Skip to content

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

Júnímánuður í stórborginni er frekar frábær tími. Hitastigið er alveg mátulegt, stundum leikur ljúf gola við mann og þegar hitinn magnast þá kemur þrumuveður með tilheyrandi rigningu og kælir allt niður aftur. Við erum að njóta síðustu dagana okkar í borginni og reynum að vera dugleg að hitta vini og skoða nýja (og gamalkunna) staði. Í gær fórum við aftur á Brighton Beach (við Coney Island) og leyfðum Þórdísi að horfa út á hafið og leika sér í sandinum. Coney Island er stórkostlega skemmtilegur staður á sumrin. Það er mikið af alls konar fólki, leiktækin í Luna Park ganga langt fram á kvöld og á föstudagskvöldum er vikuleg flugeldasýning. Hafgolan er líka kærkomin á heitum dögum.

En þegar hlýtt er í veðri og mann langar eingöngu til að vera úti þá getur eldamennskan setið á hakanum. Við höfum ekki getað reitt okkur á loftkælinguna til þessa og því hef ég hikað við að standa yfir gaseldavélinni eða kveikja á ofninum. Lausn mín á þessum vanda er að búa til þessar einföldu kjúklingatacos. Ég kaupi tilbúinn kjúkling úti í búð og ríf hann niður. Sneiði síðan radísur og avókadó. Pækla rauðlauk og saxa ost. Svo bý ég til salsa fresca (ferska salsasósu). Úr verður ótrúlega einfaldur en ferskur og ljúffengur mexíkósur matur. Með þessu drekkur Elmar léttan bjór en ég blanda mér margarítuna mína.

Í Bandaríkjunum er mjög auðvelt að kaupa litlar tortillur úr maís sem ég glóða á gaseldavélinni. Áður en ég flutti hingað út hélt ég að tacos væri alltaf borið fram í þessu stökku skeljum sem molna strax og maður bítur í þær. Það má auðvitað nota stærri tortillurnar í þennan rétt.

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

 • 1 heill kjúkingur, eldaður og rifinn (eða skorinn) í strimla
 • 2 lárperur
 • rifinn eða skorinn ostur
 • 3 radísur, skornar í þunnar sneiðar
 • límónusneiðar
 • heit sósa (t.d. Tabasco)
 • kóríanderlauf
 • tortillur, glóðaðar á grilli, pönnu eða eldavél
 • pæklaður rauðlaukur (uppskrift neðar)
 • salsa fresca (uppskrift ennþá neðar)

Aðferð:

Berið allt fram og leyfið hverjum og einum að raða á sína eigin köku. Gæti ekki verið einfaldara!

Pæklaður rauðlaukur

 • 1 rauðlaukur, þunnt sneiddur
 • 1 msk sykur
 • tæpar 2 tsk salt
 • 1/2 bolli edik
 • 1 bolli vatn

Aðferð:

Hrærið saman sykri, salti, ediki og vatni í skál þar til saltið og sykurinn leysast upp. Setjið rauðlaukinn í krukku (eða skál). Hellið edikblöndunni yfir, lokið krukkunni og hristið hana smá (hrærið öllu vel saman ef þið eruð að nota skál). Leyfið að standa í a.m.k. 1 klukkustund. (Geymist í 2 vikur)

Salsa fresca

 • 3 stórir tómatar, aldinkjötið tekið frá (það er ekki notað) og hýðið saxað
 • 1/2 hvítur laukur, saxaður
 • 1 hvítlauksgeiri, fínt saxaður
 • 1 grænt chili (t.d. jalapeno), saxað (passið samt að aðlaga chilimagn eftir smekk)
 • lítið handfylli kóríander, saxað
 • safi úr hálfri límónu

Aðferð:

Blandið öllu saman í skál og leyfið að standa í smá stund áður en salsað er borið fram.

No comments yet

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: