Skip to content

Massaman karrí

Ég dró Elmar með mér suður í Kínahverfið í gær til að versla hráefni í þetta gómsæta karrí. Að fara þangað er eins og að stíga inn í annan heim, allir (með fáum undantekningum) tala kínversku eða víetnömsku, öll skilti eru á kínversku og maður finnur ótrúlegustu hráefni í matarmörkuðunum. Mér finnast skúringarföturnar með lifandi froskum í skemmtilegastar, þeir láta mann fá tangir svo maður getur dregið upp úr feitasta og ljótasta froskinn. Ég hef reyndar ekki reynt það ennþá en kannski ef ég finn girnilega froskauppskrift þá læt ég á það reyna.

Þessi uppskrift er smá breyting á uppskrift úr bókinni The Asian Vegan Kitchen eftir Hemu Parekh. Ég og dóttir Hemu erum mjög góðar vinkonur og við vorum nánast óaðskiljanlegar þegar við vorum saman í skóla í Tokyo. Ég eyddi því nokkrum árum í eldhúsinu hennar Hemu og hún var mjög dugleg að gefa mér að borða (sérstaklega þar sem ég var mjög dugleg að borða). Maturinn hennar er það ljúffengasta sem ég hef smakkað og ég er mjög spennt yfir bókinni hennar. Ég fæ reyndar oft hroll yfir orðum eins og ,,gluten-free“ og ,,vegan“ því ég á bara erfitt með að skilja slíkar sérþarfir í mataræði. En í rauninni er mjög mikið af mat í Asíu ,,vegan“ matur þar sem mjólkurvörur og kjöt eru alls ekki nauðsynleg uppistaða í réttum þar og því er ég alls ekki afhuga þessari bók.

Það er auðvelt að leika sér með þessa uppskrift. Það má minnka magn af kartöflum og skipta út fyrir kjúkling, tófú eða svínakjöt, það má líka nota sveppi í þennan rétt. Ef þú vilt milda laukbragðið þá geturðu steikt laukinn í pönnu þangað til hann verður glær áður en honum er bætt við réttinn. Ég mæli svo með að bera réttinn fram með sjóðandi heitum jasmín hrísgrjónum.


Massaman karrí

(Hema Parekh: The Asian Vegan Kitchen)

  • 2 msk olía
  • 3 msk Massaman karrímauk (sjá uppskrift neðar)
  • 1 laukur, fínt saxaður
  • 5 meðalstórar kartöflur, soðnar og skornar í teninga
  • 100 g grænar baunir, skorið í 3 cm lengjur
  • 720 ml kókosmjólk
  • 4 msk ristaðar jarðhnetur, gróft saxaðar
  • 3 msk tamarind safi*
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tsk salt
  • 1 msk ristaðar jarðhnetur, saxaðar, til skrauts
  • Graslaukur, saxaður, til skrauts

*Ef þú átt ekki tamarind safa þá getur þú notað hvítvínsedik eða smá púðursykur leystan upp í sítrónusafa í staðinn.

Aðferð:

Í stórri pönnu (t.d. wok pönnu) hitið olíuna og léttsteikið karrímaukið við meðalháan hita.

Bætið lauk, kartöflum og baunum út í. Blandið grænmetinu vel saman við karrímaukið.

Bætið við kókosmjólk og eldið í sirka 6 mínútur. Bætið 4 msk af jarðhnetum við ásamt tamarind safanum, púðursykrinum og salti og hrærið þangað til sykurinn leyst upp.

Skreytið með jarðhnetum og graslauk og berið fram.

fyrir 4

Massaman karrímauk

  • 3 kardemommubelgir
  • 1 tsk kóríanderfræ
  • 1 tsk kúminfræ
  • 2/3 tsk malaður hvítur pipar
  • ½ tsk kanill
  • 4 negulnaglar
  • 6 fersk rauð chili aldin, fræhreinsuð
  • 3 hvítlauksrif, skorin í tvennt
  • 1 stöngull lemongrass, saxaður*
  • 4 skallotlaukar, saxaðir
  • 1 msk rifinn sítrónubörkur
  • ½ tsk salt

*Ég er ekki viss um að lemongrass fáist heima. Lemongrass er aðallega notað til að fá sítrusbragð í réttinn og þú getur rifið niður börk af sítrónu í staðinn. Fyrir 1 stöngul af lemongrass þarftu börk af hálfri sítrónu.

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og myljið þangað til myndast hefur næstum hnökralaust mauk. Ég mæli með að merja fræin og belgina í mortéli áður en það fer í matvinnsluvélina.  Ef þú hefur ekki aðgang að matvinnsluvél þá geturðu búið til mauk með mortéli. Myljið niður hráefnin, nokkur í einu og blandið síðan vel saman. Maukið endist í sirka viku ef það er geymt inni í ísskáp.

5 athugasemdir Post a comment
  1. Emmi #

    Sko. Þetta var sjúklega gott!

    03/10/2010
  2. Embla #

    Nammi nammi namm!! Asískt er alltaf best.

    03/10/2010
  3. Auður #

    Þú ert sjúklega dugleg að elda Nanna. Flottast af öllu finnst mér að þú stillir hráefnunum alltaf upp saman (og mjög lekkert og snyrtilega) sem lætur þetta líta út fyrir að vera pís of keik.

    Much love,
    Auður

    03/10/2010
  4. Lilý #

    Guð hvað mig langar að koma í mat til ykkar núna!

    04/10/2010
  5. Gretar Amazeen #

    Eg aetla ad fjarfesta i thessari bok. Er einmitt buinn ad vera ad leita ad godri asiskri vegetarian matreidslubok.

    18/10/2010

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: