Skip to content

Rabarbaraskúffukaka

Ég næ alls ekki að blogga eins reglulega og mig langar þessa dagana. Við erum á reglulegum þeytingi á milli sveita hérna fyrir norðan og erum svo heppin að matar- og kaffiboð eru svo tíð að ég næ varla að melta á milli heimsókna. Við mættum líka í eitt það skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef verið viðstödd en góðvinir okkar létu pússa sig saman á heitum sólríkum degi í Hrísey og buðu upp á alíslenskt bakkelsi, kaffi, kvöldmat og dansiball um kvöldið. Þetta fallega lag er búið að óma í hausnum á mér síðan.

Bakstur, eldamennska, bloggg, lærdómur og vinna hefur því verið í miklu undanhaldi síðustu daga og vikur.  Og þó að samviskubitspúkinn pikki í öxlina af og til þá má alltaf drekkja honum í fallegu sundlauginni í Þelamörk eða bursta hann af sér í sveitasælunni í Skíðadal.

Eftir langt hlé frá bakstri ákvað ég að kíkja í rabarbarabeðið hjá tengdamóður minni og búa til þessa léttu og sumarlegu köku. Kakan er mjög einföld og passar mátulega ofan í meðalstóra ofnskúffu. Það mætti því segja að þessi kaka sé tegund af skúffuköku. Ég hafði smá áhyggjur af því að botninn yrði alltof þunnur þar sem gert var ráð fyrir eilítið minna bökunarformi í upphaflegri uppskrift en það voru allir sammála um að kakan væri stórgóð með þessum þunna botni, rabarbaralagi og hrönglinu ofan á.

Rabarbarinn er látinn liggja í sykri og sítrussafa áður en honum er dreift yfir kökudeigið og það gerir það að verkum að hann heldur sínu sérkennilega súra bragði án þess að það valdi andlitsgrettum. Þið skulið samt hella safanum sem rabarbarinn liggur í yfir kökuna til að fá rétt bragð og sætumagn.

Rabarbaraskúffukaka

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

Kakan:

  • 565 g rabarbari, skorinn í 2 sm bita
  • 265 g sykur
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 115 g smjör, ósaltað og við stofuhita
  • rifinn börkur af heillri sítrónu
  • 2 stór egg
  • 165 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3/4 tsk salt
  • 1/4 tsk (rúmlega) engiferkrydd
  • 80 g sýrður rjómi

Hröngl:

  • 125 g hveiti
  • 50 g ljós púðursykur
  • 1/8 tsk salt
  • 1/4 tsk engiferduft
  • 50 g smjör, bráðið

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C/350°F. Smyrjið ofnskúffu eða eldfast mót (9″x13″) og leggið bökunarpappír ofan í mótið þannig að hann hangi meðfram tveimur hliðunum.

Takið fram skál og setjið niðursneidda rabarabarann ofan í ásamt 130 g af sykrinum og sítrónusafanum. Blandið saman og setjið til hliðar.

Þeytið saman smjör og restina af sykrinum. Bætið sítrónuberkinum saman við. Þeytið eggin saman við, einu í einu, þar til allt hefur blandast vel saman.

Blandið saman hveiti, lyftidufti, salti og engiferi í stórri skál. Þeytið 1/3 af hveitiblöndunni saman við smjörblönduan þar til allt hefur rétt svo blandast saman, þeytið því næst helmingnum af sýrða rjómanum saman við. Þeytið öðrum 1/3 af hveitinu saman við, síðan restinni af sýrða rjómanum og að lokum síðasta þriðjungnum af hveitinu saman við.

Hellið deiginu í ofnskúffuna og dreifið vel úr því og jafnið. Dreifið rabarbaranum yfir þannig að hann liggi að mestu leyti í einu lagi yfir deiginu. Hellið safanum og sykrinum sem verður eftir í skálinni yfir kökuna.

Búið til hrönglið með því að blanda öllum þurrefnunum saman, hellið smjörinu yfir og blandið með gaffli. Sáldrið síðan hrönglinu yfir kökuna og rabarbarann.

Bakið í miðjum ofni (með blæstri ef það er hægt) í 50 til 60 mínútur eða þar til hún er bökuð í gegn. Leyfið að kólna áður en hún er borin fram.

Prenta uppskrift

One Comment Post a comment
  1. Inga Þó #

    mmm!

    03/08/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: