Frönsk lauksúpa
Samfara skyndilegri hitabylgju heima á Íslandi hefur hitinn hérna snarlækkað og ég hélt að andlitið ætlaði að frjósa af mér þegar ég hljóp upp á jógastöð í morgun. Við erum í þeirri leiðinlegu aðstöðu að geta ekki stjórnað hitanum inni í íbúðinni okkar, það er hitakútur í kjallaranum sem hitar allt húsið og við erum upp á náð húseigandans komin þegar það kemur að hitastigi í húsinu. Honum finnst greinilega ekki kominn tími á að setja kyndingu á fullt og því er Elmar búinn að flytja vinnuaðstöðu sína upp að ofninum og ég klæði mig í allar lopaflíkur sem ég finn inni í skáp. Við (lesist: Elmar) erum búin að stoppa upp í allar sprungur og glufur með dagblöðum og föndrað við leiðir til að einangra loftkælinguna (sem hleypir inn svellköldu lofti). Ég ákvað því í tilefni veturs og fimbulkulda að búa til ekta vetrarrétt – franska lauksúpu.
Frönsk lauksúpa
(Örlítið breytt útgáfa, Julia Child: Mastering the Art of French Cooking)
4 meðalstórir gulir laukar, skornir í þunnar sneiðar
30 g smjör
1/2 msk olía
1 tsk salt
1/4 tsk sykur (hjálpar lauknum að brúnast)
1 1/2 msk hveiti
1 l nautasoð
60 ml þurrt hvítvín
Sjávarsalt
Ferskur pipar
1 1/2 msk koníak
Ristað brauð
Ostur, rifinn eða skorinn; parmesan, svissneskur eða annar góður ostur sem bráðnar auðveldlega
Aðferð:
Bræðið smjörið og hitið olíuna í stórum potti undir lágum hita. Bætið lauknum saman við, lokið pottinum og eldið í 15 mínútur.
Takið lokið af pottinum og hækkið hitann undir pottinum (í meðalhán hita) og hrærið saltinu og sykrinum saman við. Eldið í 30 til 40 mínútur og hrærið reglulega í pottinum þangað til að laukurinn verður gullinbrúnn og jafnt steiktur.
Setjið soðið í pott og náið upp suðu. Lækkið hitann og haldið soðinu á hægri suðu.
Bætið hveitinu saman við og hrærið í ca. 3 mínútur.
Takið pottinn af hitanum og blandið sjóðandi heitu soðinu saman við. Bætið við víninu og saltið og piprið eftir smekk. Náið upp suðu og lækkið svo hitann og haldið á hægri suðu í 30 til 40 mínútur til viðbótar. Haldið áfram að smakka súpuna til og bætið við salti og pipar eftir smekk.
(Á þessum tímapunkti má slökkva undir súpunni og geyma hana.. Náið bara upp suðu áður en hún er borin fram og framkvæmið eftirfarandi þrep.)
Hrærið koníakinu saman við. Hellið súpunni í súpuskálar og setjið ristaða brauðsneið ofan á hverja skál, setjið ostinn ofan á brauðið og stingið inn í forhitaðan ofn og bakið þar til að osturinn hefur bráðnað.
Fyrir 3 – 4
Geðveikt gott sko.
Vá hvað ég vorkenni ykkur að búa við svona kulda! Bara nokkrir dagar í langar heitar sturtur, sundlaugar og funheit hús! Hlakka til að sjá ykkur ;)
Hver er með koníak og hvítvín bara á standby?
Þegar hvítvínið kostar bara 3-5 dali út í búð og míníflaska af koníaki 2 dali þá getur maður verið með svona á standby.
….
Ekki hata mig.
Einhverntíman áttum við sérstakar súpuskálar fyrir lauksúpu. Þær voru keyptar á Mallorca fyrir margt löngu (þegar Nanna var 5 ára og Embla Ýr í ofninum). Í þeirri ferð vorum við með Júlla og Dúddu og borðuðum úti á hverju kvöldi. Júllí hafði sérstakt dálæti á argentískum stað sem seldi lauksúpu og nautasteikur. Hann talaði oft um hvað lauksúpan var góð og þegar við gengum fram hjá þessum stað (sem hét El Cheibo) þá sagði hann gjarnan: „eigum við ekki að fá okkur lauksúpu?“ Síðan settumst við inn á staðinn og Dúdda fékk lauksúpu meðan Júlli borðaði nautasteik með gómsætum sósum.
Ætla að gera þessa í kvöld :D
Vei!