Skip to content

Posts from the ‘Eftirréttur’ Category

Affogato með karamellugljáðum heslihnetum

Nú er árið senn á enda og ég trúi því vart hvað það hefur liðið ótrúlega hratt. En áður en við fikrum okkur yfir á nýtt ár og nýja tíma þá langaði mig til að deila með ykkur jólaeftirréttinum hjá okkur þetta árið. Mig langaði til að hafa eitthvað  létt og einfalt þar sem aðalrétturinn hjá okkur var bæði þungur og afskaplega fyrirhafnarmikill. Við höfum lengi ætlað okkur að búa til þennan ítalska eftirrétt eftir að hafa fengið hann með sykruðum möndlum á veitingastað hérna í hverfinu. Ég ákvað að búa til karamellugljáðar heslihnetur til að gefa réttinum smá bit og karakter. Þetta var fullkominn eftirréttur eftir allt þunga kjötið. Við mælum því með honum ef þið eruð ekki búin að ákveða hvað þið ætlið að bjóða upp á á gamlárskvöld – kaffið er örugglega sérstaklega hentugt fyrir þá sem vilja halda sér glaðvakandi fram yfir miðnætti.

SJÁ UPPSKRIFT

Klassískt tíramísú

Það eru liðin fjögur ár frá því að ég eyddi síðast hausti á Íslandi. Það er því langt síðan ég hef stolist í lopapeysur og þykka sokka í septembermánuði. En ,ástandið’ gerir mig þakkláta fyrir kulið í loftinu enda er ég orðin ansi ólétt á að líta og heitfeng eftir því. Nú styttist samt óðum í að ég fari að hætta að labba um eins og mörgæs í þrautakóng, geti sofið á maganum aftur og tekið út 9 mánaða sushiskammt á sem skemmstum tíma. Ég er spennt og afar óþreyjufull.

Ég held áfram að stelast í afrakstur annarra til að halda blogginu gangandi enda fer ekki mikið fyrir mér í eldhúsinu þessa dagana. Við erum búin að troða okkur inn á foreldra mína og systur í þessu fæðingarstússi og þar sem þau eru öll hvert öðru hæfileikaríkara á matreiðslusviðinu þá ,leyfi’ ég þeim að sjá að mestu leyti um eldhússtörfin. Mamma bjó til tíramísúið sitt um daginn og ég finn mig knúna til að deila uppskriftinni hennar með ykkur. Þetta er tíramísu upp á sitt allra besta með nóg af mascarpone og sterku kaffi.

SJÁ UPPSKRIFT

Baka með mascarpone og ferskum bláberjum

Ég held áfram að setja inn uppskriftir sem nýta bláber enda eru til fleiri lítrar af þessu góðgæti á heimilinu. Og þótt mér finnist bláberin best eintóm með dágóðri slettu af íslenskum rjóma þá væri algjör synd að sleppa því að prófa sig áfram með þetta fallega hráefni. Í mínum huga kallar fallegt hráefni á fallegan eftirrétt. Ég snaraði mér því í Pipar og salt á Klapparstíg og keypti franskt bökuform með fjarlægjanlegum botni. Frönsk bökuform gera bökur einhvern veginn tilkomumeiri og láta réttinn líta út fyrir að vera mun fyrirhafnarmeiri en hann er í raun og veru. Skelin sem ég bjó til er afar einföld, fyllingin er blanda af mascarpone og rjóma með smá flórsykri og svo er ferskum nýtíndum berjum (í þessu tilfelli aðalbláberjum) stráð yfir. Svo fallegt og svo ljúffengt!

Í tilefni þess að þetta er eitt besta berjasumar í langan tíma þá langar mig til að benda ykkur á nokkrar uppskriftir sem ég hef sett hér inn áður sem nota bláber.

Lambalæri Hörpu – læri sem látið er marinerast í íslenskum fjallakryddjurtum, lyngi og berjum. Algjört lostæti og einstaklega viðeigandi síðsumarsréttur.

Bláberjamöffins – ég held að ég geti lofað ykkur að þetta sé hin fullkomna uppskrift að bláberjamöffins.

Ferskju- og bláberjabaka – ég hef séð ferskjur til sölu í búðum á Akureyri og í Reykjavík og þessi baka er uppáhaldsbakan mín.

Sítrónu- og ricottapönnukökur með bláberjasósu – fyrir þá sem elska bröns.

Rabarbara- og bláberjahröngl – þessi uppskrift er í uppáhaldi hjá mömmu minni og er bökuð reglulega á sumrin og haustin.

SJÁ UPPSKRIFT

Panna cotta með bláberjasósu

Sumarið er við það að renna sitt skeið og ég eiginlega skammast mín niður í tær þegar ég sé hversu ódugleg ég hef verið við að skrifa og setja inn uppskriftir. Á móti kemur er að ég hef haft það alveg einstaklega gott í Eyjafirðinum og Aðaldalnum síðasta mánuðinn. Við höfum borðað heil ógrynni af kjöti og fiski, farið í mýmargar sundferðir, lesið bækur og síðustu helgi tíndum við nokkra lítra af bláberjum við sumarbústað tengdaforeldra minna. Veðrið hefur heldur ekki spillt fyrir góðum stundum en ég man bara ekki eftir eins þurru og sólríku sumri fyrir norðan.

