Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti
Ég er orðin svo yfir mig ástfangin af Brooklyn og þá sérstaklega fallega hverfinu okkar að það kemur alltaf á mig hik þegar fólk vill hitta mig hinum megin við ána á Manhattan. Ef ég veit að ég þarf að fara í miðbæ Manhattan þá þarf ég að tala mig aðeins til því að litla sveitastelpan sem blundar í mér er ekkert sérstaklega æst í að labba í mannmergðinni með ljósasýninguna fyrir augunum og flautulæti leigubílstjóranna í eyrunum. Og sem betur fer þarf ég ekki að fara oft þangað þar sem ég vinn heima og ég þarf ekki að leita langt til að finna frábæra veitingastaði, skemmtilega pöbba og flotta matarmarkaði. Ef þið eruð að ferðast til New York þá mæli ég eindregið og sterklega með því að þið eyðið (að minnsta kosti!) einum degi í einhverju skemmtilegu hverfi (því ekki eru þau öll fríð og fjörug) í Brooklyn.
Eins og ég hef minnst áður á er kominn nýr slátrari í hverfið okkar. Slátrarinn selur einungis kjöt sem hefur fengið eðlilega meðferð – fengið að labba úti í haga, borða gras en hefur ekki verið sprautað með hálfu tonni af sýklalyfjum og troðið út af korni. Ég trúi því staðfastlega að dýr sem alin eru við ,náttúrulegar’ aðstæður gefa af sér betra kjöt heldur en dýr sem alin eru við dapurlegar aðstæður verksmiðjubúskapar. Að minnsta kosti er kjötborð slátrarans það fallegasta sem ég hef séð og allir starfsmennirnir eru lærðir í iðninni og vita því sínu viti. (Kannski reyni ég að fá leyfi hjá þeim til að taka myndir fyrir ykkur.)
Við rákum augun í nautavöðva sem þeir mæltu sérstaklega með í salat síðasta sunnudag og héldum heim á leið með eldrautt kjötið, appelsínugula kirsuberjatómata af bændamarkaðnum og ost úr búðinni undir hendinni. Úr varð þetta unaðslega (ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það), fallega og einfalda steikarsalat. Við elduðum kjötið þannig að það fékk á sig smá skorpu en var ennþá fagurrautt og meyrt að innan. Sinnepsvínagrettan passaði einstaklega vel við kjötið og litlu tómatarnir spýttu út úr sér sætum og ferskum safa þegar maður beit í þá. Þetta er án alls efa eitt það besta sem hefur komið út úr mínu eldhúsi.
Steikarsalat með kirsuberjatómötum og gráðosti
(Breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)
- 300 g nautakjöt, skorið í tvennt á lengdina ef það er mjög þykkt og fita skorin frá ef mjög feitt [við vorum með afturhryggjarvöðva, sirloin]
- Salt og pipar
- 1 – 2 msk ólívuolía [ég notaði 25 g af smjöri og 1 msk af ólívuolíu]
- 1 bakki kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
- 100 g gráðostur, mulinn
- 250 g klettasalat
- 2 vorlaukar, fínt sneiddir eða 3 msk graslaukur, saxaður eða 3 msk rauðlaukur, fínt saxaður
- Vínagretta [uppskrift neðar]
Aðferð:
Passið að kjötið sé við stofuhita þegar byrjað er og stráið salti og pipar yfir báðar hliðarnar á kjötinu. Hitið pönnu á meðalháum hita og bætið við ólívuolíu [eða smjöri og ólívuolíu]. Þegar olían hefur hitnað mjög vel [eða smjörið alveg bráðnað en ekki farið að brúnast] leggið kjötið á pönnuna. Steikið í 2 – 3 mínútur á hvorri hlið fyrir meðalhrátt kjöt. Flytjið kjötið yfir á skurðarbretti, leggið álfilmu yfir og leyfið að hvílast í í ca. 5 mínútur.
Dreifið klettasalatinu yfir stóran disk. Skerið kjötið í þunnar sneiðar og leggið yfir salatið, sáldrið kirsuberjatómötunum og mulda gráðostinum yfir. Sáldrið smá vínagrettu yfir diskinn og stráið lauknum síðan yfir allt saman. Berið fram ásamt afganginum af vínagrettunni.
Sinnepsvínagretta:
- 1 msk dijon-sinnep
- 2 msk hvít- eða rauðvínsedik
- 1/2 tsk worcestershire-sósa
- 1/2 tsk hunang
- 1/3 bolli [80 ml] ólívuolía
- Salt og pipar
Aðferð:
Hærið hráefninu saman. Saltið og piprið eftir smekk. Smakkið til og bætið við hráefni ef þarf.
Fyrir 2 – 3
Þetta er held ég það girnilegasta sem ég hef séð á síðunni þinni, og er þó úr mörgu að velja !
Eindregið OG sterklega hehe
Ætli gráðosturinn sé of spes til að hægt sé að skipta honum út fyrir eitthvað annað? Ég er að vinna í þessu, en mér finnst hann ennþá svo vondur.
Ég skil þig mjög vel, ég er nýbyrjuð að borða gráðost sjálf. Okkur datt í hug að kannski sé gaman að setja brie eða mildan camembert með salatinu. Ég held að ef þú viljir hafa ost í salatinu þá þarftu eitthvað með smá bragði, mozzarella er líklega of mildur. Svo geturðu auðvitað bara sleppt ostinum alfarið og stráð smá fleur de sel eða grófu sjávarsalti yfir salatið í staðinn til að fá seltuna sem gráðosturinn gefur.
Hæhæ,
Takk fyrir frábærlega skemmtilegt blogg og girnilegar uppskriftir:) Mig langar að spyrja þig…hvaða hverfi (hverfum) í Brooklyn mælirðu með fyrir fjölskyldufólk í sumarfríshugleiðingum og hvaða hverfi ætti að varast?
Park Slope hverfið er mjög fjölskylduvænt og skemmtilegt hverfi með mikið af veitingastöðum, kaffihúsum og litlum búðum. Svo eru hverfin sem liggja mjög nálægt Manhattan; Brooklyn Heights, Cobble Hill, Carroll Gardens og Boerum Hill (lítil hverfi sem eru öll mjög nálægt hver öðru) skemmtileg. Williamsburg er öðruvísi hverfi sem er fullt af ungu, hip og kúl fólki. Og Fort Greene er líka fínt hverfi þó ég hafi ekki mikið eytt tíma þar.
Forðastu hverfi eins og Bedford-Stuyvesant, Bushwick (þó að vesturhluti þess er í lagi), Crown Heights og Flatbush. Það er best að halda sig í vesturhluta Brooklyn (öll hverfin sem ég minntist á að ofan falla í þann flokk) og þá er líka mun styttra yfir til Manhattan.
Takk fyrir þetta:)
Mmm rosalega girnilegt .. það væri mjög gaman að sjá myndir frá slátraranum!