Frönsk lauksúpa
Það er búið að vera svo kalt hjá okkur að ég er næstum því komin með heimþrá. Tólf stiga frost, vindur og raki í lofti gera það að verkum að manni líður eins og það sé verið að naga í kinnarnar á manni og nefið sé við það að detta af. Við erum því ekki mjög ötul við að fara út þessa dagana og reynum frekar að læra heima og leika við Þórdísi. Svona fimbulkuldi og mikil innivera kallar á eitthvað ljúffengt sem yljar manni.
Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikil súpukona. Stundum hef ég reynt að telja mér trú um það, sérstaklega þegar ég ramba á einhverja góða uppskrift (eins og þessa). Ég vildi óska að ég væri ein af þeim sem gæti borðað súpur í öll mál en í nærri því öllum tilfellum þá fæ ég mér smá súpu og borða svo þyngd mína í brauði með smjöri.
Franska lauksúpan hennar Juliu Child er þó undanskilin þessari súpufælni minni. Ég hef skrifað um hana hérna fyrir löngu síðan, áður en ég fattaði hvernig myndavélar og lýsing virkuðu og því miður gera myndir mínar þar þessari ljúffengu súpu engan greiða. Mig langaði því til að skrifa nýja færslu með nýjum myndum til að hvetja ykkur til að malla þessa súpu því hún ætti engan að svíkja. Hún er mjög einföld en krefst þó smá þolinmæði. Það er mikilvægt að gefa lauknum tíma til að verða dökkgylltur á litinn svo að útkoman verði sem allra best, þetta gæti tekið rétt rúman klukkutíma. Ég stend alltaf í táraflóði þegar ég er að skera lauk og því hjálpar mér mikið að eiga svona mandólín* sem gerir það að verkum að ég er eldsnögg að skera hann niður.
[*Ef þið hafið áhuga á slíkum grip þá sá veit ég að Pipar og salt á Klapparstíg selja hann.]
Frönsk lauksúpa
(Örlítið breytt uppskrift frá Julia Child: Mastering the Art of French Cooking)
- 700 g laukur, skorinn í þunnar sneiðar
- 40 g smjör
- 2 msk ólívuolía
- 1 tsk salt
- 1/4 tsk sykur
- 3 msk hveiti
- 1 lítri nautasoð (eða grænmetissoð)
- 1/2 bolli þurrt hvítvín eða þurr vermúti
- Salt og pipar
- 1/2 baguette brauð skorið í sneiðar
- 1-2 bollar gruyere eða parmesan eða annar bragðgóður ostur sem bráðnar auðveldlega
Aðferð:
Setjið smjörið og ólívuolíuna í stóran þungan pott yfir lágum hita, bræðið smjörið. Þegar smjörið hefur bráðnað skal setja allan laukinn út í pottinn og hræra vel svo laukurinn þekjist fitu. Setjið lok yfir pottinn og leyfið að malla í 15 mín.
Takið lokið af pottinum, hrærið salti og sykri saman við og hækkið hitann upp í meðalháan hita. Eldið í ca. 40 mínútur og hrærið mjög reglulega í lauknum. Laukurinn er tilbúinn þegar hann er allur orðinn dökkgylltur á litinn.
Setjið nautasoðið í pott og náið upp suðu.
Sáldrið hveitinu yfir laukinn þegar hann er tilbúinn og hrærið saman í 3 mínútur.
Takið pottinn með lauknum af hitanum og hellið víninu og sjóðandi nautasoðinu yfir. Hrærið öllu saman og saltið og piprið eftir smekk. Setjið aftur yfir hita og leyfið að hægsjóða í 30 – 40 mínútur.
[*Hér má líka geyma súpuna þar til hana á að bera fram. Náið upp hægri suðu og leyfið að malla í hálftíma svo hún verði alveg heit í gegn.]
Hitið ofninn í 160°C/325°F. Setjið brauðsneiðarnar á ofnplötuna og bakið inni í ofni í 10 mínútur, snúið síðan sneiðunum við og bakið í aðrar 10 mínútur. Sneiðarnar eiga að verða stökkar. Takið ofnplötuna út og sáldrið ostinum yfir sneiðarnar. Bakið inni í ofni þar til osturinn hefur bráðnað.
Berið súpuna fram í skálum með 1 eða 2 brauðsneiðum með osti ofan á.
Fyrir 4 – 5
Hvað er vermúti?
Vermút er styrkt (sætt eða þurrt) hvítvín kryddað með ýmsum jurtum. Á ensku er það kallað „vermouth“.