Skip to content

Ofnbakaðar perur með vanillu

Ég er búin að vera dugleg að fylla í baksturs- og eftirréttaflokkinn hérna síðustu vikur. Kannski er það vegna þess að ég er farin að missa trúna á að veturinn sleppi taki sínu og ég þurfi því ekki að hafa áhyggjur af því að passa í sumarkjólana mína. Ég stóð sjálfa mig að því að reyna að sannfæra sjálfa mig, þegar ég fékk mér í þriðja sinn á diskinn, að þessi réttur væri í rauninni ekki svo óhollur. En svo mundi ég að ég var búin að drekkja honum í sykri og smjöri. En hverjum er ekki sama? Ávextir eru góðir, sykur er góður og smjör er (alltof) gott. Og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá trúi ég því að við lifum bara einu sinni (eða höfum a.m.k. ekki tryggingu fyrir öðru) og ég ætla hreinlega ekki að eyða ævinni í að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu, og þá sérstaklega þegar um er að ræða eftirmat á föstudagskvöldi.

Ég fór á bóndamarkaðinn í dag og keypti þessar dýrindis perur. Ég vissi að ég væri að fara að ofnbaka þær þannig að ég passaði að velja þeir hörðustu – þær eru langbestar þannig. Ég átti vanillustöng frá því um jólin en annars hefði ég líklega reynt að breyta þessari uppskrift því vanillustangir eru alveg fokdýrar(!). Það er auðvitað lítið mál að sleppa vanillunni, karamellan sem myndast við að ofnbaka smjör og sykur þarf ekki nauðsynlega á henni að halda.

Þessi réttur er guðdómlegur. Sjálf elska ég ávexti, karamellu og vanilluís þannig að þetta er ekkert sérstaklega flókið dæmi. En þetta er líka svo góð tilbreyting frá þungum súkkulaðiríkum eftirréttum sem venjulega fylgja álíka þungri máltíð á þessum tíma árs. Þetta er líka góð leið til að matreiða ávextina (því þetta þarf auðvitað ekki að einskorðast við perur) sem fást í matvörubúðunum heima á Íslandi. Þið vitið, þessa hörðu og óþroskuðu sem virðast aldrei ná að bragðast vel.

Ofnbakaðar perur með vanillu

(Uppskrift frá smitten kitchen, með smá breytingum)

 • 50 g sykur
 • 1/2 vanillustöng
 • 600 g meðalstórar perur, harðar, skornar í helminga og kjarnhreinsaðar
 • 2 msk sítrónusafi
 • 2 msk vatn
 • 50 g smjör, skorið í litla bita

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Setjið sykurinn í litla skál. Skerið vanillustöngina langsum í tvennt með beittum hníf og skrapið fræin úr belgnum. Blandið fræjunum saman við sykurinn.

Setjið perurnar í eldfast mót og snúið sléttu hliðinni upp. Hellið sítrónusafanum jafnt yfir og sáldrið sykrinum því næst yfir perurnar. Skerið vanillubelginn aftur í tvennt á lengdina og leggið yfir perurnar. Hellið vatninu í mótið. Setjið lítinn bita af smjöri á hvern peruhelming.

Bakið perurnar í 30 mínútur og ausið (eða burstið) safanum sem safnast neðst í mótið yfir perurnar af og til. Takið perurnar úr ofninum, snúið þeim við og bakið í ca. 20 til 30 mínútur til viðbótar og haldið áfram að ausa safanum yfir þær af og til. Perurnar eru tilbúnar þegar hnífur gengur auðveldlega í gegnum þykkasta hluta perunnar. Athugið að bökunartími miðast við stærð, ef perurnar eru smár þá þurfa þær örugglega ekki nema 35 mínútur í ofninum.

Takið perurnar úr mótinu, hellið safanum sem hefur safnast á botninn yfir þær og berið fram með vanilluís.

Fyrir 4

3 athugasemdir Post a comment
 1. Guðbjört #

  Þetta er alveg rosalegt Nanna, vá. Með vatn í munninum eftir að lesa þetta. Þetta lítur líka ótrúlega vel út, nammi, nammi, namm. Spá í að reyna að fá Árna til að prófa þennan rétt, hí hí.

  12/02/2011
 2. Embla #

  Vá. Þetta er eftirréttur fyrir sælkera af bestu gerð!!

  13/02/2011

Trackbacks & Pingbacks

 1. Gúrmeti úr Vesturheimi | leeeeuk

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: