Skip to content

Posts from the ‘Bakstur’ Category

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

SJÁ UPPSKRIFT

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Reine de Saba [Frönsk möndlu- og súkkulaðikaka]

Elmar átti afmæli í síðustu viku og við áttum mjög góðan og afslappandi dag saman. Ég eldaði kræklinga um kvöldið og við fengum okkur dýrindis osta úr Murray’s Cheese Shop og sneið af þessari köku í eftirmat. Ég hef sagt það áður að mér finnst einstaklega gaman að búa til afmæliskökur og mér finnst að allir eigi að fá heimabakaða köku á afmælisdeginum.

Ég gróf þessa uppskrift upp úr bók sem mér þykir afskaplega vænt um, Mastering the Art of French Cooking. Þóra frænka mín gaf mér hana stuttu eftir að ég tók ástfóstri við eldhúsið. Bókin hefur gefið mér mikinn innblástur og kjark til að tækla uppskriftir sem ég hefði annars aldrei þorað að hjóla í. Kakan var ómótstæðilega ljúffeng með ríku súkkulaðibragði og miklu möndlubragði í bland.

SJÁ UPPSKRIFT

Skonsur með jarðarberjum og rjóma

Við fengum góða vinkonu okkar í heimsókn einn góðviðrisdaginn í vikunni. Ég átti eiginlega ekkert til að bera fram nema öskju af jarðarberjum og fullt af rjóma.

Elmar keypti stóran pela af rjóma í kræklingaréttinn og til að forða rjómanum frá skemmdum ákvað ég að baka þessar dýrðlegu rjómaskonsur til að hafa með ferskum jarðarberjunum og meiri rjóma. Þetta er sígildur bandarískur eftirréttur og er mikið borðaður hérna vestra á sumrin. Ég hef margoft bakað þessar skonsur (án þess að setja inn uppskrift) og þær eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þær eru sérstaklega góðar sem matarbrauð og við höfum tvisvar mætt með þær í Þakkargjörðarboð. Ég mæli eindregið með að prófa að baka þær þegar þið eigið of mikið af rjóma.

SJÁ UPPSKRIFT

Súkkulaðispesíur með sjávarsalti

Í hverfinu okkar er gúrmet-, osta- og bjórbúðin Brooklyn Larder. Það er fátt sem okkur þykir skemmtilegra en að kíkja þangað inn, skoða ostaúrvalið og allt það kræsilega sem búðin hefur upp á að bjóða. En hún er dýr og því förum við aldrei hlaðin þaðan út heldur erum í mesta lagi með lítinn poka með þunnum sneiðum af osti og kannski smá hráskinku. Ein af gersemum búðarinnar eru smjörríkar súkkulaðismákökur með sjávarsalti. Ég gæti bókstaflega borðað þær allan liðlangan daginn án þess að fá nóg. En verðmiðinn setur græðgi minni mörk.

Um daginn fór ég í búðina og horfði löngunaraugum á fallegu kökurnar en gat ekki fengið mig til að kaupa þær (það er stundum kvöð að vera sælkeri á námsmannakjörum). Ég einsetti mér því að föndra uppskrift sem myndi jafnast á við smákökurnar þeirra. Ég lá yfir bókum, reiknaði hlutföll (og mér finnst sko ekkert gaman að reikna) og þetta er afraksturinn. Þessar kökur eru engu síðri og eru afskaplega fljótar að klárast. Galdurinn er að nota mikið smjör, mikið og dökkt súkkulaði, litla dökka súkkulaðibita og saltflögur sem bráðna auðveldlega í munni.

SJÁ UPPSKRIFT

Torta di Pere [Perukaka með dökku súkkulaði]

Ég er greinilega sólgin í ítalskan mat þessa dagana. Í þessari viku hef ég borðað pasta, lasagna, heimalagaða pítsu og ó-svo-margar sneiðar af þessari ljúffengu köku. Ég hef líka verið að sötra ítalska drykkinn Negroni – blanda af gini, sætum vermút og Campari – einstaka kvöld eftir að hafa svæft Þórdísi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég reyni að drekka Negroni en ég hef alltaf fúlsað við Campari. Líklega sökum þess að ég stalst einhvern tímann sem unglingur til að taka gúlsopa úr flösku sem foreldrar mínir áttu og fannst það ó-geð-slegt. Ég er enn ekki búin að ákveða hvort mér finnist drykkurinn góður eða bara hræðilega vondur. Þessi kaka hinsvegar er ekkert annað en ljómandi góð.

Inga Þórey vinkona mín hefur oft og mörgum sinnum hvatt mig til að baka þessa köku og þar sem Inga hefur aldrei leitt mig í ranga matarátt þá er í raun skammarlegt hversu lengi ég hef beðið með að baka hana. Kakan inniheldur fá hráefni og það þarf aðeins að nostra við þau. Útkoman er ein albesta kaka sem ég hef bakað. Loftið í þeyttu eggjunum og heil matskeið af lyftidufti gerir það að verkum að kakan er létt í sér og lyftir sér yfir perurnar og súkkulaðið þannig að þau sökkva ekki öll til botns. Ef þið hafið aldrei brúnað smjör áður þá má finna góðar leiðbeiningar hjá Lillie (hún notar reyndar pönnu við að brúna smjör en ég nota alltaf pott). Uppskriftin kemur frá einum af rótgrónustu veitingastöðunum í Brooklyn,  Al di là.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: