátíðarmatur og ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að matreiða þennan rétt aftur.

SJÁ UPPSKRIFT

Haustleg kjúklingakássa með sveppum í síder

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér þungan steypujárnspott sem þolir bæði eldavélina og ofninn. Ég er komin með algjört æði fyrir pottréttum sem byrja á steikingu á eldavélinni og fara svo inn í ofn í örfáa klukkutíma. Kjötréttir sem eldaðir eru þannig skila unaðslega meyru kjöti og rótargrænmetið sem fær að malla með verður mjúkt og bragðmikið. Og þó að það taki langan tíma að elda þessa rétti þá krefjast þeir lítillar fyrirhafnar. Þeir passa vel við þetta kalda veður og veita manni hlýja vellíðunartilfinningu.

Við erum einstaklega ánægð með hvernig rættist úr þessum rétti. Ég keypti heilan kjúkling hjá slátraranum og fékk leiðbeiningar um hvernig best væri að búta hann niður. Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að skera kjúklinginn niður sjálf og yfirleitt er hægt að spara sér ágætis pening með því að gera það sjálf frekar en að kaupa kjúklingabita í bakka. Kjötið varð svo meyrt í þessum rétti að það rann af beinunum, rjómasósan var alls ekki of þung og við mælum með því að bera réttinn fram með smjörsteiktum kartöflum.

SJÁ UPPSKRIFT

Bananapönnukökur með bláberjahlynsírópi


Ég er mjög þakklát fyrir hrekkjavökuhátíðina í Bandaríkjunum. Ég hef reyndar ekkert gaman af því að klæða mig í búning, hvað þá að finna einhverja snilldarhugmynd til að útfæra og reyni því að hafa mig hæga á meðan fólk hleypur um í ótrúlegustu múnderingum. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég finn lítinn innblástur í búningaverslunum. Vil ég vera sexí hjúkka, sexí nunna, sexí pandabjörn (já, það er til) eða sexí vatnsmelóna (já! líka til)? Nei, takk. En ég er þakklát vegna þess að þetta hægir aðeins á jólamaníunni hérna úti og það er aldrei fyrr en eftir hrekkjavöku sem jóladótið tekur yfir.

Ekki að ég hafi neitt út á jólin að setja. Ég er forfallið jólabarn og það er fátt sem mér finnst eins skemmtilegt og að halda upp á jólin. Ég er á því að jólin þurfi ekki að vera rándýrt fyrirbæri með útgjaldamiklu gjafastandi. Heimatilbúnar gjafir eru oft stórskemmtilegar, persónulegar og mun ódýrari en aðkeyptar gjafir. Ég ætla þess vegna að koma með eina gjafahugmynd í viku fram að jólum og ef ég kann ennþá að reikna þá gerir það sjö tillögur allt í allt! Þetta mun allt passa ofan í ódýrar glerkrukkur, dósir eða pappakassa og verður eitthvað aðeins frumlegra en smákökur í dollu (þó ég sé mjög hrifin af slíkum gjöfum). Þetta verða misflóknar uppskriftir en vonandi gefur þetta ykkur einhverjar skemmtilegar hugmyndir. Og ætli ég fari ekki að vera tilbúin að bjóða jólin velkomin, þetta var útsýnið úr glugganum okkar síðustu helgi:

Pönnukökuæðið mitt hefur engin takmörk. Ég vil pönnukökur alla morgna og þá helst nýja útgáfu í hvert skipti. En þar sem móðir mín náði að kenna mér smá stillingu í æsku þá held ég aftur af mér (með herkjum) og steiki bara pönnukökur einu sinni í viku. Í þetta sinn töfruðum við fram bananapönnukökur og suðum saman frosin bláber og hlynsíróp. Sósan er algjör snilld og passar örugglega vel við flestar tegundir af amerískum pönnsum. Bananapönnukökurnar eru mjög bragðgóðar og saðsamar en ég myndi minnka aðeins sykurmagnið næst þegar ég geri þær. Ég vil frekar hafa pönnukökurnar minna sætar svo ég geti sleppt mér algjörlega í sírópsæðinu. Kannist þið við þetta?

SJÁ UPPSKRIFT

Steikarsamlokur & franskar kartöflur

Það er ekki oft sem ég elda kjöt. Kjöt úti í Bandaríkjunum er ágætlega dýrt fyrir fátæka námsmenn eins og okkur. Reyndar er hægt að fá ódýrt kjöt þar en mér hefur aldrei fundist það girnilegt – mjög feitt hormónakjöt af nautgripum sem hafa aldrei fengið að smakka gras og lifa við vægast sagt ógeðfelldar og afar mengandi aðstæður. Ekki aðeins finnst mér erfitt siðferðislega að styrkja þann iðnað heldur er kjötið engan veginn eins gott. Og á meðan ég get keypt ódýrt, bragðmikið og fallegt grænmeti fyrir sama verð þá lýtur kjöt í lægra haldi.

Það er því alltaf gaman að koma til Íslands og fá kjöt reglulega í matinn. Enda er grænmetið hérna skammarlega lélegt og oft ógirnilegt. Hvað er eiginlega málið með plöstuðu paprikurnar? Og innpökkuðu kryddjurtirnar frá Ísrael? Einhvern veginn efa ég að þetta sé nauðsynlegt.

Ég átti nautakjötsbita afgangs frá hrísgrjónaréttinum góða og ákvað að búa til steikarsamloku fyrir okkur. Mér fannst samt eiginlega alveg nauðsynlegt að vera með franskar með samlokunni en hryllti við stóru djúpfrystu pokunum í búðinni. Ég ákvað því að búa til mínar eigin. Það var reyndar ágætlega tímafrekt ferli. Ég fann ekki rétta hnífinn á mandólínið hans pabba þannig að við Embla skárum kartöflurnar niður í lengjur, lögðum þær í bleyti, þerruðum og bökuðum inn í ofni. Og franskarnar eru rosalega góðar! Það er líka hægt að leika sér með þær. Það má rífa parmesanost yfir þær áður en þær eru bornar fram, skreyta með fínsaxaðri steinselju, sáldra yfir þær hvítlaukssalti, úða yfir þær smá truffluolíu – möguleikarnir eru endalausir! Við borðuðum franskarnar bara beint úr ofninum með smá auka salti og dýfðum þeim ofan í tómatsósu. Stundum er einfaldleikinn bestur.

Steikarsamlokan var mjög einföld. Ég snöggsteikti kjötið og stakk því svo inn í ofn með frönskunum til að elda það aðeins meira. Ég bjó til sósu úr dijon sinnepi og sýrðum rjóma (ég fann uppskrift að sinnepsmajónesi en vildi ekki nota hana því það er mikil majónesfælni á þessum bæ), steikti sveppi og lauk og notaði klettasalat og súrar gúrkur til að setja á milli brauðsins. Ég keypti baguettebrauð en auðvitað er hægt að nota ciabatta, sveitabrauð eða í raun hvaða brauð sem til er við hendina (þó ég myndi seint mæla með þessu hefðbundna heimilisbrauði).

SJÁ UPPSKRIFTIR

%d bloggurum líkar þetta: