Skip to content

Auðveld rabarbarasulta

Takk kærlega fyrir góð viðbrögð við búsáhaldafærslunni um daginn! Ég hafði mjög gaman af því að lesa hvað er í uppáhaldi hjá ykkur og plotta þannig næstu áhaldakaup.

Ég held að ég geti núna (loksins!) lýst því yfir að sumarið er komið til New York. Við löbbuðum á bændamarkaðinn snemma í morgun í glaðasólskini og ég var ekki lengi að rífa mig úr peysunni og sjá eftir því að hafa dregið á mig gallabuxur áður en ég fór út. Markaðurinn var þéttpakkaður af fólki, jarðarberjum, aspasi og ýmsu góðgæti. Í hverri viku spretta líka upp fleiri sölustandar sem selja vín, kjöt, ávexti, blóm og fleira. Það er gott að búa í Brooklyn.

Ég kippti með mér tveimur rabarbarastilkum á leiðinni úr búðinni í dag án þess að vera búin að ákveða hvað ég vildi gera við þá. Þegar heim var komið uppgötvaði ég að við gleymdum að kaupa sultu í búðinni og þá voru örlög rabarbarans ráðinn. Ég studdist við uppskrift úr einni uppáhaldsmatreiðslubókinni minni, Jamie at Home, og klukkutíma seinna var ég komin með þessa dýrlegu og einföldu sultu sem má nota á brauð og vöfflur eða út í hafragrautinn og jógúrtið. Ég átti vanillubaun upp í skáp en það má nota vanillusykur í stað sykurs eða sleppa vanillunni alfarið.

[Uppfært: Sykurmagnið í uppskriftinni virðist kannski ekki mikið miðað við magn rabarbara en við Elmar erum sammála um að sultan er alls ekki of súr heldur fær rabarbarinn kannski að njóta sín betur þar sem sultan er ekki dísæt.]

Auðveld rabarbarasulta

(Breytt uppskrift frá Jamie Oliver: Jamie at Home)

 • 1 kg rabarbari
 • 200 g sykur
 • 1/2 – 1 vanillubaun (má sleppa)
 • safi úr 1 appelsínu

Aðferð:

Skerið rabarbarann niður í 2 sm langa bita og setjið í pott. Hellið sykrinum í pottinn. Skerið vanillubaunina í tvennt og skafið fræin úr, setjið fræin og belginn ofan í pottinn. Kreistið safa úr einni appelsínu yfir. Setjið yfir hita og náið upp suðu, hrærið aðeins í pottinum og leyfið að sjóða í 2 – 3 mínútur. Lækkið hitann og leyfið að malla í ca 30 – 40 mínútur. Hrærið af og til í pottinum, skafið með fram hliðunum og potið í rabarbarabitana til að leysa þá í sundur.

Fjarlægið vanillubelgina þegar sultan er orðin nægilega þykk.

Sjóðið krukkur í vatni í 10 mínútur til að sótthreinsa þær. Hellið rabarbarasultunni í krukkur og geymið inni í ísskáp. Sultan ætti að endast í ca. mánuð.

Prenta uppskrift

4 athugasemdir Post a comment
 1. Þóra frænka #

  Þetta er vel súrt!

  12/05/2012
  • Mér finnst hún reyndar góð svolítið súr (hún er samt alls ekki gretta-á-sér-andlitið-súr) en það má alltaf bæta við meiri sykri ef maður vill hafa hana sætari.

   12/05/2012
 2. Ég þarf nú ekki að segja þér að ég var að gera rabarbarasultu í síðustu viku…samstíga… : )

  Mér lýst vel á það að setja vanillustöng í pottin, ætla að prófa það næst.

  Mín var pínku súr og mér fannst nóg komið af sykri þannig að að ég skipti henni í tvo potta og sauð hana aðeins lengur með slatta af bláberjum í öðrum pottinum og döðlum í hinum. Þær komu báðar vel út.

  14/05/2012
  • Ég er mjög ánægð með hvernig vanillan blandast með rabarbaranum, ég held jafnvel að ég geti minnkað sykurinn aðeins meira þegar ég nota hana. Annars ætla ég að prófa að sjóða bláber með rabarbaranum næst eins og þú gerðir – mér finnst sú blanda svo ljúffeng!

   14/05/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: