Skip to content

Bláberjaskonsur

Ég fylgdist með fárviðrinu heima úr þægilegum fjarska. Það er ennþá kalt, grátt og vetrarlegt hjá okkur en ég stend mig að því að píra augun ofan í hvert einasta beð í von um að vorið springi út á einu andartaki. Ég hugsa að það sé sérstaklega auðvelt að verða óþreyjufull í bið eftir hlýrri dögum þegar maður býr í svo litlum og þröngum húsakynnum.

Þessar skonsur gera biðina ögn bærilegri. Ég er með skonsur á heilanum þessa dagana en þar sem þær eru langbestar nýbakaðar þá hef ég setið á mér að kaupa þær úti á kaffihúsi. Joy the Baker setti inn færslu um daginn með uppskrift að einföldum skonsum með bláberjum og hlynsírópi sem ég varð að prófa. Ég keypti því bakka af ferskum bláberjum (með lokuð augu því það er langt í að bláberin þroskist á norðurhveli). Ég bakaði lítinn hluta af skonsunum en frysti restina til að eiga síðar (lesist: til að koma í veg fyrir að ég borðaði þær allar á einum degi). Þær eru fullkomnar – léttar í sér, hæfilega sætar og bláberin fallega fjólublá í ljósu brauðinu. Það má nota frosin ber en þá mun deigið litast af berjunum. En það hefur bara áhrif á ytra útlit, ekki bragð.


Bláberjaskonsur

(Uppskrift frá Joy the Baker)

  • 3 bollar [375 g] hveiti
  • 2.5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk matarsódi
  • klípa [1/8 tsk] af möluðu múskati
  • 3/4 tsk salt
  • 170 g smjör, ósaltað og skorið í litla teninga
  • 1 stórt egg, hrært
  • 2 msk hlynsíróp
  • 3/4 bolli [180 ml] buttermilk* (eða súrmjólk eða AB mjólk)
  • 1 bolli fersk bláber** 
  • 3 msk buttermilk, til að pensla skonsurnar með
  • sykur, til að strá ofan á skonsurnar

[*Buttermilk má búa til heima: Setjið 1 msk af ferskum sítrónusafa ofan í skál, hellið 1 bolla af mjólk yfir, hrærið og leyfið að standa í 5 mínútur.]

[**Það má líka nota frosin bláber, þá þarf að afþýða þau alveg og skola. Gott er að velta þeim uppúr smá hveiti til að þær sökkvi ekki allar í botninn á skonsunum. Deigið mun hinsvegar litast svolítið fjólublátt ef frosin ber eru notuð.]

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C/400°F. Stillið ofngrindina í efsta þriðjung ofnsins. Setjið bökunarpappír ofan á ofnplötu og setjið til hliðar.

Sigtið hveiti, lyftiduft, matarsóda, múskat og salt ofan í stóra skál. Hrærið saman. Setjið smjörteningana ofan í og vinnið inn í hveitiblönduna með fingrunum eða með deigskera.

Hrærið saman egg, hlynsíróp og buttermilk í meðalstórri skál. Hellið út í hveitiblönduna og hrærið saman með stórri skeið þar til deig fer að myndast. Hellið bláberjunum út í skálina og blandið varlega saman við (reynið að halda berjunum ómörðum).

Flytjið deigið yfir á hveitistráðan flöt og hnoðið mjög varlega svona 15 sinnum. Klappið það síðan niður þar til það verður rúmir 2 sm á þykktina. Skerið út 5 sm hringi með útstunguformi. Klappið afganginum af deiginu saman og skerið aftur (mér finnst best að skera restina í jafna hluta með hníf til að nýta allt deigið).

Raðið skonsunum á ofnplötuna* og penslið með buttermilk og stráið sykri yfir.

Bakið í efsta þriðjung ofnsins í 15 – 18, eða þar til þær eru orðnar gylltar efst.

Berið fram volgar.

*Skonsurnar eru langbestar ef þær eru borðaðar samdægurs. Annars má frysta óbakað deigið (sem búið er að skera út) og setja beint inn í ofn úr frysti. Þá þarf að baka þær aðeins lengur en venjulega.

Gerir u.þ.b. 22 litlar skonsur

Prenta uppskrift

3 athugasemdir Post a comment
  1. Inga Þórey #

    Er með góða lausn fyrir frosin bláber svo þau liti síður – velta þeim upp úr smá hveiti áður en þeim er blandað varlega í deigið

    08/03/2013
  2. they look delicious!

    08/03/2013

Skildu eftir athugasemd