Tengdapabbi kom heim af veitingahúsi eitt kvöldið fyrir skömmu og hafði fengið að smakka panna cotta í fyrsta skiptið. Við ákváðum fljótlega eftir það að búa til slíkan eftirrétt í sameiningu í næstu bústaðarferð. Panna cotta er ítalskur eftirréttur, nafnið þýðir einfaldlega ,eldaður rjómi’ og á upptök sín í Piedmont héraðinu á norður Ítalíu. Við suðum saman rjóma, nýmjólk, sítrónu og vanillu og bættum síðan matarlími saman við. Búðingurinn er svo látinn kólna í formum og á þeim tíma þéttist hann allverulega. Það er því gott að búa réttinn til vel fyrir tímann svo hann fái góðan tíma til að þykkna. Við bárum hann fram með bláberjasósu úr bláberjauppskerunni okkar en það má bera hann fram með hvaða sætri sósu sem er (t.d. karamellusósu, súkkulaðisósu) eða bara með ferskum berjum.

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk súkkulaðibaka með ferskum berjum

Systir mín elskuleg kemur í heimsókn til okkar á morgun og verður alveg í heila viku. Ég á erfitt með að beisla spenninginn og hlakka alveg óendanlega mikið til að sýna henni hverfið okkar og Brooklyn. Þetta er í þriðja skiptið sem hún kemur í heimsókn til okkar en hún hefur alltaf verið einstaklega óheppin með veður. En núna loksins virðist veðurspáin ætla að vera okkur hliðholl með tilheyrandi sól, blíðu og hita. Ég sé fram á góða letilega daga í garðinum og skemmtileg kvöld í bjór- og víngörðum Brooklyn (þar sem ég verð auðvitað með sódavatn í hönd eins og þægri óléttri konu sæmir).

Ég bjó til þennan fallega eftirrétt þegar við fengum til okkar góða gesti í mat. Þessi baka er svolítið tímafrek í ferli en er þó mjög einföld og erfitt að klúðra henni. Skelin er búin til með góðum fyrirvara og þarf tíma til að kólna alveg áður en henni er stungið inn í ofn. Kremið er fljótlagað og svo þarf bara að skera  niður fersk ber og dreifa yfir toppinn. Bakan er ofboðslega ljúffeng og er sérstaklega heppileg fyrir þá sem fá ekki nóg af dökku súkkulaði. Ég bjó hana til um morguninn og geymdi inni í ísskáp þar til ég bar hana fram fyrir gesti um kvöldið og var fegin því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tímasetja eftirréttinn þannig að hann færi beint úr ofni á borð. Það er samt mælt með að bakan sé borin fram samdægurs en hún heldur sér ágætlega inni í kæli í 2 til 3 daga.

SJÁ UPPSKRIFT

Jarðarberjasorbet

Á meðan lóan og spóinn eru óumdeilanlegir vorboðar heima á Íslandi þá er fátt sem gefur eins sterklega til kynna að vorið sé loksins komið hérna úti eins og rabarbarinn, aspasinn og jarðarberin á bændamarkaðnum. Í byrjun birtast þau á markaðnum í takmörkuðu upplagi og einungis þeir árrisulustu fara heim með poka af þessu góðgæti. Ég hef ekki verið ein af þessum heppnu undanfarnar helgar enda er ég vakandi hálfu og heilu næturnar sökum lítilla kröftugra fóta sem sparka í mig innan frá og áður en ég veit af er klukkan orðin alltof margt og ég er ennþá dottandi undir sæng.

Ég get því ekki sagt að þessi ótrúlega ljúffengi sorbet hafi verið búinn til úr lífrænt ræktuðum, nýuppteknum jarðarberjagersemum. Við fórum í búðina um daginn og ég fyllti heilan poka af ávöxtum í tilraun til að sefa sætuáráttu mína. Ég greip tvo bakka af jarðarberjum á útsölu en þegar heim var komið sá ég að þau myndu varla endast mjög lengi, svo þroskuð voru þau.

Ég starði á þau í svolitla stund og velti fyrir mér möguleikunum. Ætti ég að baka? Búa til eitthvert svakalegt jarðarberjasalat? Sjóða síróp? En þá minntist ég uppskriftar fyrir sorbet sem ég hafði séð hjá Smitten Kitchen (er nokkuð orðið of augljóst að ég er farin að eyða heilu og hálfu dögunum í að lesa gamlar færslur frá henni?). Ég hafði merkt við uppskriftina en ákveðið að salta hana þar sem ég sá ekki fram á að eiga heilt kíló af ódýrum jarðarberjum í bráð. Og krakkar, þessi sorbet er unaður. Hann minnir mig svolítið á óáfenga margarítu nema í ísformi og ég hef lúmskan grun um að ef þið setjið nokkrar skeiðar af þessum sorbet, nokkra klaka, slurk af tekíla og smá ferskan límónusafa í blandara að þið fáið hreint magnaða jarðarberjamargarítu. Ég væri allaveganna að brasa við það akkúrat núna ef ég væri ekki svona ábyrgðarfull og samviskusöm ófrísk kona.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: