Skip to content

Bakaðir kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

Ég ætla að segja ykkur frá þessum kleinuhringjum. En fyrst verð ég að dásama íslenska náttúru á fallegum vetrardögum eins og þeim sem við eyddum upp í sveit í bústaði vina okkar um síðustu helgi. Veðrið var stillt – það var snjór yfir jörðu og frost. Næturhimininn skartaði stjörnuprúð líkt og ég hef ekki séð í áraraðir og dagarnir voru letilegir og snérust um mat og drykk. Ég saknaði þess mikið að geta ekki leitað í kyrrðina og fjallaloftið á Íslandi þegar ég bjó í New York. Stundum þegar ég gekk um götur borgarinnar með sírenuvælið í eyrunum, mannmergðina í kringum mig og eilítið ágengan fnyk í nösunum þá lét ég mig dreyma um sveitakyrrð, spörfuglasöng og útsýni um víðan völl. Þetta var útsýnið mitt þegar ég drakk fyrsta kaffibollann á laugardagsmorgninum og ég naut þess mjög:

En þessi færsla átti víst að fjalla um bakaða kleinuhringi með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr. Getum við öll sammælst um það að brúnað smjör sé mögulega best heimi? Því það gefur bakkelsi svo yndislega mikinn karakter. Það sem væri annars frekar staðlað kökudeig verður að einhverju einstöku með þessu móti – eins og í þessum kleinuhringjum. Ég bjó til einfaldan súkkulaðiglassúr ofan á og sáldraði ristuðu kókosmjöli yfir. Kleinuhringirnir voru svo borðaðir með bestu lyst í brönsboði í Vestubænum.

Kleinuhringir með brúnuðu smjöri og súkkulaðiglassúr

(Örlítið breytt uppskrift frá Joy the Baker)

  • 125 g [1 bolli] hveiti
  • 3/4 tsk lyftiduft
  • 1/4 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk múskat, nýmöluð
  • 75 g [1/3 bolli] sykur
  • 50 g smjör
  • 1 stórt egg
  • 1/2 bolli súrmjólk
  • (smá mjólk ef deigið er of þykkt)*
  • 1 tsk vanilludropar

*Joy notar buttermilk og mér hefur oft fundist ég geta notað súrmjólk í staðinn. Í þetta skiptið fannst mér deigið aðeins of þykkt og bætti við 3 msk af mjólk til að gera það aðeins þynnra.

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og stillið grindina í ofninum í efri þriðjung ofnsins. Smyrjið kleinuhringjamót með smjöri eða olíu og setjið til hliðar.

Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt, múskat og sykur saman í stórri skál. Setjið til hliðar.

Brúnið smjörið: Setjið smjörið í pott og setjið yfir meðal-lágan hita á eldavélinni. Fylgist vel með og takið smjörið af hitanum þegar það er farið að brúnast og gefur frá sér hnetukennda lykt. Hellið smjörinu strax ofan í litla skál eða glas. Passið að skrapa brúnu bitana með ofan í glasið – í þeim er mesta bragðið.

Hrærið saman eggið, súrmjólkina og vanilludropana. Hrærið 2 msk af brúnaða smjörinu saman við.

Hellið blautefnunum saman við þurrefnin og hrærið þar til allt hefur blandast saman. Forðist það að hræra of mikið í deiginu – þá verða kleinuhringirnir þéttari í sér og ekki eins góðir. Ef deigið er mjög þykkt má bæta smá vatni saman við.

Notið skeið (eða sprautið deiginu úr poka) og flytjið deigið yfir í kleinuhringja mótið, ekki fylla hvern hring alveg því deigið mun lyfta sér.

Bakið í ofninum í 8 – 10 mínútur. Leyfið að kólna aðeins á grind í mótinu áður en kleinuhringirnir eru losaðir úr.

Búið til glassúrinn á meðan kleinuhringirnir kólna.

Glassúr:

  • 180 g [1.5 bolli] flórsykur
  • 4 msk hreint kakóduft
  • klípa af salti
  • 3 – 4 msk mjólk
  • 1 tsk vanilla
  • ristað kókosmjöl eða annað kökuskraut

Aðferð:

Hrærið saman flórsykur, kakóduft og salt í meðalstórri skál (gott er ef hún er breið frekar en há).

Hellið mjólkinni og vanilludropunum út í og hrærið öllu saman. Glassúrinn á að vera þykkur og seigfljótandi, ef hann er of þykkur skal hræra saman við meiri mjólk.

Dýfið kleinuhringjunum ofan í glassúrinn. Gott er að nota gaffal eða skeið til að veiða kleinuhringina upp úr.

Sáldrið kókosmjöli eða öðru skrauti yfir.

Gerir 6 kleinuhringi

One Comment Post a comment
  1. Þú ættir að bjóða upp á kennslu í kleinuhringjagerð Nanna – þetta lúkkar svakalega vel!

    10/11/2013

Skildu eftir athugasemd