Skip to content

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

Ég er ennþá að jafna mig á hversu litla afganga við áttum frá Þakkargjörðarboðinu okkar og hversu fljótt þeir kláruðust. Mig langar alveg sjúklega mikið í meiri kalkún, sósu og stöppu. Ætli ég verði ekki að grenja okkur inn í eitthvert matarboð þegar að því kemur en við verðum komin aftur út til Brooklyn þegar hátíðin gengur í garð. Mig kitlar í magann við tilhugsunina um að komast aftur í litlu íbúðina okkar, rölta um fallega hverfið og koma lífinu í fastar skorður. Því þó að það sé alltaf gott að vera heima á Íslandi þá finn ég sterklega að líf okkar og heimili er í Bandaríkjunum.

Ég keypti rósakál í Kosti fyrir þessa uppskrift og það var fallegt og ferskt (svona miðað við að hafa verið flutt in frá Bandaríkjunum). Ég gat líka keypt risapoka af pekanhnetum sem var nóg fyrir bæði þennan rétt og pekanbitana.  Sinnepsdressingin passar vel við þetta allt saman, hún er létt og er ekki eins yfirþyrmandi og margar aðrar sem hafa meira fituinnihald. Ef þið eruð að leita að góðu salati með rósakáli og þetta er ekki alveg að falla í kramið þá bjó ég til salat úr grænkáli og rósakáli í fyrra sem var afskaplega gott og var étið upp til agna í Þakkargjörðarpartýinu.

Rósakálssalat með hlynsírópsgljáðum pekanhnetum

(Uppskrift frá Bon Appétit)

  • 1 bolli pekanhnetur
  • 1/4 bolli hlynsíróp
  • 1.5 tsk gróft sjávarsalt
  • 1/4 tsk malaður svartur pipar
  • 1/4 bolli Dijon sinnep
  • 2 msk eplasíders-edik
  • 2 msk ferskur sítrónusafi
  • 1 msk sykur
  • 1/4 bolli ólívuolía
  • 600 g rósakál

Aðferð:

Hitið ofninn í 325°F. Berið smá olíu á álpappír og setjið til hliðar. Hrærið saman hlynsírópi, 1/2 tsk af salti og 1/4 tsk af pipar. Hellið því yfir hneturnar og blandið síðan vel saman. Setjið hneturnar á ofnskúffu og dreifið úr þeim. Bakið í ofni í 5 mínútur, veltið hnetunum og haldið síðan áfram að baka þær þar til þær ristast og hlynsírópið er farið að krauma. Takið úr ofninum og setjið hneturnar strax á álpappírinn. Dreifið vel úr þeim svo þær festist ekki saman þegar þær kólna. Leyfið að kólna alveg.

(Hægt er að matreiða hneturnar 2 dögum fyrirfram. Geymið í loftþéttum umbúðum.)

Setjið vatn í stóran pott og bætið við 1 msk af sjávarsalti. Náið upp suðu og setjið því næst rósakálinu út í pottinn. Eldið þar til kálið verður skærgrænt en ennþá frekar stíft, ca. 5 mínútur. Hellið vatninu frá kálinu, skolið með köldu vatni og leggið síðan til þerris á hreinu viskastykki eða eldhúspappír. Leyfið að kólna alveg. Skerið rósakálið í þunnar sneiðar og setjið í stóra skál.

Hrærið saman sinnepi, ediki, sítrónusafa, sykri og ólívuolíu. Saltið og piprið eftir smekk. Blandið vel saman við rósarkálið og leyfið að standa í 30 – 60 mínútur.

Blandið hluta af hnetunum saman við kálið og flytjið í skál eða á disk. Sáldrið því sem eftir er af hnetum yfir.

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: