Pad Thai með risarækjum
Ég er búin að vera að vinna í myrkri í eldhúsinu frá því ég kom aftur til baka frá Íslandi. Ástæðan er sú að ljósin í umræddu herbergi eru hætt að virka sökum einhverrar samskiptavillu í rafmagni (ég veit að þetta er ekki rétt lýsing en ég veit ekki neitt um svona hluti og vil helst halda því þannig). Ég reyni að redda mér með því að draga gólflampann inn í eldhús og píra augun ofan í pönnur og potta. Viðhaldsmaðurinn kemur til okkar á miðvikudaginn og ætlar að kippa þessu í liðinn. Ég verð reyndar mjög stressuð við tilhugsunina um að við séum að fá hann og hans fylgdarlið inn í íbúðina okkar. Í hvert skipti sem þeir ætla að ,,laga“ eitthvað þá endar það sem fjarstæðukennt fúsk. Munið þið eftir tékknesku þáttunum á RÚV, Klaufabárðarnir? Þeir eru Klaufabárðarnir. Þegar við áttum að fá nýja glugga í íbúðina síðasta vetur (það sást ekki í gegnum þá gömlu) þá rifu þeir gluggana úr, hentu þeim fram á gang svo rúðurnar í þeim brotnuðu og komust svo að því að nýju gluggarnir pössuðu ekki. Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að þeir ættu að stækka gatið á útveggnum svo nýju gluggarnir kæmust fyrir. Þetta þýddi að þeir brutu upp múrverkið og náðu einhvern veginn að koma gluggunum fyrir. Elmar þurfti svo að stoppa upp í öll göt með dagblöðum því það næddi svo mikið inn. Þeir komu aftur í sumar til að laga leka sem stafaði frá ónýtri pípu í gólfinu á baðherberginu okkar. Þegar við komum svo heim þá var baðherbergið allt í klessu og þar sem þeir höfðu brotið upp fallegu grænu og bláu mósaíkflísarnar voru flennistórar brúnar flísar komnar í staðinn. Lekkert.
Í rauninni er þessi saga bara að undirbúa jarðveginn fyrir réttinum sem ég ætla að lýsa. Ég vil nefnilega frekar kenna ljósleysi í eldhúsi um hvernig fór frekar en vöntun á tæknilegri kunnáttu hjá mér. Í kvöld ákvað ég að búa til Pad Thai, án aðstoðar pakkasósu, í fyrsta sinn. Og rétturinn var ljúffengur – nema að núðlurnar voru ekki nógu mjúkar og ég brenndi hneturnar. Ég ákvað samt sem áður að setja þetta á bloggið þar sem þessi réttur var mjög góður þrátt fyrir þessi grundvallarmistök. Það er frekar leiðinlegt og óspennandi hvernig pakkasósu-Pad Thai er yfirleitt of sætt og alltof sósað. Og þar sem það er afskaplega einfalt að búa til þennan rétt sjálf/ur þá mæli ég með að þið prófið. Það er bara gott að vera búinn að saxa allt sem saxa á og taka til allt sem á að fara í réttinn þar sem ferlið gengur mjög hratt fyrir sig þegar steiking er hafin.
Pad Thai með risarækjum
200 g tælenskar hrísgrjónanúðlur
2 msk olía
2 skallotlaukar, saxaðir
3 hvítlauksrif, söxuð
2 msk jarðhnetur (peanuts)
2 msk tamarind*
2 msk sykur
4 tsk fiskisósa
2 msk hnetusósa**
1/2 tsk – 1 tsk chili pipar (ég notaði cayenne pipar) eða 1 rautt chilialdin, fínsaxað
2 egg
220 g risarækjur
80 g baunaspírur
*Ef þú finnur ekki tamarind þá geturðu notað hvítvínsedik eða púðursykur leystan upp í sítrónusafa í staðinn.
**Ég prófaði að bæta þessu við uppskriftina og niðurstaðan var mjög góð. Rétturinn verður bragðmeiri, mýkri og mun gómsætari. (17/02/2011)
Aðferð:
Leggið núðlurnar í bleyti í volgu vatni í ca. 5 til 10 mínútur (eða samkvæmt upplýsingum á pakka). Þær eru tilbúnar þegar þær eru sveigjanlegar en hafa ekki tútnað út.
Hitið olíuna í wok pönnu og steikið hneturnar þangað til þær brúnast (það er gott að setja hneturnar út í olíuna strax meðan hún hitnar). Fjarlægið hneturnar úr pönnunni en haldið olíunni. Setjið lauk og hvítlauk (og ferskan chili ef hann er notaður) í pönnuna og steikið þangað til það hefur tekið á sig ljósbrúnan lit. Sigtið vatn frá núðlunum og bætið við. Hrærið hráefnum saman svo ekkert festist við pönnuna. Bætið við tamarindi, sykri, fiskisósu, hnetusósu** og chili (ef chiliduft er notað). Hrærið. Ef það er mikill vökvi í pönnunni á þessu stigi þá er ekki nógu mikill hiti undir henni. Hækkið hitann ef svo er og passið að vökvinn gufi upp án þess að núðlurnar brenni við. Núðlurnar eiga að vera þaktar sósunni en sósan á ekki að liggja á botninum.
Búið til pláss fyrir eggin með því að ýta núðlunum til hliðar. Bætið eggjunum við og hrærið þangað til þau eru næstum því fullelduð. Blandið saman við núðlurnar. Bætið við baunaspírum. Bætið við rækjum. Hrærið öllu saman. Berið fram með límónusneiðum og jarðhnetunum.
fyrir 2
Glæsilegt frænka!
Notarðu saltaðar hnetur eða ósaltar?
Ég notaði ósaltaðar hnetur.
ok kúl. Btw, fínt blogg!
Verst að tígrisrækjur eru úr sjónum ;)
Það er hægt að skipta rækjunum út fyrir kjúkling og/eða tófú. Svo er líka hægt að nota skallotlauk (shallots) eða þennan klassíska lauk sem fæst ódýr heima. Ef maður notar þennan hefðbundna lauk þá er samt betra að byrja á því að steikja hann áður en hvítlaukurinn er settur út í. Það tekur lengri tíma fyrir hann að mýkjast og mildast. Það er þá gott að setja sem viðmið að laukurinn verði glær áður en hvítlauknum er bætt út í.
Ein spurning. Viltu að hvítlaukurinn brúnist og fái svona hnetukeim, eða viltu bara að hann mýkist?
Hvítlaukurinn á að brúnast og gefa þennan nammigóða hnetukeim. Enda er hitinn á pönnunni svo mikill að það gerist mjög hratt. Ég var bara að benda á að ef þessi stóri guli laukur er notaður þá þarf hann að mýkjast fyrst :)
Kúl, ég mun elda þetta við tækifæri og ‘report back’ ;)
Girnilegur réttur og flott síða hjá þér, keep’em coming :)