Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur
Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.
Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.
Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.
Sæt kartöflusúpa
(Breytt uppskrift frá Joy the Baker)
- 1.5 msk ólívuolía
- 1 stór laukur, saxaður
- 1 stórt hvítlauksrif, saxað
- 2 msk engiferrót, söxuð
- 1 tsk malað kúmin
- 1/2 tsk malað kóríander
- 1/4 tsk túrmerik
- 1/8 tsk chiliflögur (ég notaði 1/4 tsk fyrir meiri hita)
- 1 kg sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita
- 1 l kjúklingasoð (eða grænmetissoð)
- salt og pipar
- 6 – 8 msk geitaostur
Aðferð:
Hitið olíuna í stórum potti yfir meðahláum hita. Steikið laukinn þar til hann verður glær og mjúkur. Bætið hvítlauknum og engiferrótinni úti og steikið í 30 sekúndur. Bætið kryddunum saman við og hrærið öllu saman. Bætið kartöflunum út í og hellið soðinu yfir. Náið upp suðu og lækkið síðan hitann. Leyfið öllu að malla í 20 mínútur eða þar til kartöflurnar mýkjast alveg.
Notið töfrasprota, blandara eða matvinnsluvél til að mauka súpuna. Smakkið súpuna til og kryddið með salti og pipar.
Hellið súpunni í skálar og sáldrið geitaosti yfir.
Geitaostsskonsur
- 2 bollar [250 g] hveiti
- 3 tsk lyftiduft
- 1.5 tsk salt
- 60 g smjör, kalt og skorið í bita
- 4 msk geitaostur
- 1 bolli súrmjólk
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C.
Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti. Setjið smjörið og geitaostinn út í og nuddið það saman við hveitiblönduna með fingurgómunum þar til blandan fer að líkjast mjöli.
Hellið súrmjólkinni yfir og blandið öllu saman með skeið.
Hvolfið deiginu á hveitistráðan flöt og þjappið deiginu saman. Skerið í bita, penslið með bræddu smjöri og bakið í ofni í ca. 15 mínútur eða þar til þær hafa lyft sér töluvert og eru farnar að gyllast.
Súpan lítur girnilega út og til lukku að vera komin með dagmömmu, -erla
Þessi verður á matseðlinum hjá mér sem allra fyrst! Hvernig geitaost varstu með?
Ég var með mjúka geitaostslengju sem ég keypti í Hagkaup. Það var nú bara til Président geitaostur í fullt af plasti og svo þessi ;)