Skip to content

Posts from the ‘Fljótlegt’ Category

Ofnbakaðir kartöflubátar með parmesan og steinselju

Frænka Elmars er enn eitt dæmið um hvað við eigum góða að. Hún og hennar fjölskylda eiga bústað og land þar sem þau rækta alls kyns grænmeti. Við höfum notið uppskeru þeirra nokkrum sinnum og pössum alltaf að elda bara það besta úr pokunum sem þau hafa fært okkur.

Þegar við fengum poka af kartöflum úr sveitinni þá ákváðum við að ofnbaka þær og hafa með kræklingum. Við Elmar erum mjög gefin fyrir kræklinga (sjá t.d. hér og hér) og þegar við viljum gera vel við okkur þá skellum við hóflegum skammti í pott og höfum annað hvort baguette eða kartöflur með. Við urðum fyrir þó nokkrum vonbrigðum þegar við fengum okkur kræklinga á ónefndum matsölustað í borginni og fengum picnic (já, úr gulu dósunum) ,kartöflu’strá með bláskelinni. Kannski er ég bara orðin svona snobbuð en ég mæli eindregið með því að sleppa picnic og baka þennan kartöflurétt til að hafa með næstum því öllu sem ykkur dettur í hug. Ég elda hann reglulega og hann fær alltaf góða dóma hjá þeim sem smakka hann. Það þýðir samt að ég styðst ekki við nákvæm hlutföll og uppskriftin er eftir því.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí með kíkertum, chili og myntu

Fyrir tveimur mánuðum fluttum við frá New York og á þessum mánuðum höfum við búið inni á foreldrum okkar, troðið allri búslóðinni okkar inn á mömmu og pabba og beðið í ofvæni eftir fallegustu íbúð sem ég hef nokkurn tímann búið í. Við höfum verið að koma okkur fyrir, sankað að okkur húsgögnum – ýmist að láni eða úr Góða Hirðinum, – hringt í dagmæður í von og óvon upp á að fá pláss og reynt að gera alla þá praktísku hluti sem nýflutt fólk á að gera. Þrátt fyrir allt annríkið erum við ótrúlega afslöppuð og njótum þess í botn að vera flutt í Vesturbæinn, í íbúð sem er þrefalt stærri en litla músarholan sem við bjuggum í síðustu tvö árin í Brooklyn. Mér finnst við eiginlega vera heppnasta fólk á Íslandi.

Ég hef verið að kynnast eldhúsinu – bakað í ofninum, prófað hellurnar á eldavélinni, notið þess að raða í uppþvottavélina og elskað að geta þvegið þvottinn í eldhúsinu í stað þess að fara klyfjuð á gamla þvottahúsið í Brooklyn þar sem þvotturinn kom alltaf úr þurrkaranum lyktandi af núðlusúpu. Og þó ég sakni margra hluta, staða og fólks í New York þá er gott að vera komin heim.

Elmar gaf mér matreiðslubókina Franny’s í afmælisgjöf í sumar. Franny’s var uppáhaldsmatsölustaðurinn okkar en við borðuðum þar einungis þrisvar sökum hás verðlags. Bókin þeirra er gullfalleg og allar uppskriftirnar eru sjúklega girnilegar. Ég byrjaði á því að elda þennan einfalda en ljómandi góða pastarétt úr bókinni og hef núna gert hann tvisvar. Baunirnar og pastað gera hann mjög seðjandi, steinseljan og myntan peppa hann upp og chiliflögurnar gefa góðan hita. Þórdís elskar þennan rétt og við líka.

SJÁ UPPSKRIFT

Tacos með kjúklingi og salsa fresca

Júnímánuður í stórborginni er frekar frábær tími. Hitastigið er alveg mátulegt, stundum leikur ljúf gola við mann og þegar hitinn magnast þá kemur þrumuveður með tilheyrandi rigningu og kælir allt niður aftur. Við erum að njóta síðustu dagana okkar í borginni og reynum að vera dugleg að hitta vini og skoða nýja (og gamalkunna) staði. Í gær fórum við aftur á Brighton Beach (við Coney Island) og leyfðum Þórdísi að horfa út á hafið og leika sér í sandinum. Coney Island er stórkostlega skemmtilegur staður á sumrin. Það er mikið af alls konar fólki, leiktækin í Luna Park ganga langt fram á kvöld og á föstudagskvöldum er vikuleg flugeldasýning. Hafgolan er líka kærkomin á heitum dögum.

En þegar hlýtt er í veðri og mann langar eingöngu til að vera úti þá getur eldamennskan setið á hakanum. Við höfum ekki getað reitt okkur á loftkælinguna til þessa og því hef ég hikað við að standa yfir gaseldavélinni eða kveikja á ofninum. Lausn mín á þessum vanda er að búa til þessar einföldu kjúklingatacos. Ég kaupi tilbúinn kjúkling úti í búð og ríf hann niður. Sneiði síðan radísur og avókadó. Pækla rauðlauk og saxa ost. Svo bý ég til salsa fresca (ferska salsasósu). Úr verður ótrúlega einfaldur en ferskur og ljúffengur mexíkósur matur. Með þessu drekkur Elmar léttan bjór en ég blanda mér margarítuna mína.

