Skip to content

Peruskonsur með súkkulaðibitum

Síðustu daga höfum við fylgst úr fjarska með eyðileggingunni í borginni okkar og heyrt í vinum sem komust allir undan storminum heilir á húfi þó margir séu enn án rafmagns og hita. Hverfið okkar í Brooklyn lenti ekki illa í Sandy þar sem það er langt frá ströndinni og liggur hátt. Það voru aðeins nokkur tré sem féllu og vægar vatnsskemmdir. Við þurfum ekki að kvíða því að koma heim í vatnsfyllta, rafmagnslausa íbúð. Það verður forvitnilegt að sjá hversu fljótt þeir ná að koma lestarsamgöngum aftur á en lestir á Manhattan og samgöngur þeirra til og frá Brooklyn eru í algjörum lamasessi.

Ég ætla að taka smá hlé frá Þakkargjörðaruppskriftunum. Ég hef verið að rembast við að skrifa um matseldina á kalkúninum án þess að komast mikið áfram og ákvað þess í stað að nýta blund Þórdísar í að baka. Þessi uppskrift kemur frá uppáhaldsblogginu mínu, Smitten Kitchen, og ég hef verið að bíða eftir réttu tækifæri til að baka skonsurnar. Ég greip gæsina í dag enda veðrið illskeytt og það brakaði hátt í þakinu undan vindinum. Skonsurnar eru mjög góðar, ofnbakaðar perur, stórir súkkulaðibitar og mikið smjör gera gæfumuninn. Passið að hafa perurnar stífar og aðeins óþroskaðar því ef að perurnar eru mjög safaríkar þá verður deigið of blautt og skonsurnar verða fremur flatar. Best er að borða þær samdægurs og það má auðvitað frysta deigið og baka seinna ef heil uppskrift er of mikið magn fyrir heimilisfólkið.

Peruskonsur með súkkulaðibitum

(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)

  • 3 perur, stífar*
  • 190 g hveiti
  • 50 g sykur
  • 1.5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 85 g smjör, kalt og skorið í litla teninga
  • 60 ml (1/4 bolli) rjómi
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 2 egg (1 fyrir deigið, 1 til að pensla yfir)

*Ef perurnar eru mjög safaríkar þá verður deigið of blautt og flest út við bakstur. Ef deigið er of blautt eftir að perunum er blandað saman við bætið þá við meira hveiti þar til deigið verður minna klístrað.

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Flysjið perurnar og skerið steinana frá . Skerið í rúmlega 2 sm teninga. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og raðið perubitunum ofan á. Bakið í ofni í ca. 20 mínútur eða þar til þeir þurrkast aðeins og brúnast aðeins undir. Takið bökunarpappírinn með perubitunum og leggið á grind. Leyfið að kólna þar til bitarnir verða volgir. Ekki slökkva á ofninum. Setjið annan bökunarpappír ofan á ofnplötuna.

Hrærið saman hveiti, lyftidufti, salti og sykri saman í hrærivélarskál. Setjið perubitana, smjör, rjóma og eitt egg í skálina. Hrærið saman á lægstu stillingu þar til allt hefur rétt svo blandast saman. Setjið súkkulaðibitana út í og hrærið á lægstu stillingu í 5 sekúndur.

Stráið hveiti yfir hreinan borðflöt. Setjið deigið ofan á og þjappið því saman með höndunum. Mótið það í disk – ca 15 sm að þvermáli. Skerið í 6 eða 8 bita. Flytjið yfir á ofnplötuna. [Hér má setja skonsurnar í frysti og baka síðar, það tekur aðeins nokkrum mínutum lengur að baka.]

Hrærið saman egg og örlítið salt. Penslið skonsurnar með egginu og sáldrið smá sykri yfir.

Bakið skonsurnar þar til þær eru gylltar og bakaðr í gegn, ca. 30 mínútur. Flytjið yfir á grind.

One Comment Post a comment
  1. Spennandi uppskrift eins og svo margar aðrar hjá þér :) Og ég verð að segja að barnið í færslunni fyrir neðan er þvílík krúttsprengja, það eru greinilega fleira en það sem er matarkyns sem heppnast einstaklega vel hjá þér :D

    21/11/2012

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: