Affogato með karamellugljáðum heslihnetum
Nú er árið senn á enda og ég trúi því vart hvað það hefur liðið ótrúlega hratt. En áður en við fikrum okkur yfir á nýtt ár og nýja tíma þá langaði mig til að deila með ykkur jólaeftirréttinum hjá okkur þetta árið. Mig langaði til að hafa eitthvað létt og einfalt þar sem aðalrétturinn hjá okkur var bæði þungur og afskaplega fyrirhafnarmikill. Við höfum lengi ætlað okkur að búa til þennan ítalska eftirrétt eftir að hafa fengið hann með sykruðum möndlum á veitingastað hérna í hverfinu. Ég ákvað að búa til karamellugljáðar heslihnetur til að gefa réttinum smá bit og karakter. Þetta var fullkominn eftirréttur eftir allt þunga kjötið. Við mælum því með honum ef þið eruð ekki búin að ákveða hvað þið ætlið að bjóða upp á á gamlárskvöld – kaffið er örugglega sérstaklega hentugt fyrir þá sem vilja halda sér glaðvakandi fram yfir miðnætti.