Skip to content

Posts from the ‘Skonsur’ Category

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Skonsur með jarðarberjum og rjóma

Við fengum góða vinkonu okkar í heimsókn einn góðviðrisdaginn í vikunni. Ég átti eiginlega ekkert til að bera fram nema öskju af jarðarberjum og fullt af rjóma.

Elmar keypti stóran pela af rjóma í kræklingaréttinn og til að forða rjómanum frá skemmdum ákvað ég að baka þessar dýrðlegu rjómaskonsur til að hafa með ferskum jarðarberjunum og meiri rjóma. Þetta er sígildur bandarískur eftirréttur og er mikið borðaður hérna vestra á sumrin. Ég hef margoft bakað þessar skonsur (án þess að setja inn uppskrift) og þær eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Þær eru sérstaklega góðar sem matarbrauð og við höfum tvisvar mætt með þær í Þakkargjörðarboð. Ég mæli eindregið með að prófa að baka þær þegar þið eigið of mikið af rjóma.

SJÁ UPPSKRIFT

Bláberjaskonsur

Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.

Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.


SJÁ UPPSKRIFT

Kókos- og möndluskonsur með súkkulaðibitum

Við erum að fá svo marga skemmtilega gesti á næstu mánuðum að ég hef varla undan að bóka íbúðir á Airbnb fyrir mannskapinn. Það eru því mjög skemmtilegir tímar framundan. Ég reyni því að nýta þann nauma tíma sem ég hef frá Þórdísi í að vinna að doktorsverkefninu. Verkefni sem er orðið að svo ógurlegu skrímsli að ég þori stundum ekki að opna glósurnar mínar.

Ég er almennt mjög hrifin af svona skonsum – þær eru fljótlegar, einfaldar og það er auðvelt að frysta þær hráar til að eiga bakkelsi til að stinga beint inn í ofn þegar löngunin kallar. Svo á ég líka yfirleitt allt nauðsynlegt hráefni í þær og eitthvað auka til að hræra saman við. Við vorum mjög hrifin af þessum skonsum, þær voru fullkomnar nýbakaðar með eftirmiðdagskaffibollanum.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: