Súkkulaðibitakökur
Mér hefur alltaf fundist rigningarveður leiðindaveður. Mig langar aldrei sérstaklega út og þegar ég dríf mig í einhvern leiðangur þá á ég það til að sjá eftir því. Það stytti aðeins upp í gær og ég ákvað að kíkja í Trader Joe’s, sem er lágvöruverslun í ekkert alltof mikilli fjarlægð frá okkur. Allar ákvarðanir mínar varðandi þá ferð reyndust rangar. Ég ákvað, fyrst það var nú búið að stytta upp, að fara með litlu regnhlífina út í búðina í staðinn fyrir þá stóru. Ég ákvað líka að sleppa því að fara í stígvélunum mínum og skellti tautöskunni minni á öxlina og arkaði út í búð. Ef þið hafið verslað í bandarískum matvörubúðum þá vitið þið að þeir nota yfirleitt pappapoka undir vörurnar. Sem er venjulega allt í lagi. Nema ég lenti (auðvitað) í skýfalli á leiðinni heim. Ég bölvaði rigningunni og sjálfri mér í sand og ösku þegar ég gekk heim úr búðinni með alltof litla regnhlíf (sem hlífði aðeins höfðinu mínu og engu öðru), blaut í fæturna og með pappapoka sem smám saman varð að drullu. Þegar ég átti sirka 10 mínútna labb eftir heim þá gaf pokinn sig endanlega og allar vörurnar trítluðu og ultu frá mér í nálæga polla. Ég tíndi allt samviskusamlega upp og fyllti fangið á mér með niðursuðudósum, jógúrti og öðrum óþarfa sem ég hafði leyft mér að kaupa. Þannig að þegar það fór að rigna í dag þá tók ég þá ákvörðun að vera frekar heima við með bækur og tebolla við höndina. En þegar ég varð þreytt á því og sá fram á að vera ein í kvöldmat þá ákvað ég bara að búa til smákökur. As one does.
Þessi smákökuuppskrift er mjög einföld en smákökurnar eru virkilega góðar. Eggjarauðan gerir þær aðeins mýkri en venjulegar smákökur en þær eru samt stökkar og góðar á endunum. Það er auðvitað hægt að gera þessa uppskrift ,,fínni“ og skella í smá söxuðum hnetum en stundum finnst mér að súkkulaðismákökur eiga bara að standa undir nafni og innihalda aðeins dökka og stóra súkkulaðidropa. Ég bjó til sirka 50 smákökur úr þessu deigi en kökurnar mínar eru fremur litlar – ég miðaði við eina matskeið í hverja köku. Það er líka hægt að búa til risastórar smákökur úr þessu deigi, það er alfarið undir ykkur komið. Fylgist bara vel með bökunartímanum, mér finnast ofnar vera ansi mismunandi og því er bökunartíminn hér að neðan alls ekki heilagur. Þegar brúnirnar eru gylltar þá ættu kökurnar að vera tilbúnar.
Súkkulaðibitakökur
- 450 g hveiti
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/2 tsk salt
- 180 g smjör, bráðið
- 230 g púðursykur
- 100 g sykur
- 1 msk vanilludropar
- 1 egg
- 1 eggjarauða
- 250 g súkkulaði, skorið í litla bita
Aðferð:
Hitið ofninn í 165°C.
Blandið saman hveiti, matarsóda og salti í skál og setjið til hliðar.
Þeytið saman smjöri og sykri þangað til það hefur blandast vel saman. Bætið þá út í vanilludropum, eggi og eggjarauðu og þeytið saman.
Hrærið svo hveitiblöndu saman við þangað til allt hefur blandast saman. Þá er súkkulaðinu bætt við og hrært varlega saman, helst með skeið.
Setjið eina matskeið í einu af kökudeigi á bökunarpappír og raðið þannig að það sé gott bil á milli.
Bakið í forhituðum ofni í ca. 10 – 12 mínútur eða þangað til að brúnirnar gyllast.
Þú ert snillingur Nanna. Takk fyrir þessa síðu. Hlakka til að prófa allt þetta ótrúlega girnilega dót sem þú ert búin að setja inn nú þegar. Og í framtíðinni auðvitað.
mmmmm, ekkert smá girnilegt! ég vildi óska að ÉG væri gift þér dúllan mín. og LÆK á kökur í kvöldmat. x
Ooohh, mouth-watering.
GUÐNÝ! Hættu þessu. Ég á hana!
Whatever, ég átti hana laaaaaaang fyrst. Eða á hún mig?
Þetta eru æðislegar kökur! Ég bakaði þær í gærkvöldi og gerði reyndar frekar skrítin mistök. Ég átti bara 200 grömm af súkkulaði svo ég ákvað að bæta við 50 grömmum af valhnetum. Þegar ég var búin að baka kökurnar fann ég svo súkkulaðibita sem ég hafði í æði mínu gleymt að saxa. Svo þær innihalda bara 150 grömm af súkkulaði og 50 grömm valhnetur.
En þær eru dásamlegar, og Gústi var að missa sig í kökudeigsáti á meðan!
Bestu kveðjur frá Kaupmannahöfn til New York!