Ofnbakaðir kartöflubátar með parmesan og steinselju
Frænka Elmars er enn eitt dæmið um hvað við eigum góða að. Hún og hennar fjölskylda eiga bústað og land þar sem þau rækta alls kyns grænmeti. Við höfum notið uppskeru þeirra nokkrum sinnum og pössum alltaf að elda bara það besta úr pokunum sem þau hafa fært okkur.
Þegar við fengum poka af kartöflum úr sveitinni þá ákváðum við að ofnbaka þær og hafa með kræklingum. Við Elmar erum mjög gefin fyrir kræklinga (sjá t.d. hér og hér) og þegar við viljum gera vel við okkur þá skellum við hóflegum skammti í pott og höfum annað hvort baguette eða kartöflur með. Við urðum fyrir þó nokkrum vonbrigðum þegar við fengum okkur kræklinga á ónefndum matsölustað í borginni og fengum picnic (já, úr gulu dósunum) ,kartöflu’strá með bláskelinni. Kannski er ég bara orðin svona snobbuð en ég mæli eindregið með því að sleppa picnic og baka þennan kartöflurétt til að hafa með næstum því öllu sem ykkur dettur í hug. Ég elda hann reglulega og hann fær alltaf góða dóma hjá þeim sem smakka hann. Það þýðir samt að ég styðst ekki við nákvæm hlutföll og uppskriftin er eftir því.