Í Bandaríkjunum er mjög auðvelt að kaupa litlar tortillur úr maís sem ég glóða á gaseldavélinni. Áður en ég flutti hingað út hélt ég að tacos væri alltaf borið fram í þessu stökku skeljum sem molna strax og maður bítur í þær. Það má auðvitað nota stærri tortillurnar í þennan rétt.

SJÁ UPPSKRIFT

Spagettí með risarækjum og klettasalati

Gleðilegt sumar!

Uppáhaldsárstíðin mín er handan við hornið og ég er yfir mig hrifin að sjá að laufin eru farin að þekja trjágreinar og fuglasöngurinn stigmagnast frá degi til dags. Ég tek sérstaklega vel eftir hverri einustu breytingu þessa dagana því að þetta verður síðasta vorið og síðasta sumarið okkar í New York í bili. Við höfum ákveðið að flytja heim til Íslands í sumar, ári á undan áætlun. Við tókum þessa ákvörðun fyrir rúmum mánuði síðan en ég hef ekki mannað mig upp í að skrifa það og birta opinberlega á internetinu. Ástæðurnar eru nokkrar og þó við séum fullviss um að þetta sé rétt ákvörðun þá þykir okkur samt svolítið erfitt að kveðja það líf sem við höfum skapað okkur síðastliðin fjögur ár.

Við kvöddum veturinn og buðum sumarið velkomið með þessum fína pastarétti. Rétturinn er einfaldur í matreiðslu með fáum hráefnum en útkoman er ansi ljúffeng. Ég elda sjaldan risarækjur (ég á erfitt með að sætta mig við umhverfisáhrif eldis þeirra) en stóðst ekki mátið þegar ég las mér til um þennan rétt í Ítalíubók Jamie Olivers. Ég var samt svolítið viðutan í eldhúsinu í þetta skiptið og ofeldaði rækjurnar. Ég mæli því með að lesa uppskriftina vel áður en hafist er handa til að koma í veg fyrir slíkt slys.

SJÁ UPPSKRIFT

Tvenns konar bökur

Síðustu vikur hafa verið bilaðar – heimsókn tengdaforeldra minna, músagangur og heimsókn pabba míns með smá ritgerðarstressi og svefnrugli Þórdísar blandað saman við. Svo virðist sem við séum búin að ná tökum á músaganginum með tonni af sementi, glerbrotum, lími og vírgrindum. Og nú verð ég að viðurkenna nokkuð sem mér er mjög óljúft að viðurkenna. Ég er lafhrædd við mýs. Á algjörlega órökréttan og frumstæðan hátt. Þegar við heyrðum í þeim inni hjá okkur fór ég ósjálfrátt að skjálfa á beinununum, hnén á mér gáfu sig og ég hlustaði eftir hljóðum með dúndrandi hjartslátt og þvala lófa. Mér leið hrikalega illa inni í íbúðinni og á þessum örfáu vikum hef ég horast niður. Ég er samt öll að koma til. Matarlystin er smám saman að gera vart við sig aftur og ég á auðveldara með að sofna á kvöldin. En eftir situr eilítið sært stolt – ég er ekki nándar nærri eins mikill töffari og ég hélt.

Eftir langt blogghlé býð ég upp á tvær ólíkar útfærslur á sömu grunnuppskriftinni. Fallegar smjördeigsbökur með þeyttum fetaosti og gómsætu áleggi. Bökurnar eru einfaldar í framkvæmd og eru sérstaklega viðeigandi núna hjá okkur þegar vorið hefur gengið í garð með tilheyrandi blómaskrúð og hækkandi hitastigi. Uppskriftina fékk ég úr nýjasta hefti Bon Appétit og er ákaflega ánægð með hvernig tókst til.

SJÁ UPPSKRIFT

Frittata með ricotta og kryddjurtum

Mér varð að ósk minni á fimmtudaginn. Við vorum boðin í Þakkargjörðarmat hjá vinum okkar í hverfinu en þau voru að þreyta frumraun sína í að elda heilan kalkún og með því. Maturinn tókst svona ljómandi vel og við eyddum nokkrum klukkutímum í að borða í rólegheitunum. Ég bjó til salat og skonsur en gerðist svo djörf að kaupa graskersböku á markaðnum í staðinn fyrir að baka hana sjálf (þessi litli tímaþjófur gerði það ómögulegt). Ég hafði aldrei áður smakkað graskersböku og verð að viðurkenna, þar sem ég hafði mínar efasemdir, að hún er alveg ljómandi góð. Kannski ég taki mig til og galdra fram eina slíka að ári.

Við fengum vini okkar í heimsókn í hádeginu og ég ákvað að finna eitthvað fljótlegt og létt til að gefa þeim. Ég hafði keypt lífræn egg, ilmandi blaðlauk og ricottaost úr geitamjólk á markaðinum um morguninn og þessi fallegu hráefni rötuðu í þennan stórgóða eggjarétt. Frittata er ítölsk tegund af ommelettu og er töluvert auðveldari en hin klassíska franska (sem krefst smá tækni og æfingar – sjá hér). Frábær og fyrirhafnarlítill hádegisréttur.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: