Skip to content

Heitur Teitur

Þá erum við komin aftur til Brooklyn eftir langa viðveru heima á Íslandi. Ferðalagið sjálft gekk mjög vel og það kom á daginn að ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur af því að ferðast með ungbarn. Þórdís Yrja stóð sig eins og hetja og svaf næstum því alla leiðina. Ég hafði hins vegar ekki undirbúið mig fyrir það sem við tók. Við stóðum við færibandið á flugvellinum heillengi að bíða eftir síðustu töskunni okkar sem aldrei kom. Þegar við komum heim seint um kvöld í litlu en notalegu íbúðina okkar birtist sorgleg sjón. Íbúðin var grútskítug eftir leigjandann okkar í sumar – hvíta baðherbergið okkar var grátt og svart af óhreindinum og fitubrák þakti gólf, hillur og skápa. Í ofanálag var glugginn galopinn og hafði feykt inn laufum, sóti og öðrum skít. Mér leið eins og ég ætti ekki heima þarna.

Við Elmar, kúguppgefin, tókum smá skurk strax og reyndum að laga aðeins til, skúra og setja saman rimlarúmið. Við gáfumst upp um miðja nótt, fengum okkur bjór, slökktum ljósin og fórum að sofa. Síðustu þrír dagar hafa farið í að þrífa leigjandann út. Sem er hreint ótrúlegt þar sem íbúðin er aðeins 30 fermetrar! En þetta hófst og við erum loksins búin að koma okkur almennilega fyrir, týnda taskan skilaði sér og Þórdís er smám saman að taka nýja umhverfið í sátt.

Fellibylurinn Sandy gerir það að verkum að haustið er ekki eins fallegt í ár og það var í fyrra. Sterkir vindar rifu flest lauf af trjánum – þau liggja brún og morkin á gangstéttum og götum – og viðgerðarmenn standa í ströngu við að laga rafmagnslínur. Kuldinn, ferðalagið og hasarinn við þrifin hafa tekið sinn toll á Elmari og hann er orðinn ansi slappur. Ég ákvað því að búa til heitan áfengan drykk til að reyna að koma honum aftur í fyrra horf.

Ein bandarísk afurð er í miklu uppáhaldi hjá mér. Bandarískt viskí eða bourbon eins og það er kallað hér. Ég hef saknað þess að geta fengið mér smá lögg í glas, jafnvel blandað út í smá heimatilbúið engiferöl eða drukkið einn svona heitan drykk á köldum vetrardegi. En ætli ég þurfi ekki að bíða í nokkra mánuði í viðbót svo ég fari ekki að framleiða áfenga mjólk. Við höfum íslenskað nafnið á þessum drykk en á ensku er þetta kallað ,Hot Toddy’ og er talinn allra meina bót.

Heitur Teitur

(Uppskrift frá Shutterbean)

  • 2 msk hunang
  • 1 tsk engiferrót, rifin
  • safi úr 1 sítrónu
  • 30 ml [2 msk] bourbon (eða annað milt viskí eða romm)
  • 2.5 dl heitt vatn
  • sítrónusneið eða kanilstöng

Aðferð:

Setjið hunang, engifer, sítrónusafa og bourbon saman í stóran bolla. Hellið heitu vatninu yfir og hrærið vel. Skreytið með kanilstöng eða sítrónusneið.

5 athugasemdir Post a comment
  1. Teitur #

    Ég er frægur :)
    I’m hot
    And when I’m not
    I’m cold as ice

    15/11/2012
  2. Guðný Ólafs #

    Ekki skemmtileg aðkoma hjá ykkur! En drykkurinn er spennandi, hef stundum gert svipað, en aldrei dottið í hug að smella viskíi útí! Geri það næst :)

    15/11/2012
  3. Guðríður Ólafsdóttir #

    Elsku Nanna mín. Takk fyrir þetta skemmtilega blogg, þú ert frábær í að gera síðuna þína fallega og girnilega. Ég er full af kvefi í dag, hósta endalaust og hnerra og þá datt mér í hug að kíkja á hann Heita Teit. Ég ætla að prófa að fara eftir uppskriftinni og vita hvort hann geri mér ekki gott. Líst mjööööög vel á uppskriftina. Hafið það sem best í Vesturheimi, kveðja frá Gauju á Snjóvíkinni miklu.

    18/11/2012

Trackbacks & Pingbacks

  1. Ostakökubrownies | Eldað í Vesturheimi
  2. Brooklyn | Eldað í Vesturbænum

Skildu eftir athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: