Skip to content

Posts from the ‘Rabarbari’ Category

Rabarbaraskúffukaka

Ég næ alls ekki að blogga eins reglulega og mig langar þessa dagana. Við erum á reglulegum þeytingi á milli sveita hérna fyrir norðan og erum svo heppin að matar- og kaffiboð eru svo tíð að ég næ varla að melta á milli heimsókna. Við mættum líka í eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd en góðvinir okkar létu pússa sig saman á heitum sólríkum degi í Hrísey og buðu upp á alíslenskt bakkelsi, kaffi, kvöldmat og dansiball um kvöldið. Þetta fallega lag er búið að óma í hausnum á mér síðan.

Bakstur, eldamennska, bloggg, lærdómur og vinna hefur því verið í miklu undanhaldi síðustu daga og vikur.  Og þó að samviskubitspúkinn pikki í öxlina af og til þá má alltaf drekkja honum í fallegu sundlauginni í Þelamörk eða bursta hann af sér í sveitasælunni í Skíðadal.

Eftir langt hlé frá bakstri ákvað ég að kíkja í rabarbarabeðið hjá tengdamóður minni og búa til þessa léttu og sumarlegu köku. Kakan er mjög einföld og passar mátulega ofan í meðalstóra ofnskúffu. Það mætti því segja að þessi kaka sé tegund af skúffuköku. Ég hafði smá áhyggjur af því að botninn yrði alltof þunnur þar sem gert var ráð fyrir eilítið minna bökunarformi í upphaflegri uppskrift en það voru allir sammála um að kakan væri stórgóð með þessum þunna botni, rabarbaralagi og hrönglinu ofan á.

Rabarbarinn er látinn liggja í sykri og sítrussafa áður en honum er dreift yfir kökudeigið og það gerir það að verkum að hann heldur sínu sérkennilega súra bragði án þess að það valdi andlitsgrettum. Þið skulið samt hella safanum sem rabarbarinn liggur í yfir kökuna til að fá rétt bragð og sætumagn.

SJÁ UPPSKRIFT

Rabarbarasorbet

Þá er ég búin að kveðja systur mína eftir yndislega viku sem leið alltof hratt. Litla kotið virðist ansi tómlegt og það verður skrítið að detta aftur í daglega rútínu af lærdómi og skriftum. Við vorum mjög dugleg að labba um hin ýmsu hverfi Brooklyn, skoðuðum hinn fræga og víðáttumikla Greenwood grafreit, flatmöguðum í sólinni í Prospect Park og átum á okkur gat við hvert tækifæri. Þetta er fimmta ferð Emblu til New York en í fyrsta skiptið sem hún eyðir tíma utan Manhattan og hún var fljót að lýsa því yfir að þrátt fyrir mikla hrifningu á Manhattan þá væri Brooklyn mun skemmtilegri. Sem ég get tekið heilshugar undir.

Við vöknuðum snemma á laugardagsmorgninum, hengdum myndavélarnar um hálsinn og töltum út á bændamarkaðinn. Jarðarberjatíðin er greinilega að ná hámarki – ljúfur og sætur ilmur lá í loftinu og við vorum ekki lengi að því að grípa nokkra bakka af jarðarberjum, eitt knippi af rabarbara og annað af aspas og ýmislegt góðgæti beint frá býli.

Við fórum á frábæran veitingastað í Fort Greene í einum göngutúrnum okkar og deildum tveimur ískúlum. Annar ísinn var rabarbarasorbet með engiferi sem var svo ferskur og bragðgóður að ég mátti til með að nýta rabarbarann í að búa til minn eigin. Ég lagðist í smá rannsóknir og fann uppskrift á netinu sem notar ekki of mikinn sykur á móti rabarbara og útkoman er þessi fallega bleiki sorbet með ljúfu rabarbarabragði og smá vísi að engiferi. Upprunlega uppskriftin notar smá sterkt áfengi til að koma í veg fyrir að sorbetinn frjósi um of en það má auðvitað sleppa áfenginu og leyfa ísnum bara að standa við stofuhita í nokkrar mínútur eftir að hann er tekinn úr frysti til að mýkja hann aðeins.

SJÁ UPPSKRIFT

Auðveld rabarbarasulta

Takk kærlega fyrir góð viðbrögð við búsáhaldafærslunni um daginn! Ég hafði mjög gaman af því að lesa hvað er í uppáhaldi hjá ykkur og plotta þannig næstu áhaldakaup.

Ég held að ég geti núna (loksins!) lýst því yfir að sumarið er komið til New York. Við löbbuðum á bændamarkaðinn snemma í morgun í glaðasólskini og ég var ekki lengi að rífa mig úr peysunni og sjá eftir því að hafa dregið á mig gallabuxur áður en ég fór út. Markaðurinn var þéttpakkaður af fólki, jarðarberjum, aspasi og ýmsu góðgæti. Í hverri viku spretta líka upp fleiri sölustandar sem selja vín, kjöt, ávexti, blóm og fleira. Það er gott að búa í Brooklyn.

Ég kippti með mér tveimur rabarbarastilkum á leiðinni úr búðinni í dag án þess að vera búin að ákveða hvað ég vildi gera við þá. Þegar heim var komið uppgötvaði ég að við gleymdum að kaupa sultu í búðinni og þá voru örlög rabarbarans ráðinn. Ég studdist við uppskrift úr einni uppáhaldsmatreiðslubókinni minni, Jamie at Home, og klukkutíma seinna var ég komin með þessa dýrlegu og einföldu sultu sem má nota á brauð og vöfflur eða út í hafragrautinn og jógúrtið. Ég átti vanillubaun upp í skáp en það má nota vanillusykur í stað sykurs eða sleppa vanillunni alfarið.

[Uppfært: Sykurmagnið í uppskriftinni virðist kannski ekki mikið miðað við magn rabarbara en við Elmar erum sammála um að sultan er alls ekki of súr heldur fær rabarbarinn kannski að njóta sín betur þar sem sultan er ekki dísæt.]

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: