Skip to content

Frönsk súkkulaðibaka með ferskum berjum

Systir mín elskuleg kemur í heimsókn til okkar á morgun og verður alveg í heila viku. Ég á erfitt með að beisla spenninginn og hlakka alveg óendanlega mikið til að sýna henni hverfið okkar og Brooklyn. Þetta er í þriðja skiptið sem hún kemur í heimsókn til okkar en hún hefur alltaf verið einstaklega óheppin með veður. En núna loksins virðist veðurspáin ætla að vera okkur hliðholl með tilheyrandi sól, blíðu og hita. Ég sé fram á góða letilega daga í garðinum og skemmtileg kvöld í bjór- og víngörðum Brooklyn (þar sem ég verð auðvitað með sódavatn í hönd eins og þægri óléttri konu sæmir).

Ég bjó til þennan fallega eftirrétt þegar við fengum til okkar góða gesti í mat. Þessi baka er svolítið tímafrek í ferli en er þó mjög einföld og erfitt að klúðra henni. Skelin er búin til með góðum fyrirvara og þarf tíma til að kólna alveg áður en henni er stungið inn í ofn. Kremið er fljótlagað og svo þarf bara að skera  niður fersk ber og dreifa yfir toppinn. Bakan er ofboðslega ljúffeng og er sérstaklega heppileg fyrir þá sem fá ekki nóg af dökku súkkulaði. Ég bjó hana til um morguninn og geymdi inni í ísskáp þar til ég bar hana fram fyrir gesti um kvöldið og var fegin því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að tímasetja eftirréttinn þannig að hann færi beint úr ofni á borð. Það er samt mælt með að bakan sé borin fram samdægurs en hún heldur sér ágætlega inni í kæli í 2 til 3 daga.

Frönsk súkkulaðibaka með ferskum berjum

(Breytt uppskrift frá Joy Wilson: The Joy the Baker Cookbook)

Skel:

  • 190 g hveiti
  • 60 g flórsykur
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk kanill
  • 115 g smjör, kalt og skorið í 2 sm teninga
  • 1 eggjarauða, hrærð

Súkkulaðikrem:

  • 240 g dökkt súkkulaði, saxað
  • 3 dl  rjómi
  • 55 g smjör, við stofuhita, skorið í bita

Ofanálag:

  • 2.3 dl [1 bolli] rjómi
  • 2 msk flórsykur
  • 3.5 dl fersk ber

Aðferð:

Byrjið á að búa til skelina:  Takið fram stóra skál og blandið saman hveiti, sykri, salti og kanil. Setjið smjörið út í skálina og nuddið því inn í hveitiblönduna með hreinum fingrum. Smjörbitarnir verða ýmist á stærð við litla steina en aðrir munu svipa til haframjöls. Bætið eggjarauðinni saman við og blandið því saman við deigið með gaffli. Deigið verður laust í sér. Takið fram bökuform með fjarlægjanlegum botni. Setjið deigið í formið og þrýstið því niður í botninn og meðfram hliðunum.

Setjið skelina í frystinn í einn klukkutíma (ekki gleyma þessu skrefi annars mun skelina lyfta sér of mikið í ofninum).

Búið til súkkulaðikremið (á meðan skelin er í frystinum):  Setjið súkkulaðibitana í meðalstóra hitaþolna skál.

Takið fram lítinn pott, hellið rjómanum út í og setjið yfir meðalháan hita. Náið upp mjög hægri suðu. Hellið helmingnum af hitaða rjómanum yfir súkkulaðibitana og leyfið að liggja saman í eina mínútur. Súkkulaðið mun byrja að bráðna. Notið písk og byrjið að blanda saman rjómanum og súkkulaðinu. Bætið restinni af rjómanum við smám saman og hrærið varlega með písknum þar til blandan verður kekkjalaus. Bætið smjörbitunum saman við og notið sleikju til að hræra því saman við þar til það er alveg bráðnað. Blandan ætti að vera dökk og gljáandi. Setjið til hliðar, við stofuhita á meðan skelin bakast.

Setjið ofngrindina í efsta þriðjung ofnsins og hitið ofninn í 180°C/350°F .*

Smyrjið álfilmubút með smjöri eða olíu og setjið, smurðu hliðina niður, ofan á kældu skelina. Bakið í 20 mínútur. Takið álfilmuna af og bakið í aðrar 15 mínútur. Eða þar til skelin er gyllt á litinn. Leyfið að kólna alveg áður en hún er fyllt með smjörkreminu.

Fjarlægið skelina varlega frá bökuforminu þegar skelin hefur náð stofuhita. Hliðarnar á deiginu ættu að hafa hrokkið frá börmum formsins. Fyllið hana af súkkulaðikreminu og smyrjið því jafnt yfir. Þeytið saman rjóma og flórsykur. Stráið berjum yfir súkkulaðikremið og setjið rjómann í miðju kökunnar eða berið rjómann fram til hliðar.

[*Ég nota ekki blástursofn.]

Prenta uppskrift

6 athugasemdir Post a comment
  1. Sóla #

    Úúúúú…vá! Dásamlegt alla daga, mín kæra.
    xx

    15/05/2012
  2. Þetta er svo fallegt og girnilegt hjá þér
    Kv Búkonan

    15/05/2012
  3. Anna #

    Mmm ég hlakka mikið til að prufa. Þessi verður sko gerð á morgun á Þjóðhátíðardegi Norðmanna :)

    16/05/2012
  4. Valborg #

    Takk fyrir mjög girnilega uppskrift! Er í miðju kafi að testa þetta, en er að hafa smá áhyggjur af smjörkreminu, það er búið að standa við stofuhita í ca 20 mín og er samt alveg fljótandi! Er það eðlilegt? :S

    17/05/2012
    • Sæl. Ég er kannski svolítið sein að svara þér en kremið hjá mér var seigfljótandi, s.s. það þykknaði töluvert eftir að ég bætti smjörbitunum saman við en var samt svolítið fljótandi. Ef þér finnst það leka út um allt þá má geyma bökuna inni í ísskáp og bera beint á borð þaðan. Kremið ætti að harðna og halda sér betur þannig.
      Vonandi gekk þetta samt allt vel!

      17/05/2012
      • Valborg #

        já ég bætti bara smá flórsykri útí og setti í ísskáp, var mjög góð! Takk fyrir fínt blogg :)

        18/05/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: