Skip to content

Posts from the ‘Súpa’ Category

Sæt kartöflusúpa með karrí & geitaostsskonsur

Þórdís er tiltölulega nýbyrjuð hjá dagmömmu og er því farin að kynnast alls kyns nýjum veirum og veikindum. Á þeim dögum sem henni líður betur reynum við að nýta fallega haustveðrið í góða göngutúra saman. Við skoðum kisurnar í Vestubænum, löbbum niður að sjó og keyrum rauðu kerruna hennar upp og niður Laugaveginn. Um daginn fórum við á stórskemmtilega barnatónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem Þórdís fylgdist með undrandi og skeptísk á svipinn.

Í þessu haustlega veðri er mjög viðeigandi að fá sér súpu. Það þarf þó alltaf að ýta svolítið við mér til að fá mig til að elda súpu og í raun er eina skothelda leiðin í þeirri viðreynslu að benda mér á gott brauð sem hægt er að baka eða rista til að hafa með. Það var á köldum degi fyrr í mánuðinum þar sem ég rakst á þessa súpu og þessar skonsur hjá Joy the Baker þegar ég fann mig knúna til að standa yfir mallandi potti.

Súpan er mjög góð – krydduð og seðjandi en kannski eru það geitaostsskonsurnar sem fanga helst athyglina. Þær eru alveg frábærar – mjúkar, volgar og með eilítið stökkri skorpu. Það allra besta við þær er að það tekur örfáar mínutur að búa til deigið og aðeins korter að baka þær inni í ofni.

SJÁ UPPSKRIFT

Frönsk lauksúpa

Það er búið að vera svo kalt hjá okkur að ég er næstum því komin með heimþrá. Tólf stiga frost, vindur og raki í lofti gera það að verkum að manni líður eins og það sé verið að naga í kinnarnar á manni og nefið sé við það að detta af. Við erum því ekki mjög ötul við að fara út þessa dagana og reynum frekar að læra heima og leika við Þórdísi. Svona fimbulkuldi og mikil innivera kallar á eitthvað ljúffengt sem yljar manni.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikil súpukona. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um það, sérstaklega þegar ég ramba á einhverja góða uppskrift (eins og þessa). Ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem gæti borðað súpur í öll mál en í nærri því öllum tilfellum þá fæ ég mér smá súpu og borða svo þyngd mína í brauði með smjöri.

Franska lauksúpan hennar Juliu Child er þó undanskilin þessari súpufælni minni. Ég hef skrifað um hana hérna  fyrir löngu síðan, áður en ég fattaði hvernig myndavélar og lýsing virkuðu og því miður gera myndir mínar þar þessari ljúffengu súpu engan greiða. Mig langaði því til að skrifa nýja færslu með nýjum myndum til að hvetja ykkur til að malla þessa súpu því hún ætti engan að svíkja. Hún er mjög einföld en krefst þó smá þolinmæði. Það er mikilvægt að gefa lauknum tíma til að verða dökkgylltur á litinn svo að útkoman verði sem allra best, þetta gæti tekið rétt rúman klukkutíma. Ég stend alltaf í táraflóði þegar ég er að skera lauk og því hjálpar mér mikið að eiga svona mandólín* sem gerir það að verkum að ég er eldsnögg að skera hann niður.

[*Ef þið hafið áhuga á slíkum grip þá sá veit ég að Pipar og salt á Klapparstíg selja hann.]

SJÁ UPPSKRIFT

Tælensk karrísúpa með núðlum og risarækjum

Ég er smám saman að venjast móðurhlutverkinu. Svona í gegnum móðuna sem svefnleysi og brjóstagjöf skapa. Dagarnir líða hratt og mér finnst ég varla farin á fætur þegar það fer að rökkva og ég berst við að halda augunum opnum. Ég var eiginlega búin að gleyma hversu hratt það haustar á Íslandi og hversu ótrúlega stutt þessi árstíð er hérna heima. Mér finnst eins og veturinn sé rétt handan við hornið með tilheyrandi skammdegi og kulda. Satt best að segja sakna ég milda haustsins í New York og ég sé bændamarkaðinn okkar í hillingum þegar ég hugsa um matargerð þessa dagana. En haustfegurðin á Íslandi er mikil og við ákváðum að fara í bíltúr á Þingvelli til að njóta litanna og veðursins í gær. Mér þykir afskaplega vænt um Þingvelli en ég vann þar sem landvörður nokkur sumur og þekki því þjóðgarðinn mjög vel.

Það er orðið alltof langt síðan ég setti inn færslu af einhverju sem ekki er sætt og eftirréttarvænt. Og með lækkandi sól og hitastigi er tilvalið að malla súpu. Þessi súpa er ofboðslega góð, hún er krydduð og með miklu engiferi og sítrusávöxtum. Núðlurnar og kartöflurnar gera hana matarmikla og seðjandi og mér finnst mjög mikilvægt að strá fullt af ferskum kóríanderlaufum yfir súpuskálina. Ég notaði risarækjur en upprunalega uppskriftin notaði kjúklingabringur og því má auðvitað skipta rækjunum út fyrir ódýrara hráefni. Ég notaði alltof mikið af núðlum þegar ég bjó réttinn til þannig að ég hef minnkað magnið töluvert í uppskriftinni hér að neðan.

SJÁ UPPSKRIFT

,Butternut’-graskerssúpa

Ef það er eitthvað sem ég hef alltaf saknað við Ísland þegar ég er fjarri þá er það einangrunin í húsunum og ofnkyndingin. Það er ekkert grín að vakna í íbúð sem er ísköld og það er ekkert sem þú getur gert í því. Þegar ég bjó í Edinborg og var að skrifa ritgerðir í desember þá sat ég á milli tveggja rafmagnsofna, í lopapeysu, föðurlandi, íslenskum lopasokkum, með grifflur og húfu og drakk heitt te af miklum móð í örvæntingafullri tilraun til að halda á mér hita. Nú hefur haustið hafið innreið sína í Brooklyn en það er ekki byrjað að hita kofann. Við vöknuðum því í gærmorgun köld, slöpp og kvefuð og drógum fjall af lopaklæðnaði úr fataskápnum. Það var því tilvalin dagur til að kveikja á ofninum, baka grænmeti og malla súpu.

Ég hafði keypt tröllvaxið ,butternut’grasker af bændamarkaðnum deginum áður. Ég skar það í tvennt, skellti því inn í ofn og leyfði því að bakast þar í rúman klukkutíma. Graskerið er sætt fyrir en verður enn sætara við ofnbakstur. Ég setti múskat og salvíu í súpuna en ég held að hún sé líka góð með karríkryddi, chili, geitaosti, timíani eða engiferi. Möguleikarnir eru margir og auðvelt að leika sér með uppskriftina.

SJÁ UPPSKRIFT

Haustsúpa með glóðuðu eggaldini og tómötum

Það er orðið haustlegt hjá okkur. Suma daga gustar köldu en aðra daga nær maður ekki andanum fyrir rakanum í loftinu. Miklar hitabreytingar gera það alltaf að verkum að ég finn fyrir kvefi og smá slappelsi og til að afstýra mögulegum veikindum ákvað ég að búa til súpu.

Kannski ég ætti að vera hreinskilin og viðurkenna að það tók mig nokkur ár að finnast súpur góðar. Ég var auðvitað alltaf hrifin af íslensku kjötsúpunni og þegar ég var barn var ég óð í aspassúpu úr dós (bjakk!). En súpur voru ekki eitthvað sem mig langaði til að búa til, panta á veitingastað eða almennt sóa magaplássi í að borða. Svo eignaðist ég töfrasprota. Allt í einu þurfti ég ekki að borða súpur sem voru í raun bara soð með allskyns niðursneiddu grænmeti heldur voru þykkar, bragðmiklar og kekkjalausar.

Ég fann þessa uppskrift á einu uppáhaldsmatarbloggi mínu, smitten kitchen. Eggaldin og tómatar hafa hertekið bændamarkaðina hérna og eru skýrt merki um að við nálgumst lok sumaruppskerunnar. Þessi súpa leynir á sér, hún vinnur enginn fegurðarverðlaun enda svolítið skrítin á litinn en glóðaða grænmetið kemur vel í gegn og gefur bragðinu meiri dýpt en hefði því verið hent beint í pottinn. Þetta er fullkomin haustsúpa.

SJÁ UPPSKRIFT

Hvítlaukssúpa með tímíani og parmesanosti

Gleðilegt nýtt ár! Við Elmar erum nýkomin aftur í litlu íbúðina okkar eftir langt og gott frí heima á Íslandi. Ég kem reyndar út afvelta af kjöt- og súkkulaðikonfektsáti og býst við að ég borði lítið annað en grænmeti og fisk næstu vikurnar til að rétta mig af. Göturnar hérna úti er þaktar slabbi og pollum enda eru síðustu snjóskaflarnir að bráðna. Þetta er reyndar afar leiðinlegt ástand þar sem maður á erfitt með að labba út í búð án þess að koma heim með blauta og kalda fætur. Elmar hefur þegar fengið vott af flensu og til að aftra því að ég leggist í rúmið (og til að hjálpa bata eiginmannsins) ákvað ég að búa til hvítlaukssúpu. Hvítlaukur á að vera góður fyrir ónæmiskerfið og því ætti þessi súpa að vera mjög holl því það eru hvorki meira né minna en 44 hvítlauksgeirar í henni. Útkoman var líka mjög ljúffeng. Hvítlaukurinn verður mildur og svolítið sætur við eldun (veldur því ekki andremmu) og rjóminn gerir súpuna flauelsmjúka. Bon appetit.

SJÁ UPPSKRIFT

%d bloggurum líkar þetta: